Nýtt íslenskt barnaleikriti, Skoppa og Skrítla á tímaflakki, verður frumsýnt laugardaginn 6. febrúar í Borgarleikhúsinu. Þetta er þriðja leikrit þeirra vinkvenna sem fer á leiksvið  Fyrri tvær leiksýningarnar fengu fádæma aðsókn og voru báðar tilnefndar til Grímunnar, íslensku leiklistarverðlaunanna. Síðasta verkefni þeirra vinkvenna var kvikmynd sem sló rækilega í gegn á síðasta ári og sér ekki fyrir endann á því ævintýri. Með helstu hlutverk fara Linda Ásgeirsdóttir, Hrefna Hallgrímsdóttir, Viktor Már Bjarnason og Vigdís Gunnarsdóttir. Þrjú börn taka einnig þátt í sýningunni.

Í þessu leikverki, sem er það stærsta til þessa, fá þær Skoppa og Skrítla senda ósk í óskabrunninn sinn frá Bakara Svakara sem vantar hjálp við að ráða fjársjóðsgátu. Eins og sannir vinir bregðast þær skjótt við og með hjálp Lúsíar og leikhústöfranna leggja þær af stað í ævintýralegt ferðalag með viðkomu í fortíð, nútíð og framtíð. Þetta er ævintýri um hugmyndaflug, hugrekki, virðingu og umfram allt vináttu. Sýning sem öll fjölskyldan ætti að hafa stórgaman af.

Hallur Ingólfsson semur tónlist, Þórdís Jóhannesdóttir og Katrín Þorvaldsdóttir hanna leikmynd. Una Stígsdóttir og Katrín Þorvaldsdóttir gera búninga og leikstjóri er Gunnar Helgason. Handrit er eftir Hrefnu Hallgrímsdóttur. Uppsetningin er samstarfsverkefni Skrítlu ehf. og Borgarleikhússins.

Sýningin er rúmur klukkutími að lengd. Miðaverð kr. 1950.-
Miðasala er í Borgarleikhúsinu í síma 568 8000 og á borgarleikhus.is

{mos_fb_discuss:2}