Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram í átjánda sinn. Alls sóttu þrettán leikfélög/hópar um með samtals sextán sýningar, og að vanda var það skemmtilegt verkefni að skoða sýningarnar sem sóttu um. Dómnefndina skipuðu að þessu sinni Stefán Hallur Stefánsson, leikari og leikstjóri, auk þjóðleikhússtjóra. Fyrir valinu í ár varð sýning Freyvangsleikhússins í Eyjafirði, Góði dátinn Svejk.

Eftirtalin leikfélög sóttu um með þessar sýningar:

Leikfélag Mosfellssveitar sýndi LÍSU Í UNDRALANDI eftir sögu Lewis Carrol í leikstjórn Agnesar Þorkelsdóttur Wild og Sigrúnar Harðardóttur. Leikrit fyrir börn með börn í hlutverkum. Sýningin var galsakennd og skemmtileg og unnin af natni og tilfinningu fyrir því sem gleður ung augu. Augljóslega vandað til verks hvað varðar tilfinningu ungra leikara fyrir framsetningu og gaman að sjá hvernig hlúð er að framtíðarefnum landsins.

Halaleikhópurinn sýndi GÓÐVERKIN KALLA  eftir þá Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Leikstjórn var í höndum Odds Bjarnasonar og Margrétar Sverrisdóttur. Hér var á ferðinni vel unnin sýning í einfaldri en fallegri umgjörð. Vönduð vinnubrögð skapa skemmtilega kvöldstund þar sem auðvelt er að spegla sig í örlögum og endurfundum kunnuglegra persónugerða.

Hugleikur sýndi HELGI DAUÐANS eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Rúnars Lund og Sigurðar H. Pálssonar. Gamanleik sem byggir á miklu samspili leikara og góðri nýtingu á rými. Erlendar fyrirmyndir úr velþekktum gamanþáttum snarað yfir á íslenskan veruleika vekja hlátur en varpa einnig fram gildum spurningum um tilvistarkreppu íslenskra ungmenna.

Hugleikur sýndi einnig EINKAMÁL  eftir Árna Hjartarson.
Skemmtileg grunnhugmynd og leikflétta þar sem leikarar nutu sín með ágætum. Hugleikur á hrós skilið fyrir nýstárlegar nálganir á nýjum íslenskum leikritum og hugrekki til að prófa nýjan efnivið með mjög frambærilegum árangri. Leikstjórar voru Hulda B. Hákonardóttir og Þorgeir Tryggvason.

afhendingStúdentaleikhúsið sýndi tvær metnaðarfullar sýningar á árinu RÉTTARHÖLDIN eftir Franz Kafka í leikstjórn Friðgeirs Einarssonar. Einstaklega áhugaverða sýning þar sem leiklausnir voru bæði frumlegar, vel unnar og matreiddar innan þess ramma sem leikhópurinn hefur sett sér. Leikstíll hentar vel fáránleika efniviðarins og leikarar skila sínu með prýði. Leikstjóri tekur skýrt val í framsetningu og úr verður frambærileg og vel unnin sýning.

Stúdentaleikhúsið sýndi einnig DNA eftir Dennis Kelly. Leikstjóri Sara Marti Guðmundsdóttir. Vel unnin og áhrifamikil sýning, þar sem umfjöllunarefnið verður einstaklega áleitið í meðförum leikhópsins, sem er á „réttum“ aldri til að takast á við þetta áleitna verk. Efniviðurinn er krassandi, vel útfærður og ber góðri samvinna leikara og leikstjóra vitni.

Leikfélag Ölfuss sýndi STÚTUNGASÖGU. Höfundar eru Ármann Guðmundsson, Hjördís Hjartardóttir, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason en leikstjórn annaðist Ármann Guðmundsson. Stílfærða og snoturlega framsetta sýningu, sem byggir á þjóðþekktu efni. Sögu og tilurð persóna gerð góð skil og ytra atgervi undirstingur vel tíma verksins sem og hljóðmynd.

Leikfélag ungmennafélags Gnúpverja sýndi GAUKSSÖGU. Höfundur er Vilborg Halldórsdóttir og var hún einnig leikstjóri.
Hér var einnig um að ræða sýningu sem byggir á aldagamalli sagnahefð. Umgjörð sýningarinnar var vel unnin og gaman að sjá hvernig boðskapur verksins stenst tímans tönn. Báðar þessar sýningar, STÚTUNGASAGA og GAUKSSAGA hafa mikið fræðslu- og skemmtanagildi og eru þarft innlegg í varðveislu okkar menningararfs.

