Hugleikur
Rokk
Leikstóri: Þorgeir Tryggvason
Það var nokkuð tilhlökkunarefni að koma í fyrsta skipti á sýningu hjá Hugleik í litla leikhúsinu þeirra á Eyjaslóðinni. Þau hafa alllengi verið á þeytingi um Reykjavík með sýningar sínar og jafnvel þurft að fara í úthverfi eins og Kópavog og Seltjarnarnes. Það sem má segja um húsið er að mér finnst það voða, voða lítið en þegar ég rifja upp fyrstu sýninguna sem ég sá hjá þeim Hugleikurum á Galdraloftinu í Hafnarstræti, þá er þetta nú bara höll.
Lárus Vilhjálmsson skrifar um sýningu Hugleiks á Rokki
Rokk er frumraun höfundanna Ástu Gísladóttur, Júlíu Hannam, Sigurðar H. Pálssonar og Þórarins Stefánssonar í þeirri þjóðlegu list Hugleiks að skrifa leikrit saman. Þau hafa flest spreytt sig á eigin vegum með góðum árangri en þarna fatast þeim nokkuð flugið. Þrátt fyrir ágæta spretti, áhugaverðar persónur og flotta brandara vantar verkið nokkuð dramatíska framvindu og er með eindæmum fyrirsjáanlegt. Minnir mann stundum á amerísku síbyljuna. Þrátt fyrir þetta tuð er Rokk skemmtileg sýning og ég skemmti mér konunglega. Þar spilar saman alveg hreint frábær tónlist, kraftmikill og hæfileikaríkur leikhópur og fimleg leikstjórn.
Tónlistin leikur stórt hlutverk í sýningunni og er að mínu mati nægileg ástæða fyrir alla rokkhunda til að skella sér á Eyjaslóðina. Þarna er allt í topplagi, lagasmíðar, útsetningar, söngur og spil. Legg til að þessi grúbba reyni sig á Airwaves í haust.
Leikararnir tóku vel á því í sýningunni og túlkuðu vel sínar persónur. Þar voru eftirminnileg, Jón Svavar Jósefsson sem harði rokknaglinn Steini, harða rokkgellan Ragna leikin af Elísabetu Lind Ingólfsdóttur og Emo-arnir Boggi og Védís leikin af Baldri Ragnarsyni og Ösp Kristjánsdóttur. Vel hippaleg og dúmm voru líka þau Helga Ragnarsdóttir og Guðmundur Stefán Þorvaldsson. Og það er gaman að sjá góðan leik fara saman með frábærum tónlistarhæfileikum eins og hjá Guðrúnu Sóley Sigurðardóttur og Hjalta Stefáni Kristjánssyni. Jens Leó, Flosa Þorgeirssonar var alveg óborganlegur uppgjafapoppari og Gunnþórunn, Guðrúnar Eysteinsdóttur gaf Herbalife kynslóðinni nýja vídd.
Leikstjórn Þorgeirs Tryggvasonar var fumlaus og þjónaði vel „sitcom“ búningi handritsins. Búningar og gervi voru í góðum stíl við persónur og tíma. Leikmyndin passaði upp á hár, hrár leiksalurinn er fullkomið æfingahúsnæði fyrir rokkbönd (leiguhugmynd fyrir Hugleik).
Að öllu sögðu þá hvet ég bæði rokkhunda og leiklistaráhugafólk á Rokk. Hjartað slær í takt við músíkina og hláturinn gellur þar á milli. 3 stjörnur fær Hugleikur fyrir frábæra tónlist og góða skemmtun.
Lárus Vilhjálmsson