Haldinn að Öngulsstöðum í Eyjafirði 13.–15. nóvember 2009.
1. Þorgeir Tryggvason formaður Bandalagsins bauð viðstadda velkomna og setti fundinn. Hann kynnti fulltrúa Félags leikstjóra á Íslandi, Steinunni Knútsdóttur og Kolbrúnu Halldórsdóttur, sem komnar voru til að kynna handbók leikstjóra.
2. Steinunn Knútsdóttir kynnti Handbók leikstjóra og baráttu leikstjórafélagsins fyrir leiðréttingu á ímynd leikstjóra á Íslandi. Hún lýsti yfir ánægju með viðleitni áhugaleikara til að mennta sitt fólk í leikstjórn í Bandalagsskólanum sem er í raun eina leikstjórnarnámið sem boðið er upp á á Íslandi. Hún lagði áherslu á að metnaður væri í fyrirrúmi í svona starfi, hver sem væri að leikstýra. Þetta snérist ekki bara um að það væri alltaf gaman, það þyrfti fleira að koma til til þess að fólk entist í að eyða frítíma sínum þetta ár eftir. Hún sagði að verið væri vinna í því að uppfæra upplýsingar um alla meðlimi FLÍ á vefsíðu þeirra og þar getur fólk kynnt sér feril og menntun þeirra.
Kolbrún Halldórsdóttir kynnti einnig Handbók leikstjórans. Hún sagði handbókina vera hugsaða sem tékklisti fyrir áhugaleikfélög og þá leikstjóra sem vinna með þeim.
Almenn ánægja var hjá viðstöddum með þetta framtak FLÍ.
Steinunn sagði að FLÍ vildi með þessu stuðla að því að hver sem tekur að sér leikstjórn, ekki bara félagar þeirra, vinni sína vinnu af metnaði og kunnáttu.
Þorgeir benti á í sambandi við að leiklistarstarf „eigi ekki bara að vera gaman“ sé málið kannski að útvíkka „hvað er gaman“, það snúist ekki bara um brandara í pásum, það að bæta við sig þekkingu og eflast í listinni sé t.d. „gaman“.
Vilborg Valgarðsdóttir þakkaði framlagið og sagði það eitt það allra jákvæðasta sem gerst hafi í samskiptum FLÍ og Bandalagsins um langt skeið. Kolbrún og Steinunn þökkuðu fyrir sig og yfirgáfu fundinn.
3. Hörður Sigurðarson fjallar um „stöðu leikstjórasamninga“.
Það eru engir samningar í gildi á milli áhugaleikfélaga og FLÍ eða önnur sambærilega samtök.
Í ljósi þess að framundan er gífurlegur niðurskurður á fjárframlögunum ríkisins til áhugaleiklistar verða leikfélögin að vera meðvituð um það. Þegar leikstjóri vinnur sem verktaki semur hann við leikfélag og getur hvaða upphæð sem er gengið ef báðir aðilar eru sammála um hana.
Rætt um mikilvægi þess að ítreka við FLÍ að fjarlægja „samninginn“ af heimasíðu sinni.
Guðfinna Gunnarsdóttir taldi það nauðsynlegt að vera í samskiptum við framhaldsskólaleikfélög varðandi launamál leikstjóra. Þau væru, að því að hún taldi, oft að borga enn meira en Bandalagsleikfélög og nú hefðu þau stofnað með sér samtök.
Þorgeir sagðist hins vegar hafa heyrt í samtali við fyrrverandi formann FLÍ að framhaldsskólaleikfélögin væru að borga minna en við.
Vilborg benti á að þetta væri a.m.k. þriðja tilraun framhaldsskólanna til að stofna með sér samtök og þau hefðu jafnóðum lognast út af.
Þorgeir benti á að nú væri lag að senda fólk á leiktstjórnarnámskeið í Bandalagsskólanum en það verður haldið næsta sumar. Aldrei hafi verið jafnmikilvægt að leikfélögin hugsi sinn gang og taki upplýstar ákvarðanir um leikstjóraval.
Guðfinna sagði það mikilvægt að leikfélög sem væru að skoða ákveðinn leikstjóra hefðu samband við leikfélög sem viðkomandi hefði nýlega leikstýrt hjá og fengju upplýsingar um hann.
Fundi frestað til morguns kl. 23.00.
Fundi haldið áfram kl. 09.00.
