Æfingar á aðalverkefni Freyvangsleikhússin, Himnaríki – geðklofinn gamanleikur, hófust strax eftir áramót en frumsýnt verður 17. febrúar n.k. Verkið var fyrst sett upp hjá Hafnarfjarðarleikhúsinu 1995 og naut strax mikilla vinsælda, en þess má geta að Leikfélag Ölfuss setti verkið upp nú á haustdögum við góðar undirtektir.

 

Höfundur verksins er Árni Ibsen sem er vel þekktur fyrir ýmis leikrit, s.s. Skjaldabakan kemst þangað líka, Afsakið! Hlé og Fiskar á þurru landi. Árni hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf sín og þýðingar um ævina en hann lést 21. ágúst 2007, 59 ára gamall. Leikstjóri uppsetningarinnar er Jón Gunnar Þórðarson sem er að góðu kunnur fyrir leikstjórn bæði hjá áhugaleikfélögum og atvinnuleikhúsum en hann hefur m.a. leikstýrt Með fullri reisn hjá Leikfélagi Hörgdæla og Rocky Horror hjá Leikfélagi Akureyrar.

Með hlutverk fara Brynjar Gauti Schiöth sem sló rækilega í gegn í Svejk, Hildur Axelsdóttir sem fyrst sló í gegn sem Ronja ræningjadóttir, Inga María Ellertsdóttir sem sló í gegn í Rocky Horror, Jóhann Axel Ingólfsson sem sló eftirminnilega í gegn sem asninn í Kardimommubænum, Ólöf Huld Matthíasdóttir sem slær í gegn hvar sem hún kemur og Steingrímur Magnússon sem hefur slegið í gegn bæði sem Borkaræningi og indíáni, auk þess að slá í gegn í Svejk.

Leikritið gerist í sumarbústað og er leikið á tveimur sviðum í einu. Búið er að skipta stóra salnum í Freyvangi upp í tvo minni og skipta áhorfendur um sal í hléi og sjá þannig bæði það sem á sér stað inni í sumarbústaðnum og hitt sem gerist utan dyra.

{mos_fb_discuss:2}