Leikfélag Akureyrar hefur boðið leiksýningunni Munaðarlaus að vera Óvissusýning vetrarins hjá LA. Sýningin Munaðarlaus hefur heldur betur slegið í gegn á undanförnum vikum þar sem hún hefur verið sýnd í Norræna húsinu við glimrandi viðtökur og hefur verið fullt á nær allar sýningar. Leikhópurinn hefur ákveðið að nýta ferðina og sýna sýninguna einnig á Vopnafirði og Egilsstöðum. Munaðarlaus verður sýnd í Rýminu hjá Leikfélagi Akureyrar og miðasala er í síma 4 600 200 kl. 13-17 og á www.leikfelag.is.

Munaðarlaus er verk sem rannsakar heim sem fæst okkar þekkja og við viljum ekki vita af en er beint fyrir utan dyrnar hjá okkur. Hversu langt erum við tilbúin að ganga til að vernda okkar nánustu? Hvernig getur samviskan haldist hrein þegar allir sveigja réttlætið að eigin þörfum? Danni og Helena eru búin að redda pössun, kæla vínið, kveikja á kertum og eru sest við kvöldverðarborðið. Allt stefnir í fullkomna kvöldstund þegar Ívar, bróðir Helenu, mætir á svæðið. Útataður í blóði.

Sýningar á leikferðinni:

LA – Rýmið, Akureyri
Fimmtudagurinn 11. feb kl. 20:00
Föstudagurinn 12. feb kl. 19:00
Laugardagurinn 13. feb kl. 19:00
Laugardagurinn 13. feb kl. 22:00

Vopnafjörður
Þriðjudagur 16. feb kl. 20:00

Egilsstaðir
Miðvikudagur 17. feb kl. 20:00

Í tilefni að því að vera boðið norður og í ljósi mikilla vinsælda og eftirspurnar hefur leikhópurinn ákveðið að efna til tveggja aukasýninga en það verða allra síðustu sýningar á Munaðarlaus í Reykjavík. Þessar síðustu sýningar eru í Norræna Húsinu fimmtudaginn 4. febrúar og laugardaginn 6. febrúar og hefjast sýningar kl. 19.00. Miðasala er í síma 8959919 og einnig er hægt að panta miða með því að senda tölvupóst á netfangið munadarlaus@gmail.com.

Leikstjóri sýningarinnar er Vignir Rafn Valþórsson sem jafnframt þýðir verkið. Leikhópurinn samanstendur af ungum leikurum, Hannesi Óla Ágústssyni, Stefáni Benedikt Vilhelmssyni og Tinnu Lind Gunnarsdóttur, sem ákváðu að fjárfesta í réttinum á þessu nýja og vinsæla verki og setja það upp sjálf – en hópurinn hefur ekki sótt um neina styrki fyrir uppsetningunni.

Sýningin hefur vakið athygli fyrir að bjóða upp á tekjutengda verðskrá, en miðaverðið er mishátt eftir því í hvaða tekjuflokki áhorfendur eru. Það er hinsvegar undir þeim komið að ákvarða hvaða tekjuflokki þeir telja sig tilheyra. Lágtekjufólk greiðir 2000 krónur, miðtekjufólk greiðir 3000 krónur en hátekjufólk greiðir 5000 krónur. Athygli hefur vakið hversu mikið af lágtekjufólki hefur sótt sýninguna og greinilegt að kreppan hefur snert leikhúsgesti þjóðarinnar.

Gunnar Karel Másson semur tónlist og hljóðmynd, Anna María Tómasdóttir sér um búninga og ljósahönnun er í höndum Karls Sigurðssonar.

{mos_fb_discuss:2}