4. Vilborg opnaði umræðuna um niðurskurð á styrknum frá ríkinu til áhugaleikhússins. Í fjárlögum er gert ráð fyrir lækkun framlaga til leikfélaganna úr 25,9 m.kr. í 11,4 m.kr. og framlag til skrifstofunnar úr 7,5 m.kr í 4 m.kr. Hún taldi bestu leiðina til að verjast þessu að Bandalagsfólk færi maður á mann og ræddi við meðlimi fjárlaganefndar og reyndi að benda þeim á alvarleika málsins.
Þorgeir sagði mikilvægt að leggja áherslu á að þessi niðurskurður á framlagi til leikfélaga muni koma niður á þeim leikstjórum sem starfað hafa með Bandalagsfélögunum þar sem leikfélög munu ekki hafa efni á að ráða þá. Einnig mun þetta koma harkalega niður á þjónustumiðstöðinni og gæti jafnvel þýtt að segja þurfi upp ritara og skera verulega niður þjónustu.
Þórvör Embla Guðmundsdóttir taldi að það væri mikilvægt að leggja áherslu á þau áhrif sem þetta hefði á landsbyggðina, leiksýningar áhugafélaganna eru oft á tíðum eini möguleiki fólks til að komast í leikhús.
Hörður Sigurðarson vakti athygli á að það er verið skera niður framlag til leikfélagana um 56% og til skrifstofu um 46,7% á meðan aðrir liðir undir Listir, framlög á fjárlögum ríkisins eru almennt skornir niður um 15-20%.
Silja Björk Huldudóttir sagði mikilvægt að herja líka á menntamálaráðherra þar sem hann getur haft ákveðið frumkvæði í svona málum.
Dýrleif Jónsdóttir benti á að í þessari umræðu mætti vekja athygli á forvarnargildi leiklistar fyrir ungt fólk.
Guðfinna Gunnarsdóttir sagði að fólk yrði vera á varðbergi gagnvart þeim rökum að það sé hlutverk menningarnefnda sveitarfélaga að styrkja svona starfsemi, það sé ekki alltaf hægt að treysta á að þau úthluti öllum verkefnum sem sækja um, ríkisstyrkurinn sé það eina sem menn hafa getað treyst á.
Halla Rún Tryggvdóttir sagði að Leikfélag Húsavíkur hefði aldrei fengið styrk frá menningarnefnd Norðurlands.
Vilborg taldi að mikilvægast væri að nota þau rök á fjárlaganefndarmenn sem eiga við í viðkomandi sveitarfélagi. Benda þeim á hvað þetta mun þýða fyrir sitt leikfélag.
5. Vilborg fór yfir stöðu húsnæðismála Bandalagsins. Loksins hefur kaupanda tekist að ganga frá hluta af kaupverði vegna Laugarvegar 96, rúmu ári seinna en kaupsamningur kveður á um. Núverandi leigusamningur að Suðurlandsbraut 16 gildir til 15. ágúst 2010 og er að sögn leigumiðlara ekki uppsegjanlegur fram að því.
Hafsteinn Þórisson benti á að mögulega væri hægt að rifta leigusamningi þar sem almennt væru fjárhagslegar forsendur brostnar.
6. Þorgeir og Vilborg fóru yfir fjárhagsáætlun NEATA-hátíðar á Akureyri 2010.
Fyrir liggur að Menntamálaráðuneytið ætlar að styrkja hátíðina um 2 m.kr og sótt hefur verið um styrk upp á 6 m.kr í Norræna menningarsjóðinn. Normenn ætla að stykja hátíðina um 70.000 NOK (rúmlega 1.5 m.kr.) og borga fyrir uppihald fyrir sinn leikhóp og það ætla Danir og Færeyingar einnig að gera ef ekki fást nægir styrkir.
Það er komið í ljós að ekki fást neinir peningar frá Akureyrarbæ en ennþá er inn í myndinni að við fáum ókeypis aðstöðu. Ekki er ljóst hvort hátíðin verður í Hofi eða annars staðar þar sem óvíst er hvort að húsið verður tilbúið.
Gert er ráð fyrir að það verði 160-200 manns á hátíðinni.
Ekki vantar bara peninga heldur mikið af sjálfboðaliðum til að vinna á hátíðinni.
7. Fundarmönnum skipt í hópa og þeir skila niðurstöðum.
Hópur 1.
