Kirsuberjagarðurinn, síðasta og mest leikna leikrit Antons Tsjekhovs verður frumsýnt á Stóra sviði Borgarleikhússins föstudaginn 28. október. Verkið er af mörgum talið eitt besta leikverk allra tíma, angurvært stórvirki þar sem gaman og alvara vegast listilega á. Hilmir Snær Guðnason leikstýrir verkinu en hann hlaut Grímuverðlaun fyrir síðustu uppsetningu sína, Fjölskylduna, sem gekk tvo vetur fyrir fullu húsi í Borgarleikhúsinu. Þýðinguna gerði Árni Kristjánsson.

Halla Gunnarsóttir hannar leikmynd og búninga en hún hlaut Grímuverðlaun fyrir leikmyndahönnun á síðasta leikári fyrir leikmynd sína í Strýhærða Pétri. Sigrún Edda Björnsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Birgitta Birgisdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Rúnar Freyr Gíslason, Guðjón Davíð Karlsson eru í burðarhlutverkum í sýningunni.

Ný kynslóð er tekin við og sú eldri þráast við að opna augun fyrir þeim breytingum sem eru yfirvofandi. Eftir fimm ára fjarveru snýr Ljúbov Ranévskaja heim á ný. Býli hennar ásamt víðfrægum kirsuberjagarði rambar á barmi gjaldþrots vegna mikilla skulda og yfirvofandi er uppboð á eigninni. Fjölskyldan hefur eytt um efni fram án þess að leiða hugann að morgundeginum – enda lömuð af minningunni um fegurð og gleði æskuáranna. Lopakhín reynir að opna augu fólksins sem honum þykir svo vænt um fyrir breyttum tímum og vandanum sem steðjar að. Er hægt að höggva niður kirsuberjatrén? Á meðan fjölskyldan forðast að taka á vandamálunum, kynnast áhorfendur öllu þessu grátbroslega fólki, dætrunum Vörju og Önju, þjónustufólkinu, starfsfólki og vinum fjölskyldunnar. Öll eiga þau drauma og þrár, sumir þrá fortíðina á meðan aðrir eiga sér von um nýtt og betra líf. En öll dreymir þau um ástina – meira að segja Lopakhín.

{mos_fb_discuss:2}