Ný íslensk ópera, Hlini, verður frumsýnd laugardaginn 23. október í Iðnó. Flytjendur eru nemendur í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Höfundur texta og tónlistar er Þórunn Guðmundsdóttir, en þetta er þriðja óperan sem Tónlistarskólinn í Reykjavík setur upp eftir hana. Líkt og í fyrri óperum sækir Þórunn söguefnið í íslenskan þjóðararf  og notar hið alþekkta ævintýri um Hlina kóngsson sem grunn. Sýningin er ætluð fyrir alla aldurshópa, enda birtast karlsdóttir, kóngsson og tröll á sviðinu, auk þess sem ýmsir furðulegir fuglar koma við sögu.

Hlini er nokkuð hefðbundið ævintýri, þar sem söguhetjan lendir í ógöngum, í þessu tilviki er það kóngssonur sem er rænt af tveimur tröllskessum. Hann fær enga björg sér veitt, en Signý karlsdóttir ákveður að leggja af stað til að leita að honum. Til þess að krydda sögurna örlítið og í og með til þess að fjölga hlutverkum ákvað höfundur óperunnar að Signý fengi förunauta á ferðalaginu. Fyrst hittir hún hrafn, sem vill ólmur hjálpa til, en er minnislítill og ratar ekkert. Þá kemur sér vel að þau rekast á fýl sem er fróður og kænn, enda verða fýlar allra fugla elstir. Þegar þau nálgast tröllaslóðir rekast þau á karlsson sem er að leita að kú sem rænt var af tröllum og loks heyra þau álengdar í skessu sem kveður hlakkandi um það að húsfreyja viti ekki hvað hún heiti. Þarna koma því við sögu persónur úr öðrum ævintýrum, þ.e. Búkollu og Gilitrutt, enda kannski ekki skrýtið að þau séu á vappi á tröllaslóðum. Loks komast Signý og förunautar hennar að hellinum þar sem Hlini liggur sofandi, en þá þurfa þau að kljást við svani, skessur og óminnishegra. Útlitið er býsna svart um tíma, en allt fer þó vel að lokum.

Þessi ópera er skrifuð með nemendur í huga, hljómsveitin er tiltölulega lítil og hlutverkin reyna mismikið á söngreynslu, svo að nemendur á ýmsum stigum fá að spreyta sig á verkefnum við sitt hæfi. Leikstjórn er í höndum Þórunnar Guðmundsdóttur og hljómsveitarstjóri er Kjartan Óskarsson. Tónlistin er frekar hefðbundin og áheyrileg og nokkuð er um vísanir í önnur verk. Það má geta þess að eitt stefið er fengið að láni hjá vinkonu Þórunnar, en það kom til hennar í draumi og hún tók það upp á símann sinn í svefnrofunum. Það ratar svo upp á svið ári síðar í munni karlssonar sem kallar á Búkollu sína.

Tónlistarskólinn í Reykjavík var stofnaður haustið 1930 og fagnar hann því 80 ára afmæli í ár. Hann er elsti starfandi listaskóli á landinu.  Undanfarin ár hefur skólinn sett upp ýmsar óperur og má geta þess að í flestum tilvikum hefur verið um frumflutning á Íslandi að ræða. Þar má nefna Die Verschworenen eftir Schubert og La cambiale di matrimonio eftir Rossini auk Mærþallar og Gilitruttar eftir Þórunni Guðmundsdóttur.

Miðar eru til sölu á midi.is. Aðeins eru fyrirhugaðar þrjár sýningar, 23., 24. og 25. október og hefjast allar sýningarnar kl. 20.00.

{mos_fb_discuss:2}