Halldór Sigurgeirsson, Brynjar Schiöth, Sindri Rafn Haraldsson, Maríanna Ósk Sigfúsdóttir, Hörður Sigurðarson og Guðríður Ólafsdóttir.
Styrkur í fjárlagafrumvarpi.
Að fá félaga til
að ræða við fulltrúa í fjárlaganefnd Alþingis og að ræða við þingmenn kjördæmana. Koma á framfæri forvarnargildi starfseminnar.
Að stjórnir félagana taki málið fyrir á fundi og leiti eftir aðstoð félagana til að halda uppi áróðri og ef að maður þekkir mann að fá þá til að ræða við einstaka fjárlaganefndarmenn ef þeir þekkja til þeirra.
Sparnaðartillögur.
Hugmyndum velt upp.
Hópurinn telur að nauðsynlegt sé að gera allt sem hægt er til að halda tveimur starfsmönnum hjá Bandalaginu,
Skera niður prent- og ljósritunarkostnað t.d. þannig að Ársritið verði eingöngu á vefnum.
Fá félagsmenn til að spyrja eftir Sögu Bandalagsins á bókasöfnum í sinni heimabyggð. Bókasöfnum mun skylt að útvega þær bækur íslenskar sem beðið er um.
Reyna að selja auglýsingar á Leiklistarvefinn.
Setja af stað fjáröflunarverkefni, t.d. láta búa til hlut í átt við Álfinn og kalla hann Leikhúsrottuna og hafa eina söluhelgi og selja rottuna á landsvísu.
Fá aðildarfélög til að gefa föt í stað þess að henda þeim, – fatamarkað.
Leiga á áhugaleikurum t.d. fyrir árshátíðir, veislustjórnun o.fl.
Athuga með að leigja húsnæðið að kvöldi til – fyrir fundi eða námskeið.
Leiklistarhátíð.
Við meigum ekki vanmeta styrk Akureyrarbæjar þó hann komi ekki fram í beinhörðum peningum, þar sem bærinn mun veita styrki t.d. með aðgengi að húsnæði. Nokkrir félagar í Freyvangsleikhúsinu hafa langa reynslu af akstri hópferðabíla og athuga má hvort Akureyrarbær væri tilbúinn til að lána strætisvagna.
Hópurinn leggur áherslu á að haldið verði áfram að undirbúa hátíðina og ekki láta deigan síga, haldið verði áfram af fullum krafti þó ekki sé alveg ljóst með fjármögnun.
Hópur 2.
Ása Hildur Guðjónsdóttir, Ármann Guðmundsson, Daníel Freyr Jónsson, Dýrleif Jónsdóttir, Axel Vatnsdal og Guðfinna Gunnarsdóttir.
Niðurskurður í rekstri Bandalagsins.
– Tökum undir hugmyndir um að setja Ársritið á netið.
– Leggjum til að reynt verði að semja við leigusala um afnám tengingar við vísitölu og hugsanlega uppsögn. Á meðan á leigutíma stendur verði horft eftir nýju húsnæði til kaupa. Aðildarfélög verði viðbúin til hjálpar til við flutninga og spara þannig flutningskostnað.
– Leggjum einnig til að hagrætt verði í erlendu samstarfi eins og kostur er.
– Kalt mat. Okkur þykir blasa við að ef að til óbreytts niðurskurðar komi, þá séu stöðugildi skrifstofunnar í hættu og viljum við forðast slíkt í lengstu lög. Vert væri að skoða hvort bjarga megi stöðu á skrifstofum með samstarfi við vinnumiðlun?
– Þau fjárframlög sem áætluð eru í fjárlögum eru algjörlega óásættanleg.
– Viðbrögð við þessu gætu falist í persónulegum samskiptum við þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd.
– Einnig mætti hugsa sér að senda þingmönnum tölvupóst, þ.e. allar stjórnir leikfélaga fengju send sameiginleg áhersluatriði sem þeir gætu svo heimfært upp á sig – og svo sent á sína þingmenn. Mynda þannig hagsmunaþrýsting. Í slíkum pósti mætti benda á atvinnusköpun, handritasafn, fjölda stafandi félaga, fjölda áhorfenda, leggja áherslu á jákvæðni fyrir iðkendur sem og áhorfendur og svo framvegis. Síðast en ekki síst að benda á misræmi í niðurskurði miðað við aðra liði af svipuðu tagi.
