Nú er hafin miðasala á Athyglisverðastu áhugaleiksýningu ársins sem er að þessu sinni Rokk frá Hugleik í Reykjavík. Sýningin verður fimmtudaginn 10. júní en verkið hefur verið sýnt fyrir troðfullu húsi hjá Hugleik undanfarið. Sýningin í Þjóðleikhúsinu er því síðasti séns til að upplifa Rokkið. Höfundar eru Ásta Gísladóttir, Júlía Hannam, Sigurður H. Pálsson og Þórarinn Stefánsson. Eggert Hilmarsson semur tónlist en leikstjórar eru Hulda B. Hákonardóttir og Þorgeir Tryggvason.

Rokk fjallar um tvær hljómsveitir sem deila með sér æfingahúsnæði. Eins og gefur að skilja koma upp ýmsir árekstrar og flækjur, enda böndin bæði metnaðargjörn og einstaklingarnir misflinkir í mannlegum samskiptum. Það setur líka óneitanlega strik í reikninginn að í annarri sveitinni eru eingöngu strákar, en hin er aðeins skipuð stelpum. Þar að auki koma við sögu eigandi húsnæðisins og alldularfullur fylgisveinn hennar. Í leikritinu eru nokkur lög, en verkið er þó ekki söngleikur í eiginlegum skilningi, þar sem flutningur laganna er eðlilegur hluti framvindunnar á æfingum hljómsveitanna.

Miðasala er hafin á www.leikhusid.is, www.midi.is og í síma 551 1200.

{mos_fb_discuss:2}