Aðalverkefni Leikfélags Kópavogs þetta leikárið verður eldfjörugur farsi sem hlotið hefur vinnuheitið Staðgreitt við undirskrift (Cash on Delivery) og er eftir Michael Cooney, son „farsakóngsins“ Ray Cooney (Viltu vinna milljón, Með vífið í lúkunum, Nei, ráðherra) en Michael er af mörgum talinn arftaki hans. Í verkinu er eins og vænta á ferðinni misskilningur á misskilning ofan, neyðarlegar uppákomur eins og hver getur í sig látið og fjórar ef ekki fimm hurðir. Og raunar þvottavél!

Við segjum ekki meir, en hins vegar gefst forvitnum færi á að kynnast verkinu nánar næstkomandi mánudag, 10. janúar kl. 19. Þá mun leikstjórinn Hörður Sigurðarson stýra fyrsta samlestri og segja nánar frá verkinu og vinnunni framundan. Samlesturinn er opinn og allir hvattir til að reka inn nefið.

{mos_fb_discuss:2}