Hugleikur
Sá glataði
Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir
Tíu Hugleikarar og einn fiðluleikari frumsýndu laugardagskvöldið 4. febrúar Þann glataða, fléttuverk úr nokkrum dæmisögum sem hafðar eru eftir „Jesú nokkrum frá Nasaret“, eins og segir í leikskrá. Af þeim biblíusögum sem notaðar eru í ívaf þessa leikverks um Lúkas, glataðan son föður Abrahams, atvinnuleysingja og björgunarmann Babýlonshóru, eru Miskunnsami Samverjinn og Glataði sonurinn veigamestar en alkunnar víngarðs-, talentu-, denara- og grát og gnístransögur Nýja testamentisins eru felldar inn í myndina.
Ótalin er sagan um Týnda sauðinn sem einnig liggur til grundvallar sýningunni en fer nokkuð forgörðum í írafári grótesks brúðkaups og svolítið leiðigjarnra ruddaríðinga ríka fólksins í leikritinu. Vandvirknislegri undanfari endurheimtu Ærinnar Babýlon sem lifað hefur af ótalmörg útlegðarár Lúkasar glataða að því er best verður séð fjárhirðislaust hefði styrkt mjög alla formgerð þessarar sýningar. Mér fannst heldur ekki sannfærandi þegar Lúkas banaði saklausum manni. Hann var ekki nærri nógu hungraður til þess að fremja slíkt voðaverk í von um saðningu.
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir er handritshöfundur Þess glataða en samkvæmt rafrænni kynningu á sýningunni hefur leikhópurinn lagt hönd á plóg við handritsgerð auk leikstjórans, Ágústu Skúladóttur. Sigríður Lára er enginn nýliði í leikritasmíð. Hún hefur áður samið ein fimmtán leikverk og var farin að stunda þá iðju fyrir aldamót. Hugmyndin að baki Þeim glataða er góð, ef ekki ofursnjöll, en glatast nokkuð í meðförunum fyrir þær sakir að því er ég held að Hugleikarar eru afar uppteknir af því að skemmta fólki með tilfyndni sinni. Söngtextar Þorgeirs Tryggvasonar, eða það sem ég gat greint af þeim, voru ekki ósnyrtilega saman settir en virkuðu oft fremur til uppfyllingar en að þeim væri ætlað að undirstrika meginefni verksins. Sama má segja um tónlistina. Um höfunda hennar er hvergi getið í gögnum um sýninguna og það var erfitt að greina einhverja heildstæða hugsun í vali hennar.
Söngur leikaranna hljómaði hins vegar vel og oft undurfallega. Það var einnig afskaplega athyglisvert að þegar leikhópurinn var í hlutverki kórsins lék hann eins og vel stillt hljóðfæri í höndum kunnáttumanns en leikur hvers leikara um sig í einstökum hlutverkum var misjafnlega vandlega unninn. Sýningin hefst á fallegri og afar leikhúslegri mynd þar sem grímurnar á hnakka leikaranna snúa að áhorfendum og síðan upphefst seiðandi söngur við undirleik fiðlunnar. Þarna lofuðu Hugleikararar gestum sínum því að þeir ættu í vændum fallega og vel unna leiksýningu. Að mörgu leyti var staðið við það loforð. Leikrýmið að Eyjarslóð var mjög vel nýtt þetta kvöld, leikmynd, búningar, ljós og leikmunir allt smekklega og biblíulega gert. Mér fannst trén á sviðinu í upphafi reyndar ekki gegna neinu hlutverki og það var mikill léttir þegar þau tóku að færast úr stað.
Þessu var öfugt farið með fiðluleikinn. Hann bæði skapaði og undirstrikaði stemningu í fyrstu atriðum sýningarinnar en varð þegar á leið allt of ríkjandi og smám saman svolítið svæfandi. Um þetta er ekki við fiðluleikarann að sakast. Bæði þaulreyndur leikstjórinn, Ágústa Skúladóttir, og aðstoðarleikstjóri hennar og handritshöfundur, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, vita að minna er oftast meira. Góðar hugmyndir njóta sín best sé þeim ekki otað um of að áhorfendum.
Hér hefur nú verið sagt nokkuð frá kostum sýningar Hugleiks á Þeim glataða en þó kannski meira frá því sem kalla mætti ágalla. Um sýninguna hefði mátt skrifa allt annars konar rýni og dvelja einvörðungu við það sem prýðir hana en það er margt. Sjónrænt er hún óvenju vel unnin sé haft í huga að leikararnir og tækniliðið allt er að því er ég best veit áhugamenn. Leikararnir syngja, leika og hreyfa sig oft eins og ensemble og sumir þeirra hafa einnig sterka sviðsnánd þegar þeir taka sig út úr hópnum og fara þá vel með hlutverk sín. Búningar Kristínu R. Bermann eru ekki bara smekklegir heldur undirstrika á látlausan hátt sunnudagaskólarætur sínar.
Sé á allt litið er sýning Hugleiks á Þeim glataða vönduð og sumar hugmyndirnar að baki hennar gulls ígildi. Nokkuð skortir hins vegar á að úrvinnsla þeirra skili sér til þeirra hlítar sem þær verðskulda.
Trausti Ólafsson