Stoppleikhópurinn sýnir sunnudaginn 7. nóvember kl. 14.00 í Tjarnarbíói verðlaunaleikritið  Bólu-Hjálmar en leikritið er byggt á lífi og ljóðum Bólu-Hjálmars en sýningin hlaut Grímuverðlaunin sem Barna- og unglingasýning ársins 2009. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir. Aðeins verður þessi eina sýning.

Verkið var frumsýnt 22 maí 2008 í Iðnó. Hefur það síðan verið á leikferð um landið þar sem sýnt var í grunnskólunum og á dögunum var leikhópnum boðið til Færeyja með sýninguna og hlaut hún þar einróma lof. Núna gefst fjölskyldufólki því einstakt tækifæri á að sjá sýninguna.

Bólu-Hjálmar er nafn sem við höfum öll heyrt. Grunnskólakrakkar vita sennilega flestir að hann var skáld. Þeir sem eldri eru kunna sum ljóðin hans og muna eftir honum af svipmikilli teikningu í
gömlu Skólaljóðabókinni – „kallinn með hökuskeggið sem er svo grimmilegur til augnanna“. Og þjóðin hampar honum ennþá sem einu af kraftmestu þjóðskáldum sínum fyrr og síðar. Hann var skapmikill orðhákur sem oft kom sér í vandræði og lenti upp á kant við nágranna sína. Hann var öfundaður og rógborinn. Hann var þjófkenndur og ákærður. Samt virtur og dáður fyrir hæfileika sína og mannkosti.

Þrír leikarar segja söguna og leika allar persónur; Hjálmar, eiginkonu hans, móður, börn, föður, uppeldismóður, bændur, presta, sýslumenn, förukonur, nágranna, fjandmenn og vini. Leikritið geymir einnig sýnishorn af kveðskap hans, allt frá því fegursta til andstyggilegustu níðvísna, en fáir voru flinkari í að meitla saman kjarnmikið níð en Hjálmar.

Höfundar handrits og tónlistar: Ármann Guðmundsson, Snæbjörn Ragnarsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason.
Leikarar: Eggert Kaaber, Magnús Guðmundsson og Margrét Sverrisdóttir.
Leikmynd og búningar: Guðrún Öyahals.

Sýningartími: 50 mínútur.

www.stoppleikhopurinn.com

{mos_fb_discuss:2}