Framundan er fyrsta frumsýning leikársins í Borgarleikhúsinu og eru það stórleikararnir Sigurður Sigurjónsson, Karl Ágúst Úlfsson og Örn Árnason sem ríða á vaðið með leikrit sitt Harry og Heimi – með öðrum morðum. Leikritið er byggt á geysivinsælum útvarpsþáttum þeirra félaga um einkaspæjarana Harry Rögnvalds og Heimi Schnitzel og svakamálin sem þeir taka að sér að leysa. Nú bætast töfrar leikhússins við og hér koma einkaspæjararnir loks fyrir augu áhorfenda.
Verkið er sprenghlægilegur ærslaleikur og á sviðinu eru það ekki bara þeir Harry og Heimir sem við könnunst við heldur birtast margar kunnulegar persónur úr gervasafni þeirra félaga og kítla hláturtaugar áhorfenda. Þegar útvarpsþættirnir voru gerðir voru leikararnir þrír um það bil að verða vinsælustu gamanleikarar landsins. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar en þeir Siggi, Örn og Kalli hafa sem kunnugt er verið uppistaðan í vinsælasta sjónvarpsefni Íslandssögunnar, Spaugstofunni sem þjóðin hefur hlegið dátt að á laugardagskvöldum í rúm 20 ár.Frumsýnt er á Litla sviði Borgarleikhússins kl. 20.00 laugardaginn 12. september.