Saga fóstbræðranna Þorgeirs Hávarssonar og Þormóðar Kolbrúnarskálds hefur lifað með þjóðinni um aldir. Fóstbræðrasaga fjallar um þá Þorgeir og Þormóð og um miðja síðustu öld skrifaði Halldór Kiljan Laxness Gerplu og sagði þar sögu þeirra á nýjan hátt. Næstkomandi föstudag – um 1000 árum eftir að atburðirnir í sögunni eiga að hafa átt sér stað og tæplega 60 árum eftir að Gerpla kom út – verður leikverkið Gerpla í leikstjórn Baltasars Kormáks frumsýnt á Stóra sviði Þjóðleikhússins.

Með Gerplu réðst Halldór Laxness í að afhelga hugmyndir okkar um söguöldina og hetjur hennar, en um leið blés hann nýju lífi í samband þjóðarinnar við bókmenntaarfinn. Ásamt einvala liði leikhúsfólks ræðst Baltasar Kormákur nú í að leikgera þessa skáldsögu sem, ólíkt flestum stóru skáldsögum Laxness, hefur aldrei áður ratað á svið.

Gerpla er áttunda leikstjórnarverkefni Baltasars Kormáks í Þjóðleikhúsinu, en hann hefur meðal annars sett hér á svið ýmis stórvirki klassískra leikbókmennta eftir Shakespeare, John Ford, Ibsen og Tsjekhov. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir sýningarnar Þetta er allt að koma og Pétur Gaut. Nýlegasta verkefni Baltasars við Þjóðleikhúsið er Ivanov, en sýningin var frumsýnd á sama tíma og Brúðguminn, kvikmynd Baltasars sem byggð á Ivanov.

Með hlutverk fóstbræðranna fara tveir af þekktustu leikurum yngri kynslóðarinnar, þeir Jóhannes Haukur Jóhannesson og Björn Thors. Leikgerðin er unnin af Baltasar og Ólafi Agli Egilssyni í samvinnu við leikhópinn.

Leikstjóri: Baltasar Kormákur
Leikgerð: Baltasar Kormákur og Ólafur Egill Egilsson í samvinnu við leikhópinn
Leikmynd: Gretar Reynisson
Búningar: Helga I. Stefánsdóttir
Hljóðmynd: Gísli Galdur Þorgeirsson
Lýsing: Lárus Björnsson
Leikarar:
Atli Rafn Sigurðsson, Björn Thors, Brynhildur Guðjónsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ólafur Darri Ólafsson, Ólafur Egill Egilsson, Sindri Birgisson og Stefán Hallur Stefánsson.

{mos_fb_discuss:2}