Hjá Leikfélagi Sauðárkróks eru æfingar á Fólkinu í blokkinni eftir Ólaf Hauk Símonarson komnar vel í gang. Leikstjóri er Jón Stefán Kristjánsson sem stýrir Leikfélagi Sauðárkróks nú í fjórða skipti síðan 2005. Skemmtileg tónlist setur sterkan svip á verkið og stýrir Rögnvaldur Valbergsson fjögurra manna hljómsveit sem spilar á sýningum. Yfirsmiður er Kjartan Erlendsson, en lýsing og smink eru í þaulvönum höndum Guðbrands Ægis Ásbjörnssonar og Regínu Gunnarsdóttur. Leikendur eru 18 talsins og í þeim hópi má finna bæði gömul brýni og fólk sem ekki áður hefur starfað með LS.
Hlutverkin í sýningunni eru mörg og misstór en ekki er þó hægt að tala um nein eiginleg aðalhlutverk, frekar en í okkar daglega lífi. Drengurinn Óli og hans sýn á heiminn setja þó nokkurn svip á samfélagið í húsinu. Annars fjallar söngleikurinn um ósköp venjulegt fólk í venjulegri blokk, íbúarnir hafa hver sín sérkenni og lífshlaupið er þeim miserfitt. Þar er að finna unga og gamla, elskendur og hatendur, fræga og ófræga, og svo koma líka óboðnir gestir.
Frumsýning er áætluð á opnunardegi Sæluviku 25. apríl, nánari upplýsingar á www.skagafjordur.net/ls
{mos_fb_discuss:2}