Leiklistarhátíð
– Lykilatriði að virkja leikfélög í héraði til starfa fyrir hátíðina, vegna aðfanga og tengsla við fyrirtæki og stofnanir á svæðinu. Gott að halda hvatningar- og vinnufund með heimamönnum í janúar/febrúar þegar við vitum meira.
– Leggjum til að logohátíðarinnar verði tengt við ímyndavinnu sem þegar hefur verið unnin hjá Akureyrarbæ – rautt hjarta – og slagorðið verði: Af hjartans list.
– Notum líka Júlíus Júlíusson á Dalvík.
– Viljum endilega að samin verði ályktun á þessum fundi hér um niðurskurð. Þar kæmi meðal annars fram:
– atvinnusköpun
– margfeldiáhrif áhugaleiklistar á samfélagið
– áhorfendur og iðkendur
– félagsstarf á landsbyggðinni
– áhrif á fagmennsku
– þessari ályktun verði dreift á alla þingmenn, fjölmiðla og víðar.
Hópur 3.
Hópstjóri: Þráinn Sigvaldason
Þorgeir Tryggvason, Ingólfur Þórssion, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Silja Huldudóttir og Bernharð Arnarson.
Um niðurskurðartillögur á verkefnastyrk.
Nokkrar umræður spunnust um ástæður þess að leikfélögin og þjónustumiðstöðin fengu meiri niðurskurð en aðrir undir liðnu 02-982 Listir, framlög. Við þóttumst sjá að þarna væri jafnvel verði að hugsa um atvinnuskapandi þætti. Þetta þótti okkur ljóst að stafaði ef til vill af ákveðnu þekkingarleysi. Því vildum við að ráðist yrði í eftirfarandi aðgerðir.
– Leitað eftir samstarfi við Félag leikstjóra um að vekja athygli á atvinnuskapandi þáttum áhugaleikfélaganna varðandi leikstjórn og námskeiðahald.
– Tölum haldið á lofti. Styrkur á verkefni úr 400 í 190 og meðallaun leikstjóra sett fram í samanburði.
– Kallað verði eftir rökstuðningi á bak við að meiri niðurskurð eins og hjá öðrum. Þó sá rökstuðningur bærist ekki strax væri hann e.t.v. nothæfur í baráttunni fyrir hækkun í framtíðinni.
– Athygli vakin á barna- og unglingastarfi innan hreyfingarinnar.
– Skrifstofa setji saman gagnapakka, með tölum yfir kostnað og hvað niðurskurðurinn þýðir í krónum á verkefni. Eitthvað sem hægt væri að prenta út og fara með til fjárlaganefndarmanna.
Hvað ef þessi niðurskurður stendur? Vekja þyrfti athygli á því og ná til fjölmiðla og hugsanlega setja „á svið“ leikræn mótmæli.
Um niðurskurðartillögur til skrifstofu.
Nokkuð var rætt um launakostnað, þar sem hann er stærsti kostnðaðarliðurinn. Ljóst þótti þó að yrði starfshlutfall skert, og þá væntanlega opnunartími styttur um leið, myndi hagnaður af þjónustumiðstöðinni í formi söluhagnaðar minnka. Eins þótti okkur illmögulegt að minnka starfshlutfall skrifstofu á ári þegar halda ætti leiklistarhátíð. Hugmyndir að aðgerðum og rökstuðningi:
– Menntamálaráðuneyti bent á að hátíðin sem búið er að ákveða að styrkja þurfti allt starfsfólk þjónustumiðstöðvar svo hægt sé að halda hana.
– Benda á hverja miðstöðin þjónustar, aðra en leikfélögin: Björgunarsveitir, Skrekk, Æskulýðsstarf, skóla á öllum skólastigum, alla sem þurfa leiktexta, Gay Pride
Annað sem hægt væri að gera til sparnaðar og/eða fjáröflunar:
– Selja auglýsingar á vef. Leita til Grimas og Kryolan auk aðila innanlands sem áhugaleikfélög hafa viðskipti við.
– Tala við leigusalann. Fá á hreint hvort leigusamningur vegna húsnæðis við Suðurlandsbraut er uppsegjanlegur. Förum í síðasta lagi 15. ágúst, spurning hvort við gætum verið áfram ef hann lækkar sig verulega.
