DigiDeLight er verkefni á vegum NEATA sem verður í gangi frá nóvember 2011 til ágúst 2012. Auglýst er eftir þátttakendum frá öllum NEATA-löndunum, leikhópum sem vilja tileinka sér nýtingu starfænnar tækni í hönnun lýsinga og leikmynda. Hvert land má tilnefna einn leikhóp í verkefnið. Verkefnið endar á ráðstefnu sem verður haldin í Sønderborg í Danmörku dagana 31. júlí til 5. ágúst samhliða NEATA-leiklistarhátíðinni 2012.

Vinsamlegast sækið um til Bandalags ísl. leikfélaga fyrir 21. október nk. á netfangið info@leiklist.is. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur til umsækjenda aðrar en þær að þeir hafi áhuga á og séu tilbúnir til að tileinka sér þá stafrænu tækni sem hér um ræðir.

Daninn Peter Rafn Dahm stjórnar verkefninu og byrjar strax í nóvember að heimsækja leikhópana og koma á sambandi milli þeirra allra. Tilgangur hans með heimsóknunum er að kanna aðstæður, tækjaeign og væntingar hvers hóps fyrir sig til að vera sem best undirbúinn fyrir ráðstefnuna.

Verkefnið DigiDeLight greiðir fyrir þátttöku í ráðstefnunni og NEATA-hátíðinni fyrir 3 persónur frá hverjum leikhóp ásamt því að greiða að hámarki 460 Evrur fyrir flugmiða hvers og eins þátttakanda frá Íslandi. Tungumál verkefninsins er enska.

Verkefnið endar með útgáfu handbókarinnar „DigiDeLight (Digital Design and Light) Handbook: New digital ways of creating theatre“.

Nánari upplýsingar á ensku hér.