Í hinu alræmda veirustoppi nýtir Þjóðleikhúsið tækifærið og heldur námskeið fyrir leikstjóra. Námskeiðið er í formi tveggja daga Master Class með Yaël Farber sem leikstýrir Framúrskarandi vinkonu í Þjóðleikhúsinu á þessu leikári.
Völdum hópi leikstjóra gefst hér einstakt tækifæri til að kynnast og læra af þessum margverðlaunaða leikstjóra sem leikstýrt hefur víða um heim og er stödd hér á landi vegna æfinga á leikritinu Framúrskarandi vinkonu. Frumsýningu hefur nú verið frestað þar til í mars en það gefur í staðinn tækifæri til að halda þetta námskeið. Nánari upplýsingar og skráning eru á vef Þjóðleikhússins.