– Rætt var um hvort fýsilegt væri að halda aðalfundinn á höfuðborgarsvæðinu í vor, en eftir nokkrar umræður sýndist okkur að rétt væri að reyna að halda hann fyrir norðan ef hátíðin verður haldin. Líklegt er að annars þurfi að fara fleiri ferðir norður þannig að líklega yrði ekki sparnaður í því þegar upp yrði staðið.
Umræður um NEATA-hátíð
„Gjaldfæra“ þarf aðstoð Akureyrarbæjar, í hverju sem hún kemur til með að felast.
Norðurnefnd verði stofnuð. Sækja um peningastyrki til:
– KEA
– Saga Capital
– Í
slenskra verðbréfa
– Banka
Sækjast eftir matargjöfum frá, til dæmis:
– Kjarnafæði
– Samherja
– Norðlenska
– Vífilfelli
Norðurnefnd hefjist handa við umsóknir um alla menningartengda styrki á svæðinu.
Aðrir styrkmöguleikar í formi vöru og/eða þjónustu skoðaðir. Fá ferðamálafyrirtæki á svæðinu til að styrkja skoðunarferð.
Hugmynd kom upp um að Græni hatturinn yrði notaður sem hátíðaklúbbur en fljótlega þyrfti þá að fara að festa hann.
Vigdís Finnbogadóttir komi í stað núverandi forseta í dagskrá hátíðarinnar.
Katrín Jakobsdóttir Menntamálaráðherra verði verndari hátíðarinnar, skrifi ávarp í leikskrá og ávarpi jafnvel hátíðina.
Hvað gerist ef við höldum hátíðina ekki núna? Þá höldum hana 2012.
Hópur 4.
Elva Dögg Gunnarsdóttir, F. Elli Hafliðason, Hafsteinn Þórisson, Halla Rún Tryggvadóttir og Sigurgeir L. Ingólfsson.
1. Ríkisstyrkur:
Við vorum sammála um að það yrði að herja á nefndarmenn fjárlaganefndar. Hamra vel á því hvað starf leikfélaganna skiptir miklu máli fyrir börn og unglinga. Einnig að benda á að stór hluti leikstjóra á íslandi hafi atvinnu hjá áhugaleikfélögunum.
2. Skrifstofan:
Nýta tölvuna sem mest á meðan útrásavíkingaafleiðingaárin (nýyrði) ganga yfir. Athuga með leiguna hvort möguleiki sé að segja húsnæðinu upp vegna brostinna forsenda í þjóðfélaginu. Einnig hvort möguleiki væri á meiri rekstrarhagnaði með að semja við stærri aðila um innkaup á farða og öðrum vörum.
3. Hátíðin á Akureyri:
Ath. hvort hagstæðara sé að láta gesti gista í heimavistarskólum í nágrenni og nýta þá eldhúsin þar ef matvörur fást fyrir lítið frá fyrirtækjum.
Hópur 5.
Í honum sátu þau Embla Guðmundsdóttir, Umf. Reykdæla, Ragnar Rögnvaldsson Leikfélagi Sauðárkróks, Sigrún Sighvatsdóttir og Stefán Ólafsson frá leikfélagi Selfoss, Ása Gísladóttir leikfélagi Húsavíkur og Anton Örn Eggertsson frá leikfélagi Vestmannaeyja.
Til umræðu voru lækkuð framlög ríkisins til áhugaleiklistar og Leiklistarhátíð NEATA á Akureyri 2010.
Lækkuð framlög ríkisins
Hópurinn leggur áherslu á að:
– Stjórn Bandalagsins skrifi fjárlaganefnd aftur og leggi áherslu á að niðurskurður á fjárlögum verði ekki eins mikill og lagt er til í fyrirliggjandi drögum að fjárlagafrumvarpi.
– Rætt verði við fjárlaganefndarmenn, þingmenn og ráðherra, augliti til auglitis, til að sannfæra þá um mikilvægi áhugaleikhússins og þess að rekstrargrundvöllur skrifstofunnar verði áfram tryggður. Við trúum því að fyrirliggjandi tillaga byggist að nokkru á misskilningi á eðli starfsins.
– Til að allir landsmenn fái notið leiklistar þurfa áhugaleikfélögin að geta starfað. Stóru leikhúsin starfa öll í Reykjavík og á Akureyri. Einstaka atvinnuleikhús er úti á landi en þau eru fá. Vítt og breytt um landið eru eingöngu áhugaleikhús starfandi. Sem er náttúrulega frábært út af fyrir sig.
