Dagana 13. og 14. janúar kynnir Borgarleikhúsið nýjan leikhúsmann til sögunnar, Leif Þór Þorvaldsson sem útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands úr Fræði og framkvæmd síðast liðið vor. Útskriftarverk Leifs, Endurómun, kemur á fjalir Borgarleikhússins þann 13. og 14. janúar á Litla sviðinu. Athugið aðeins þessar tvær sýningar. Leikhúsáhugafólki gefst hér einstakt tækifæri á að sjá þetta metnaðarfulla verk sem færði höfundinum hæstu einkunn við útskrift.
Verkið var sett á svið í Listaháskólanum síðast liðið vor og segir meðal annars í umsögn prófdómaranna um sýninguna: „Verkið var mjög vel unnið, í raun einstakt og sú upplifun sem áhorfendum var gefin er mögnuð.“ Endurómun er hrein skynupplifun sem tekst að bjaga og teygja á skynfærum áhorfandans um leið og sýningin veitir okkur innsýn í nýjustu kenningar um mannsheilann. Útskýrð verða grunnferli skynjunar, minninga og drauma.
Það er eitt af hlutverkum leikhússins að gefa ungu leikhúsfólki tækifæri á að vinna innan veggja leikhússins og gera verk þeirra aðgengileg almenningi. Þetta er annar höfundurinn úr Fræði og framkvæmd sem fær að spreyta sig í Borgarleikhúsinu þetta leikárið. Vænta mikils af Leifi Þorvaldssyni í framtíðinni.
Leifur útskrifaðist með hæstu einkunn fyrir verkið og voru prófdómarar LHÍ mjög ánægðir með þann ferska blæ sem einkennir verk Leifs. Sjálfur segir hann verkið sprottið úr áhuga sínum á draumum, meðvitund og heilastarfsemi. Hann segir leiklist eiga að hreyfa við áhorfendanum og vill í Endurómun bæði gera kröfur til áhorfandans en um leið hreyfa við honum. „Þessi sýning veitir okkur innsýn í nýjustu kenningar um mannsheilann. Útskýrð verða grunnferli skynjunar, minninga og drauma. Leiksviðið er notað til þess að prófa þessar kenningar á sviðinu sjálfu og í huga áhorfandans. Við notum mínimalískar aðferðir til þess að tækla viðfangsefnið þar sem ljós, hljóð og hreyfingar verða settar í jöfnur sem koma til með að hægja á tímanum og beygja skynjun áhorfandans til að sýna fram á að heilinn er ekki eins nákvæmt tæki og við höldum.“
Það er hlutverk leikhússins að gefa ungu leikhúsfólki tækifæri á að spreyta sig innan veggja leikhússins og um leið gefa leikhúsáhugafólki tækifæri til að sjá ný verk og nýja listamenn á aðgengilegan hátt. Leifur er annar úrskriftarneminn úr Fræði og framkvæmd sem fær tækifæri til að spreyta sig í Borgarleikhúsinu og er það okkur sérstakt ánægjuefni að bjóða hann velkominn í hóp leikhúsfólks.
Viðvörun: Flogaveiku fólki er ráðlagt frá því að sjá sýninguna vegna notkunar blikkljósa (strope ljósa) í sýningunni sem þekkt er að geti framkallað flog eða aðra vanlíðan hjá flogaveikum.