Leikdeild Eflingar frumsýnir nýtt leikverk, Ólafíu, á Breiðumýri föstudaginn 26. febrúar. Höfundur er heimamaðurinn Hörður Þór Benónýsson og leikstjóri Arnór Benónýsson. Sýningin inniheldur sautján frumsamin lög eftir Jaan Alavere sem jafnframt er tónlistarstjóri sýningarinnar. Alls koma tuttugu og þrír leikarar fram í sýningunni og þá sér fimm manna hljómsveit um tónlistarflutning. Þessi fjölmenni leikarahópur er samsettur af nokkrum reyndum leikurum sem hafa verið burðarás og kjölfesta leiklistarlífs í Reykjadal síðasta áratuginn, í bland við ungt og efnilegt fólk sem sumt hvert er komið með góða reynslu af því að stíga á svið. Þessi blanda af reynslu eldra fólksins og krafti og eldmóði þeirra sem yngri eru hefur reynst mjög heppileg blanda og viðhaldið þeim ferskleika sem leiksýningar á Breiðumýri hafa oftar en ekki búið yfir.

Undanfarin ár hefur mikill metnaður ráðið för þegar valin hafa verið verk til sýninga hjá Leikdeild Eflingar, sýninga sem hafa kallað á stóran leikhóp um leið og þær hafa gert miklar kröfur til leikara. Má í þessu sambandi nefna verk eins og Fiðlarann á þakinu, Síldin kemur og síldin fer, Landsmótið og nú síðast Kvennaskólaævintýrið. Það er því ljóst að mikil reynsla hefur orðið til hjá öllum þeim sem koma að leiklistarmálum hjá Umf. Eflingu, hvort heldur er um að ræða leikara eða aðra þá sem að sýningum koma. Það hefur því legið fyrir um nokkurt skeið að tími væri senn kominn til að stíga skref fram á við og fá nú heimamönnum það verkefni að semja bæði leikverk og tónlist. Segja má að þetta hafi að hluta til verið gert þegar þeir Jóhannes Sigurjónsson og Hörður Þór Benónýsson sömdu leikritið Landsmótið, sem sett var upp 2004. Þá var tónlistin hins vegar sótt í smiðju þeirra félaga Lennon og McCartney og flutt undir öruggri stjórn Jaan Alavere.

Á vormánuðum 2009 var gerður samningur við Hörð um að skrifa leikrit og Jaan að semja tónlist við verkið og útsetja. Þá um leið var samið við Arnór Benónýsson um að taka að sér leikstjórn en Arnór hefur undanfarin ár verið sá leikstjóri sem hefur sett upp hvað flest verk fyrir leikdeildina, m.a. öll þau verk sem hér að framan hafa verið nefnd.

Hugmyndin að leikverkinu var Hörður búinn að ganga með í nokkurn tíma. Kannski má segja að sú staðreynd að nokkur síðustu viðfangsefni leikdeildarfólks hafi einkennst af svokallaðri „nostalgíu“ þ.e. að líta um öxl yfir liðna tíð á angurværan hátt hafi ráðið því að Hörður settist við að skrifa verk sem fjallar um líf ungs fólks í dag. Gleði þess og sorgir og ekki hvað síst það áreiti sem það býr við í dag.

Æfingar á verkinu hafa staðið frá því í október og það er fjölmennur hópur fólks sem hefur lagt hönd á plóginn þannig að sýningin geti orðið að veruleika, sýning sem tvímælalaust verður að teljast langstærsta verkefni sem í hefur verið ráðist af hálfu Leikdeildar Eflingar. Þá var ráðist í útgáfu á geisladiski með allri tónlistinni úr sýningunni og verður hann til sölu á sýningum.

Upplýsingar um sýningar og miðapantanir má finna á vef Leikdeildar Eflingar, www.leikdeild.is

{mos_fb_discuss:2}