Þjóðleikhúsið frumsýnir Sindra silfurfisk, nýtt íslenskt barnaleikriti eftir Áslaugu Jónsdóttur, laugardaginn 31. október kl. 13:30. Sýningin er í Kúlunni, barnaleikhúsi Þjóðliekhússins að Lindargötu 7. Hafdís í skrautfiskabúðinni Fjörfiskar er löngu hætt að selja fallegu fiskana sína. Þeir eru vinir hennar og hún vill miklu heldur segja þeim sögur, eins og til dæmis söguna af Sindra silfurfiski og leyndarmálinu hans.

Sindri silfurfiskur á sér þann draum svalastan að verða gullfiskur og á leið sinni um hafdjúpin mætir hann ótal skrýtnum og skrautlegum sjávardýrum – og sum þeirra eru mjög hættuleg! Þetta er hugljúft og undurfallegt ævintýri fyrir börn frá 3ja ára aldri og alla krakka, pabba, mömmur, afa, ömmur, frænkur og frændur.

Sjávardýrin í sýningunni eru að uppistöðu brúður úr sýningu Þjóðleikhússins Krukkuborg, sem Þórhallur Sigurðsson leikstýrði á stóra sviðinu árið 1978. Una Collins, búninga- og leikmyndahönnuður, teiknaði sjávardýrin og skapaði þau ásamt formlistamönnum leikhússins, þeim Bjarna Stefánssyni og Jóni Benediktssyni. Erna Guðmarsdóttir í Leikbrúðulandi kom einnig að brúðugerðinni.

Það er ekki oft sem hlutir úr sýningum varðveitast áratugum saman, hvað þá að unnt sé að nota þá aftur í nýjar sýningar. En fyrir nokkru komu fiskarnir aftur í ljós í geymslum leikhússins, jafn skínandi fallegir og þeir voru fyrir þrjátíu árum. Þórhallur leikstjóri vildi endilega gefa þeim nýtt líf í stað þess að hafa þá í geymslu og bað Áslaugu Jónsdóttur að skrifa nýtt leikrit um þorskinn, karfann og alla hina. Áslaug hafði áður samið leikritið Gott kvöld sem sýnt var í Kúlunni, en sýningin fékk Grímuverðlaunin sem besta barnasýningin vorið 2008.

Annars hefur verið mikið líf og fjör í Kúlunni nú í haust. Í september bauð leikhúsið öllum fjögurra og fimm ára leikskólabörnum á höfuðborgarsvæðinu að koma í heimsókn og kynnast leikhúsinu. Hátt í 5.000 börn frá 160 leikskólum mættu í Kúluna með kennurunum sínum og hlýddu á leikkonuna Lilju Guðrúnu Þorvaldsdóttur leika söguna um Búkollu í leikstjórn Friðriks Friðrikssonar. Einnig fengu börnin að skoða brúður og leikmuni úr fyrri sýningum Kúlunnar, og kynnast ævintýraveröld leikhússins.

Brúðugerðarmeistarinn Stefán Jörgen Ágústsson bjó til nýjar persónur fyrir sýninguna nú, eins og Sindra, kolkrabba, hákarl, hval og fleiri. Leikari sýningarinnar er Elva Ósk Ólafsdóttir. Þrír brúðustjórnendur stjórna sjávardýrunum og tólf leikarar ljá þeim raddir sínar.

Sýningin er tileinkuð minningu þeirra Unu, Jóns og Bjarna.

{mos_fb_discuss:2}