Æfingar eru hafnar á nýju íslensku leikverki, Síðasti dagur Sveins skotta, en verkið verður frumsýnt í Edinborgarhúsinu á Ísafirði fimmtudaginn 18. mars. Að verkinu standa Kómedíuleikhúsið á Ísafirði og Lýðveldisleikhúsið í Reykjavík en það er ljóðleikur eða söngdans um Svein Björnsson þjóf, nauðgara og galdramann sem var hengdur í Rauðuskörðum á Barðaströnd 1648. Sveinn þessi var enn í móðurkviði þegar faðir hans Axlar-Björn var tekinn af lífi fyrir morðverk sín.

Síðasti dagur Sveins skotta er svört kómedía þar sem jafngild eru leiklist, tónlist og dans. Leikurinn gerist á síðasta ævidegi Sveins þar sem hann bíður aftöku sinnar og rifjar upp líf sitt og ástæður þess að svona er komið fyrir honum. Konur hafa verið hans örlagavaldar, fyrst móðir hans sem gerði honum í móðurkviði að hefna föður síns, síðan fórnarlömb hans og að lokum konan sem leikur á hann og hefur hann undir.

Helstu höfundar og flytjendur verksins eru: Benóný Ægisson höfundur handrits og tónlistar, Elfar Logi Hannesson leikari og leikstjóri, Halldóra Malín Pétursdóttir leik- og söngkona, Henna Riikka Nurmi höfundur sviðshreyfinga, leikari og dansari, Steingrímur Guðmundsson höfundur tónlistar og hljóðfæraleikari og Ársæll Níelsson leikari. Marsibil G. Kristjánsdóttir sér um leikmynd og búninga.

Uppsetning verksins er styrkt af menningarráði Vestfjarða og fyrirtækjum á Ísafirði sem eru vinveitt listum og menningu. Eftir að verkið hefur verið sýnt á Ísafirði verður það sýnt í Reykjavík og víðar um landið.

{mos_fb_discuss:2}