Laugardaginn 9. október frumsýnir Borgarleikhúsið nýtt íslenskt leikverk, leikgerð Ólafs Egils Egilssonar á Fólkið í kjallaranum eftir Auði Jónsdóttur. Leikstjóri er Kristín Eysteinsdóttir. Auður Jónsdóttir var fyrsta fastráðna leikskáld Borgarleikhússins og vinnur nú að ritun leikverks fyrir leikhúsið.

Klara og Svenni búa í Hlíðunum í Reykjavík, eru í góðri vinnu og lífið brosir við þeim. Eitt fallegt sumarkvöld eiga þau von á vinum í mat. Lagt hefur verið á borð, grillið er klárt og tónlistin ómar. En í kvöld breytist allt. Klara er neydd til að horfast í augu við sjálfa sig og sína nánustu. Atvik úr fortíðinni skjóta upp kollinum og fyrr en varir eru foreldrar hennar, systurdóttir og Barði í kjallaranum komin inn á gafl. Hugsjónir foreldra hennar og gildismat eigin kynslóðar eiga ekki samleið. Á þessu kvöldi uppgötvar Klara nýjar hliðar á sjálfri sér og eigin lífi.

Auður Jónsdóttir hefur verið í flokki fremstu rithöfunda þjóðarinnar síðustu ár. Fólkið í kjallaranum kom út árið 2004 og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin það ár og var síðar tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Síðan hefur bókin verið þýdd á fjölda tungumála og hlotið frábæra dóma víða um heim.

Leikendur í sýningunni eru Ilmur Kristjánsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Birgitta Birgisdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Jóhann Sigurðarson, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Hallgrímur Ólafsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir.

{mos_fb_discuss:2}