Leikfélag Hafnarfjarðar frumsýndi 20. febrúar sl. hinn rómaða gamanleik Kjartans Ragnarssonar, Blessað Barnalán. Leikstjóri er Lárus Vilhjálmsson en hann hefur leikstýrt fjölda verka hjá leikfélaginu og er skemmst að minnast hinnar bráðskemmtilegu Ráðskonu Bakkabræðra. Blessað Barnalán er sýnt í leikhúsi félagsins í Gamla Lækjarskóla við lækinn í Hafnarfirði. Bent skal á að áhorfendafjöldi er takmarkaður vegna lítils rýmis og því betra að tryggja sér miða í tíma.


Blessað Barnalán sem er sprenghlægilegur farsi með hurðaskellum, misskilningi og skemmtilegum uppákomum hefur verið sýndur um allt land um árabil og fengið frábærar viðtökur en hann hefur ekki verið settur á svið hér á höfuðborgarsvæðinu afar lengi.

Verkið segir frá Þorgerði sem býr með Ingu dóttur sinni út á landi. Sú gamla á fleiri börn, en þau búa víðs fjarri og eru löt við að heimsækja hana . Dóttirin bregður því á það ráð að sviðsetja dauða móðurinnar, til að fá systkinin heim. Þau birtast svo öll til að vera við jarðarförina . Presturinn Benedikt er nauðbeygður til að taka þátt í leiknum og prestfrúin Lóa kemur einnig við sögu. Læknirinn Tryggvi og heimilisaðstoðin Bína spila svo einnig sinn þátt í ærslunum. 


Starfsemi Leikfélags Hafnarfjarðar hefur verið með blómleg í vetur og hefur fjöldi nýrra félaga bæst í hópinn. Félagið ætlar á næstunni að efla mikið barna og unglingastarf sitt. 


Miðapantanir er hægt að gera í síma  842-2850. Einnig er hægt að panta á netfangi félagsins leikfelagid@simnet.is. Næstu sýningar eru fimmtudaginn 25. febrúar og laugardaginn 27. febrúar. Nánari upplýsingar eru á vef félagsins http://www.leikhaf.is

{mos_fb_discuss:2}