– Sveitarfélög eru verr í stakk búin núna til að styðja við áhugaleiklist og allt menningarstarf en oft áður. Í harðnandi árferði og kreppu lenda menningarliðirnir fyrstir undir niðurskurðarhnífnum.
– Ekki má gleymast að áhugaleikhúsið er mikilvægur þáttur í atvinnumálum ýmissa annarra stétta s.s. leikstjóra, hönnuða, leikmyndasmiða, tónlistarmanna og svo mætti lengi telja.
– Forvarna-, uppeldis-, og þroskagildi leikhússins er stórlega vanmetið. Langt er því frá að öll börn og unglingar vilji bara stunda íþróttir í sínum frítíma. Leiklist og önnur menning er líka æskulýðsstarf. Áhugaleikhúsið er mjög mikilvægur valkostur í tómstundastarfi og sum félögin eru með sérsniðið starf fyrir þennan aldurshóp þó að hjá félögunum flestum finnist ekkert kynslóðabil.
– Úthlutunarreglur Bandalagsins eru skýrar og til fyrirmyndar.
– Kostnaður við sýningar hefur stóraukist.
– Áhugleikhúsfólk getur verið stolt af sínum störfum og þætti sínum í menningarlífi þessa lands. Það er ekki gott að heyja þessa baráttu með volæði og barlómi. Þvert á móti eigum við að halda á lofti mikilvægi áhugleikhússins, það er þroskandi, skemmtilegt, skapandi og gefandi.
Þjónustumiðstöð
– Leita þarf allra leiða til að ekki þurfi að skerða starfshlutfall á þjónustumiðstöð Bandalagsins. Hún er vel rekin, þar er frábært starfsfólk og þjónustan til fyrirmyndar. Ekki má gleyma því að þar er ekki einungis veitt þjónusta til áhugaleikfélaganna og þeirra hagsmuna gætt, heldur gegnir þjónustumiðstöðin mikilvægu hlutverki fyrir öll skólastigin í landinu og ótal, ótal fleiri aðila. Jafnvel björgunarsveitirnar eru farnar að leita til Bandalagsins um nauðsynlegar vörur til að nota við slysaæfingar sínar.
– Handritasafn Bandalagsins er einstakt og eina alvöru leikritasafn Íslands. Nauðsynlegt varðveislugildi þess ætti nú eitt og sér að duga sem rök fyrir því hversu arfavitlaust það er að lækka framlög til skrifstofunnar. Gerum allt sem við getum til að varðveita þessi störf. Hópurinn lagðist ekki í sérstaka rannsókn á því hvar mætti skera niður í starfseminni. Við trúum því að þessar tillögur að framlagi séu byggðar á misskilningi og verði leiðréttar til fyrra horfs.
NEATA-hátíð á Akureyri sumarið 2010
Enn eru margir óvissuþættir en fólk er fullt bjartsýni og trúir að hátíðin verði haldin með pompi og prakt. Nokkrar efasemdir um að Hof verði tilbúið – hvað gerum við ef svo verður ekki? Aðeins rætt um tímasetningu, svæðið hefur ekki sérstaka hagsmuni af því að hátíðin fari fram á þessum tíma vegna þeirra stóru viðburða sem samtímis verða þá í gangi á Eyjafjarðarsvæðinu.
– Lagt er til að reynt verði að fá Samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneyti og Ferðamálaráð til að styðja við hátíðina. Einnig verði leitað til Menningarráðs Norðurlands.
– Getum við selt sýningar? Fá fyrirtæki til að kaupa eða styrkja einstakar sýningar. Gæti t.d. átt við fyrirtæki sem á einhvern hátt á hagsmuna að gæta í því landi sem sýningin kemur frá. Nokia og Finnland, Frón og Færeyjar.
– Mikilvægt er að heimafólk fari sem fyrst að leita til þeirra aðila á svæðinu sem hugsanlega gætu veitt stuðning á einn eða annan máta. Heimamenn þekkja betur til og ómarkvissara er að allur undirbúningur sé unnin úr Reykjavík.
– Fljótlega þarf að fara að vekja athygli fjölmiðla á að til standi að halda þessa hátíð. Getum við fengið fjölmiðla til að sýna áhugaleikhúsinu meiri áhuga með greinum, þáttum o.s.frv.
