Óperan Rigoletto eftir Giuseppe Verdi verður frumsýnd í Íslensku óperunni næstkomandi laugardagskvöld, 9. október kl. 20. Aðalsöngvararnir í verkinu eru íslenskum óperuunnendum að góðu kunnir, en þeir eru Ólafur Kjartan Sigurðarson sem Rigoletto, en hann hefur haslað sér völl sem einn fremsti óperusöngvari Íslands á erlendri grundu undanfarin misseri, Þóra Einarsdóttir sem Gilda og Jóhann Friðgeir Valdimarsson sem Hertoginn af Mantua.
Í öðrum hlutverkum eru Jóhann Smári Sævarsson sem Sparafucile, Sesselja Kristjánsdóttir sem Maddalena og Bergþór Pálsson sem Monterone, auk þess sem Bylgja Dís Gunnarsdóttir, Ágúst Ólafsson, Hlöðver Sigurðsson og Bragi Jónsson syngja minni hlutverk. Sunnudaginn 14. nóvember, bregður Sigrún Hjálmtýsdóttir – Diddú – sér í hlutverk Gildu í stað Þóru, en hún söng hlutverkið við gríðarlegar vinsældir í Íslensku óperunni þegar óperan var síðast færð upp árið 1990.
Í Rigoletto segir af söguhetjunni Rigoletto sem starfar fyrir hinn illræmda kvennabósa, hertogann af Mantua. Rigoletto aðstoðar hertogann við að koma á fláráðum ástarævintýrum við konur; ýmist saklausar, giftar eða kornungar, en um leið heldur hann þeirri staðreynd leyndri, að hann á sjálfur dóttur, unga og fagra sem hann ann meira en öllu öðru. Þegar Rigoletto tekur sjálfur þátt í brottnámi dóttur sinnar án þess að gera sér grein fyrir hver á í hlut og kemst að því að hún hefur komist í hendur hertogans, leggur hann á ráðin um að láta myrða hann og flýja ásamt dóttur sinni. Ráðabrugg hans tekur hins vegar óvænta stefnu og endar með skelfingu. Í hefðbundinni uppfærslu óperunnar gerist Rigoletto við hirð Hertogans af Mantúa á 16. öld, en sagan var upphaflega skrifuð af Victor Hugo, höfundi Vesalinganna. Í uppfærslu Íslensku óperunnar er hins vegar horft til nútímans í umgjörð verksins.
Listrænir aðstandendur sýningarinnar eru Stefán Baldursson sem leikstýrir, Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir sem hannar leikmynd, Filippía Elísdóttir hannar búninga og Páll Ragnarsson lýsingu. Hljómsveitarstjóri verður Daníel Bjarnason, handhafi tveggja verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár. Alls eru sex sýningar ráðgerðar á verkinu.
Uppselt er nú á allar þær sex sýningar sem upphaflega voru ráðgerðar á Rigoletto í Íslensku óperunni. Því hefur verið ákveðið að bæta við tveimur aukasýningum 13. og 14. nóvember. Almennt miðaverð á Rigoletto er 5.900 kr. og er áhugasömum bent á að tryggja sér miða sem fyrst í miðasölu Íslensku óperunnar, s. 511-4200, eða á www.opera.is.
{mos_fb_discuss:2}