Þjóðleikhúsið frumsýnir á laugardaginn Hænuungana, nýtt leikrit eftir Braga Ólafsson í Kassanum, litla sviði Þjóðleikhússins. Frumsýning á nýju leikriti eftir Braga Ólafsson telst óneitanlega til tíðinda þar sem Bragi er einn af okkar bestu rithöfundum. Hænuungarnir eru annað leikrit Braga fyrir leiksvið. Hið fyrra, Belgíska Kongó var sýnt við miklar vinsældir í Borgarleikhúsinu fyrir fáum árum. Nú, rétt eins og þá leggja saman í púkk með Braga þeir Stefán Jónsson, leikstjóri og Eggert Þorleifsson sem fer með aðalhlutverkið.
Og með þeim starfar einvala lið listamanna; leikararnir Kristbjörg Kjeld, Ragnheiður Steindórsdóttir, Pálmi Gestsson, Friðrik Friðriksson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir. Börkur Jónsson er höfundur leikmyndar, Ríkey Kristjánsdóttir hannar búninga, Halldór Örn Óskarsson gefur ljós og Tómas Freyr Hjaltason sér um hljóð.
Þegar einhverju er stolið úr geymslunni manns í sameigninni er ekki nema eðlilegt að maður vilji vita hver þjófurinn er. Það er að minnsta kosti skoðun jazzgeggjarans Sigurhans. Og þótt það hafi ekki verið nema nokkrir kjúklingar á tilboðsverði sem hurfu úr frystikistunni finnst Sigurhans ástæða til að halda aukahúsfund. Enda telur hann sig vita hverjir voru að verki!
Verkið gerist á Íslandi í dag, sögusviðið er fjölbýlishús í Hlíðunum og persónurnar eru áhorfendum kunnuglegar – jafnvel svo að margur ætti að kannast óþægilega vel við margt úr eigin fari.