Tvo leikfélög sýndu verkið MEÐ FULLRI REISN eftir Terrence McNally. Það voru Leikfélag Hörgdæla, en leikstjóri þar var Jón Gunnar Þórðarson, og Leikdeild UMF Íslendings sýndi verkið í leikstjórn Margrétar Ákadóttur
Hörgdælir staðfærðu verkið upp á íslenska bændur í kreppu meðan leikdeild UMF hélt sig við fyrirskrifaðar aðstæður. Báðar þessar sýningar geisluðu af leikgleði þátttakenda og það verður að teljast afrek í sjálfu sér að fá jafnmarga karlmenn til þátttöku í áhugastarfi. Að ekki sé nú talað um það að fá þá til þess að striplast fyrir framan sveitunga sína.

Litli leikklúbburinn sýndi EMIL Í KATTHOLTI eftir Astrid Lindgren í leikstjórn Elvars Loga Hannessonar Sýning fyrir börn þar sem vel var vandað til verks. Ungir leikarar blómstra í krefjandi hlutverkum. Vel þekkt sagan og sönglög sem hafa greypt sig í þjóðarsálina eru hverri kynslóð nauðsynlegt veganesti. Aðstandendur bera augljósa virðingu fyrir efnivið og boðskap verksins, enda á hann erindi við áhorfendur á öllum aldri. Þetta var 80.verkefni Leikklúbbsins á 45 ára afmæli hans.

Leikfélag Selfoss sýndi HIÐ DULARFULLA HVARF HOLLVINAFÉLAGSINS Nútímaverk, samið í spunavinnu af leikhópnum og leikstjóranum Gunnari Birni Guðmundssyni. Leiklausnir voru einfaldar og skýrar og leikhópurinn samstilltur og kröftugur. Sýningin ber metnaðarfullu starfi Leikfélags Selfoss vitni, sem fær rós í hnappagatið fyrir að stuðla að nýrri íslenskri leikritun.

Leikfélag ungmennafélagsins Grettis sýndi EINN KOSS ENN OG ÉG SEGI EKKI ORÐ VIÐ JÓNATAN eftir Marc Camoletti. Leikstjóri var Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir. Verkið er snotur kómedía sem unnin er af natni og húmor. Afkáralegar kringumstæður, misskilningur og hurðaskellir verksins draga áhorfandann á kunnuglegar slóðir farsakenndrar framvindu og njóta leikarar sín vel í tæknilega erfiðum hlutverkum.

Leikfélag Vestmannaeyja sýndi MAMMA MÍA eftir Þórunni Ernu Clausen í leikstjórn Guðjóns Þorsteins Pálmarssonar. Líflega sýningu byggða á efnið sem er bæði stolið og stælt úr samnefndir kvikmynd og söngleik við tónlist hljómsveitarinnar ABBA. Hvað höfundarrétt varðar, þá er brýnt að leikfélögum láti ekki listrænan metnað leiða sig í ógöngur svo vafi um lögmæti sýninga skyggi ekki á annars ágæta sýningu.

Freyvangsleikhúsið sýndi BANNAÐ BÖRNUM eftir Daníel Frey Jónsson, Hjálmar Arinbjarnarson, Karl Pálsson og Sverri Friðriksson. Nýtt verk samið af fjórum leikfélagsmönnum þar sem ýmiss þjóðleg minni setja svip á atburðarásina og Góða dátann Svejk, heildstæða sýningu á klassísku meistaraverki sem heppnaðist einkar vel.

sveyk2Og þá er komið að því að kynna niðurstöðu dómnefndar um val á athyglisverðustu áhugasýningu leikársins 2010 til 2011.
Fyrir valinu varð að þessu sinni GÓÐI DÁTINN SVEJK, leikgerð Colin Teevan eftir sögu Jaroslav Hasek, í uppsetningu Freyvangsleikhússins. Leikstjóri var Þór Tulinius.

Umsögn dómnefndar:
Sýningin ber merki þess að vera unnin af dirfsku og áhuga. Vilji, metnaður og geta lýsa einbeittum ásetningi til að koma sögunni til skila með snjöllum og hugvitsamlegum lausnum. Ytri útfærsla, hvað varðar búninga, leikmynd og lýsingu er til fyrirmyndar.  Allir leggjast á eitt um að koma meistaraverki Hasek upp á svið með glæsibrag. Brynjar Gauti Schiöth, sem leikur Svejk, stendur sig frábærlega sem hin einfaldi en athuguli samfélagsrýnir og Ingólfur Þórsson er einkar tr
úverðugur í túlkun sinni. Svipaða sögu er að segja um allan hópinn sem í samvinnu við leikstjórann, Þór Tulinius, tónlistarstjórann, Hermann Inga Arason og aðra sem að verkefninu komu, nær að skapa heildstæða og frumlega sýningu.

Þjóðleikhúsið óskar Freyvangsleikhúsinu til hamingju með sýninguna og býður leikfélaginu að sýna Góða dátann Svejk í Þjóðleikhúsinu í lok maí 2011.

{mos_fb_discuss:2}