Ávarp á alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2011
Samkoman í dag, á alþjóðlegum degi leiklistarinnar, er sönn mynd af ótrúlegri getu leikhússins að virkja fólk og byggja brýr. Hafið þið einhvern tíman hugsað út í það hve öflugt tæki leikhúsið gæti verið til friðar og sátta? Ríkisstjórnir fjárfesta ógnarsummur í friðarsveitum á átakasvæðum, en fáir líta á raunverulega möguleika leikhússins til að leysa deilur og átök manna í milli. Hvernig eiga jarðarbúar að skapa alheims frið þegar aðferðirnar og tækin koma frá framandi og kúgandi öflum?
Leikhúsið breytir mannssálinni á margvíslegan hátt þegar hún er fangi ótta og vantrausts. Þannig breytist sjálfsmynd hennar og opnar heim ótal tækifæra fyrir fólk og þar með samfélög. Leikhúsið getur gefið lífinu tilgang og jafnframt gert framtíðina svolítið tryggari. Það getur á afar einfaldan og beinskeyttan hátt haft áhrif á stjórnmálalegt ástand samfélaga vegna þess að leikhúsinu er ekkert óviðkomandi og það getur tekið á öllum málum, – getur miðlað reynslu sem hjálpar til við að eyða fordómum og leiðrétta misskilning.
Auk þess býr leikhúsið að reynslu í að tala fyrir og útbreiða sameiginlegar hugmyndir okkar og hugsjónir sem við erum reiðubúin til að berjast fyrir.
Til að leggja grunninn að framtíð í friði verðum við að byrja á að nota friðsamar aðferðir og leitast við að skilja, virða og viðurkenna framlag hvers einasta manns til að byggja upp frið. Leikhúsið er þetta alheimstungumál sem við getum nýtt til friðar, skilnings og sátta.
Með því að virkja leikhúsið, leikara og áhorfendur er hægt að hjálpa mörgum við að hugsa hlutina að nýju, brjóta niður fyrirfram ákveðnar skoðanir, hvetja til umhugsunar og endurfæðingar nýrrar heimsmyndar og koma þannig mikilvægum þjóðfélagsbreytingum til leiðar.
Leiklistin á að geta blómstrað innan allra listgreina og þess vegna verðum við að hafa kjark til að stíga skrefið áfram – með því að sameina leikhúsið lífi okkar og hjálpa okkur þannig að meðhöndla lífsgátur og splundra martröðum stríðsins. Í viðleitni til umbreytinga og umbóta samfélagsins hefur leikhúsið margsinnis látið til sín taka þar sem langvarandi fátækt og sjúkdómar ríkja eða stríðsrekstur. Við höfum orðið vitni að æ fleiri tilfellum þar sem leikhúsinu hefur tekist að virkja fólk, efla meðvitund þess og aðstoða stríðshrjáða. Vettvangur eins og Alþjóða leiklistarstofnunin sem hefur að markmiði að „tryggja frið og vináttu milli þjóða“ er vissulega til staðar.
Þess vegna væri það bókstaflega fáránlegt á tímum sem þessum og með fullvissu um áhrifamátt leikhússins að gera ekki neitt og láta þess í stað stríðsmenn og sprengingar um að varðveita friðinn á jörðinni okkar. Hvernig í ósköpunum geta verkfæri óvináttunnar jafnframt þjónað friði og sáttum?
Í dag á alþjóða degi leikhússins bið ég ykkur öll að íhuga þetta og nýta mátt leikhússins sem alþjóðlegs fyrirbæris til að efla samtal milli manna til samfélagslegra breytinga og endurbóta. Sameinuðu þjóðirnar veita ógrynni fjár til friðarumleitana um allan heim, – með því að grípa til vopna. Leikhúsið er aftur á móti mannúðlegra, ódýrara og langtum áhrifaríkari valkostur.
Ef til vill er leikhúsið ekki eini hugsanlegi möguleikinn til þess að berjast fyrir friði en það á að taka það með í reikninginn sem áhrifaríkt tæki til halda hann.
Jessica A. Kaahwa, Uganda
(Hafliði Arngrímsson þýddi)
{mos_fb_discuss:3}