– Varðandi mannskap til að vinna við hátíðina var rætt hvort ekki væri hægt að fela stjórunum félaganna að útvega fólk til að vinna ákveðin verk. Þyrfti að útfæra einhvern veginn með tímafjölda, störf og þetta allt saman. Það getur létt stjórnum lífið að hafa í höndunum bréf þar sem beinlínis er farið fram á að félagið leggi til ákveðið vinnuframlag.
– Bros og bjartsýni – það er það sem gildir!
Fleira ekki fært á blað – Embla Guðmundsdóttir ritaði fundargerð.
Í umræðum taldi Halldór Sigurgeirsson að takmarkaður sparnaður hlytist af að færa aðalfund til Reykjavíkur. Menn tóku almennt undir það.
9. Önnur mál
Þorgeir lýsti yfir ánægju sinni með stuttverkahátíðina Margt smátt sem haldin var í Félagsheimili Seltjarnarness 10. 10. 2009 með þátttöku Færeyinga. Hann sagði að framhald
inu stæði til að halda Vest-norræna stuttverkahátíð (Ísland-Noregur-Færeyjar) í Færeyjum vorið 2011.
Vilborg bent á að nú er hægt að sækja um ferðastyrki í sjóðinn Kulturkontakt Nord vegna leikferða til Norðurlanda og Eystrasaltsríkja.
Þorgeir kynnti breytingar á starfsemi NAR.
F. Elli Hafliðason spurði um stöðu gagnrýnihóps á Suðvesturhorninu. Hörður svaraði að hópurinn væri til staðar en hefði sofnað á verðinum. Þetta byggðist fyrst og fremst á að félögin séu tilbúin að leggja smá pening í þetta og að þeir sem hafi áhuga á að skrifa fari í það. Þorgeir sagði að á Norðurlandi hefði Leikfélag Sauðárkróks tekið ákveðið frumkvæði í þessu máli. Silja sagði að sér þætti 20.000 kr. mikið fyrir slíka gagnrýni, það væri meira en Morgunblaðið borgaði fyrir umfjöllun um atvinnusýningar. Hörður sagði að það þyrfti bara að finna upphæð sem menn sættu sig við. Hann minnti reyndar að rætt hefði verið um 15.000 kr.
Fundi frestað kl. 17.00
Fundi haldið áfram kl. 10.00 sunnudaginn 15. nóvember.
10. Stjórn leggur fram tillögu að ályktun fundarins:
Bandalag íslenskra leikfélaga mótmælir fyrirhuguðum stórfelldum niðurskurði á framlögum til starfsemi áhugaleikfélaga. Niðurskurður á styrkjum til menningar og lista er skiljanlegur í ljósi núverandi efnahagsástands. Áhugaleikfélögin hafa því eins og aðrir verið því viðbúin að þurfa að taka á sig auknar byrðar. Bandalagið lýsir hinsvegar yfir furðu og óánægju með að fyrirhugaður niðurskurður á framlagi til starfsemi leikfélaganna nemi rúmlega 50% sem er langt umfram þau u.þ.b. 20% að meðaltali sem ætlunin er að skera niður framlög til liststarfsemi almennt. Leikfélögin í landinu eru tilbúin að leggja sitt af mörkum, til jafns við aðra. Bandalagið skorar á Alþingi að endurskoða þennan gríðarlega niðurskurð sem mun nánast lama alla hefðbundna starfsemi leikfélaganna í landinu.
Gert að Öngulsstöðum í Eyjafirði, 15. nóvember 2009
Ályktunin rædd og hún samþykkt.
Ása Hildur benti fólki á að nýta sér Facebook til að auglýsa sýningar þar sem það er bæði áhrifaríkt og ókeypis.
Bernharð spurði hvort ekki yrðu námskeið fyrir tæknimenn fljótlega. Dýrleif svaraði að slíkt hefði verið haldið fyrir stuttu síðan en framhaldsnámskeið varð að fella niður vegna dræmrar þátttöku. Skólamál rædd og Dýrleif gerði grein fyrir námskeiðum sumarsins 2010.
Halldór ítrekaði áhuga Eyfirðinga á því að halda að aðalfund 2010. Lofaði að hann yrði skemmtilegur og jafnvel haldinn á fleiri en einum stað. Farið yrði í vettvangsferði á slóðir leiklistarhátíðarinnar.
Þorgeir sagði fundi slitið.
Fundargerð ritaði Ármann Guðmundsson.