Nú fer hver að verða síðastur að sjá Einkamál.is eftir Árna Hjartarson í leikstjórn Huldu B. Hákonardóttur og Þorgeirs Tryggvasonar. Frá því Hugleikur frumsýndi verkið 15. apríl sl. hefur verið uppselt á allar sýningar og færri komist að en vildu. Tvær aukasýningar voru því um helgina, en þriðja og allra síðasta aukasýningin verður í kvöld, mánudaginn 9. maí kl. 20.00. Sem fyrr er sýnt í húsnæði leikfélagsins að Eyjarslóð 9.

 

Einkamál.is er dramatískur fjölskyldugamanleikur um samtímafjölskyldu í heimatilbúnum vanda. Hvað gerir barnelskur karl þegar hann kemst að því að einkasonur hans og tengdadóttir hafa ákveðið að eignast ekki börn? Hann tekur málið auðvitað í sínar hendur. En þó hann sé reyndar góður í stærðfræði þá reynist þetta vera dæmi sem hann nær ekki að reikna til enda.

Í leikdómi Silju Aðalsteinsdóttur á vef Tímarits Máls og menningar (http://tmm.forlagid.is) segir m.a. um sýninguna: „Einkamál.is er afbragðs vel fléttaður og vel skrifaður gamanleikur […] Það gleður mann alltaf alveg sérstaklega að sækja sýningar hjá Hugleik en sjaldan held ég að þeim hafi tekist eins vel upp. Efnið er gott, sviðsetningin gerð af skemmtilegri hugkvæmni og leikurinn allur hinn vandaðasti, hófstilltur og einlægur um leið og leikarar túlkuðu skoplegar aðstæður sínar.“

Í leikdómi Lárusar Vilhjálmssonar á Leiklistarvefnum (www.leiklist.is) segir m.a. um uppfærsluna: „Það er skemmst frá að segja að Hugleikur sannar það enn einu sinni að leikfélagið er í fremstu röð þegar kemur að því að setja á svið ný íslensk leikverk.“

Ólíkt mörgum Hugleikshöfundum sækir Árni Hjartarson sér jafnan efnivið í samtímamál, jafnvel þjóðfélagsleg álitamál, og á það stundum til að vera forspár. Af því tilefni er rétt að taka fram að leikritið var skrifað áður en umræðan um staðgöngumæðrun fór af stað.

Níu valinkunnir Hugleikarar fara með hlutverk í uppfærslunni. Þess má geta að síðasta leiksýningin sem þau Hulda og Þorgeir leikstýrðu í sameiningu, Rokk, var valin athyglisverðasta áhugaleiksýningin leikárið 2009-2010 af dómnefnd Þjóðleikhússins og sýnd í Kassanum í tvígang fyrir fullu húsi.

Almennt miðaverð eru 1.500 krónur en 1.200 krónur fyrir nemendur, öryrkja og eldri borgara. Allar nánari upplýsingar um uppsetninguna og leikfélagið má nálgast á vefnum www.hugleikur.is, en þar er einnig tekið við miðapöntunum.

{mos_fb_discuss:2}