Helgina 4.- 6. júní eru Hafnardagar í Þorlákshöfn og mikið um dýrðir. Af því tilefni verður opið hús hjá Leikfélagi Ölfuss í litla húsinu við Hafnarskeið á laugardaginn frá kl. 13-18. Húsinu hefur verið breytt í franskt kaffihús, Café Balance og fyrir utan verður listasmiðja (brúðuleikhúsgerð) og andlitsmálun fyrir börn. Haldin var samkeppni um nafn á húsið og verður skilti afhjúpað á laugardaginn þar sem vinningstillagan verður kynnt.

Leikfélag Ölfuss réðist í gerð útvarpsleikrita í tilefni Hafnardaga þar sem í tengslum við þá er starfrækt útvarpsstöð í bænum. Samin voru tvö stutt leikrit, annars vegar ævintýrið Heiðin fagra eftir Magnþóru Kristjánsdóttur og hins vegar hin magnaða draugasaga Hollenski draugurinn í Þorlákshöfn eftir Árnýju Leifsdóttur. Draugasagan er byggð á þjóðsögu sem gerist í Þorlákshöfn. Við fengum Róbert Dan Bergmundsson hjá Stúdíó hálf tólf á Selfossi til liðs við okkur og aðstoðaði hann við upptökur og hljóðvinnslu. Einnig fengum við lánaðan leikarann F. Ella Hafliðason frá Leikfélagi Selfoss og kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Leikritin verða flutt á Útvarpi Hafnardögum fm 106,1 út vikuna.

{mos_fb_discuss:2}