Valnefnd á vegum Leiklistarsambands Íslands hefur tilnefnt barnaleikritið Gott kvöld eftir Áslaugu Jónsdóttur til leikskáldaverðlauna Norðurlanda 2010. Tilkynnt var hver hlaut tilnefninguna í Kúlunni, barnaleiksviði Þjóðleikhússins að Lindargötu 7, þriðjudaginn 29. desember. Í valnefndinni sátu Silja Aðalsteinsdóttir, útgáfustjóri, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, rithöfundur og tónlistarmaður og Jórunn Sigurðardóttir, dagskrárgerðarmaður. Alls bárust 7 tilnefningar um barnaleikverk. Þess má geta að Áslaug hlaut Norrænu barnabókaverðlaunin fyrir bókina sem leikritið er gert upp úr.
Norrænu leiklistarsamböndin standa að Norrænu leikskáldaverðlaununum sem veitt eru annað hvert ár í tengslum við Norræna leiklistardaga. Að þessu sinni var ákveðið að verðlauna leikskáld fyrir barnaleikrit þar sem norrænu leiklistardagarnir verða haldnir í tengslum við barnaleikhúshátíðina BIBU í Lundi í Svíþjóð dagana 5. – 8. maí 2010.
Í umsögn valnefndar um Gott kvöld segir:
Gott kvöld er vel skrifað leikverk, klassískt í byggingu, og skiptast á leikin atriði og sungin. Þetta er frumlegt verk sem leikur sér á einstakan hátt að tungumálinu í þrívíðu samhengi leikhússins. Það er hugsað fyrir börn undir skólaaldri en virkar fyrir fólk á öllum aldri af því hvað það notar ímyndunaraflið og tungumálið á frjóan og skemmtilegan hátt. Persónur eru margar en hægt er að velja leiðir til að sýna þær: leika þær, teikna þær eða sýna þær á skuggamyndum á tjaldi. Þar gefur verkið leikhúsinu frjálsar hendur þó að verkið sé að öllu leyti fullunnið. Engar myndir fylgja af hinum óvæntu gestum þannig að hvert tungumál getur skapað þá í sinni mynd. Það léttir verkefni þýðandans.