Bók Áhugaleikhúss atvinnumanna „2010, lárétt rannsókn“ kom út 31.desember í tengslum við sýningu leikhússins á annál ársins 2010, 12 örverkum um áráttur, kenndir og kenjar. Þetta er í fyrsta sinn hérlendis sem gefið er út bókverk sem tekur á samtímasviðslist en til þessa hafa einungis verið fjallað um sögu sviðslista í bókformi, markar því útgáfan tímamót í skráningu á samtímaviðburðum í sviðslistum. Bókin ætlar sér ekki að vera fræðirit heldur hefur það að markmiði að veita innsýn inn í lifandi samfélag starfandi sviðslistamanna og hugmyndir þeirra um fagið og hlutverk leikhússins í samfélaginu.

 

Bókin inniheldur viðtöl við leikara Áhugaleikhúss atvinnumanna um listina og hlutverk leikhússins í samtímanum, umfjöllun Steinunnar Knútsdóttur listrænnar ráðskonu um bakgrunn örverkanna og vinnuaðferðir leikhópsins og hugleiðingu Unu Þorleifsdóttur aðjúnkts í sviðslistum við Leiklistar og dansdeild LHÍ, um Áhugaleikhús atvinnumanna í samfélaginu og þýðingu örverkanna fyrir samtímann.

Athugið að bókin er gefin út í mjög takmörkuðu upplagi.

Staðfestingu á greiðslu skal senda á steinunn@ahugaleikhus-atvinnumanna.com sem skýringu skal skrá heimilisfang kaupanda.

Örverk um áráttur, kenndir og kenjar 2010
eftir Steinunni Knútsdóttur í samstarfi við leikhópinn

Leikstjóri: Steinunn Knútsdóttir
Stjórn upptöku og vefútsendinga: Hákon Már Oddsson
Vefumsjón: Þorlákur Lúðvíksson

Leikarar:
Aðalbjörg Árnadóttir
Arndís Hrönn Egilsdóttir
Árni Pétur Guðjónsson
Hannes Óli Ágústsson
Jórunn Sigurðardóttir
Kristjana Skúladóttir
Lára Sveinsdóttir
Magnús Guðmundsson
Orri Huginn Ágústsson
Ólöf Ingólfsdóttir
Rúnar Guðbrandsson
Steinunn Knútsdóttir
Sveinn Ólafur Gunnarsson.

Áhugaleikhús atvinnumanna er hópur atvinnufólks í sviðslistum sem hefur áhuga á frelsi til óháðrar listsköpunar í leiklist. Leikhúsið lítur á leiksýningar sínar sem vettvang til að velta áleitnum spurningum fyrir sér þó ekki sé langt í kímni og kæruleysi. Markmiðið með starfinu er að að skapa framsækin og áleitin sviðslistaverk sem í eðli sínu eru samtal við áhorfendur og eru óháð markaðsöflum. Leikhúsið vill ekki fara í viðskiptasamband við áhorfendur sína og býður þess vegna áhorfendum í samtal án endurgjalds og þiggur ekki aðgangseyri á sýningar sínar. Listamenn leikhússins fengu úthlutað listamannalaunum vegna verkefna sinna árið 2010.

{mos_fb_discuss:3}