Hugleikur frumsýnir nýtt íslenskt leikrit sem nefnist Rokk í leikstjórn Þorgeirs Tryggvasonar föstudaginn 23. apríl kl. 20.00 í húsnæði Hugleiks að Eyjarslóð 9. Höfundar leikritsins eru Ásta Gísladóttir, Júlía Hannam, Sigurður H. Pálsson og Þórarinn Stefánsson, en höfundur tónlistar er Eggert Hilmarsson. Einungis eru fyrirhugaðar 5 sýningar á Rokki.
Rokk fjallar um tvær hljómsveitir sem deila með sér æfingahúsnæði. Eins og gefur að skilja koma upp ýmsir árekstrar og flækjur, og það setur óneitanlega strik í reikninginn að í annarri sveitinni eru eingöngu strákar, en hin er aðeins skipuð stelpum. Þar að auki koma við sögu eigandi húsnæðisins og alldularfullur fylgisveinn hennar. Í leikritinu eru nokkur lög, en verkið er þó ekki söngleikur í eiginlegum skilningi, þar sem flutningur laganna er eðlilegur hluti framvindunnar á æfingum hljómsveitanna.
Sýningar eru sem hér segir:
Frumsýning föstudaginn 23. apríl kl. 20.00 (Örfá sæti laus)
2. sýning. sunnudaginn 25. apríl kl. 20.00
3. sýning fimmtudaginn 29. apríl kl. 20.00
4. sýning miðvikudaginn 5. maí k. 20.00
5. sýning fimmtudaginn 6. maí kl. 20.00 (Lokasýning)
Ásta Gísladóttir, Júlía Hannam, Sigurður H. Pálsson og Þórarinn Stefánsson hafa öll fengist við leikritaskrif, en Rokk er frumraun þeirra allra í hópskrifum.
Eggert Hilmarsson er höfundur tónlistar. Eggert er ljótur hálfviti.
Þorgeir Tryggvason hefur verið ein helsta driffjöður Hugleiks síðustu tvo áratugi. Hann hefur verið óþreytandi við skriftir, leik, stjórnarstörf og ekki síst leikstjórn. Þorgeir er ljótur hálfviti.
Leikarar eru: Baldur Ragnarsson, Elísabeth Lind Ingólfsdóttir, Flosi Þorgeirsson, Guðmundur Stefán Þorvaldsson, Guðrún Eysteinsdóttir, Guðrún Sóley Sigurðardóttir, Helga Ragnarsdóttir, Hildur Halldórsdóttir, Hjalti Stefán Kristjánsson, Jón Svavar Jósefsson og Ösp Kristjánsdóttir
Miðapöntun fer fram á vef Hugleiks http://www.hugleikur.is. Vakin er athygli á því að bæði sætaframboð og sýningarfjöldi er takmarkur. Almennt miðaverð er 1.500 kr. en 1.000. kr. fyrir námsmenn og eldri borgara. Ókeypis er fyrir börn yngri en 14 ára í fylgd með fullorðnum.
{mos_fb_discuss:2}