Æfingar eru hafnar hjá Leikfélagi Ölfuss á gaman- og stríðsleiknum Stútungasögu eftir þau Ármann Guðmundsson, Hjördísi Hjartardóttur, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Leikritið gerist undir lok Þjóðveldisaldar og greinir frá hvernig þeir Stútungar, nýorðnir valdamestir allra á landinu, glopra sjálfstæði landsins til Norðmanna fyrir röð óheppilegra tilviljanna og mannlega glópsku. Ætlunin er að frumsýna verkið 22. október og leikstjóri er einn höfunda, Ármann Guðmundsson.

Á þriðja tug leikara taka þátt í sýningunni, sem er sú umfangsmesta sem Leikfélag Ölfuss hefur ráðist í. Tónlist skipar einnig nokkurn sess í verkinu og er hún samin af höfundunum Ármanni Guðmundssyni og Þorgeiri Tryggvasyni en þeir yrkja einnig söngtexta ásamt Sævari Sigurgeirssyni. Sýnt verður í Ráðhúsinu í Þorlákshöfn.

{mos_fb_discuss:2}