Hörður S. Daníelsson skellti sér um daginn á sýninguna Morbid hjá The Fiasco Division í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Morbid er ein af sýningum Art fart hátíðarinnar sem nú er í fullum gangi. Þetta var devised leiksýning sem fjallar um lífið, eða tilgang lífsins eftir dauðan. Leikarar eru fimm: Alecande Roberts, Anna Zehentbauer, Kári Viðarsson, Lauren McCullum og Stephanie Thorpe. En þau eru öll verðandi útskriftarnemar í European Theatre Arts leiklistarbraut Rose Bruford College í London. Ljósin voru í höndum Garðars Borgþórssonar.

Þögull, og alvarlegur náungi með gleraugu, spilaði hljóðlaust á rafmagnsorgel í anddyrinu er beðið var eftir sýningu. Það setti stemninguna. Þar næst kom ungur maður og tilkynnti okkur með svolitlum málalengingum að atburðurinn væri í þann mund að byrja. Báðar þessar persónur báru brag af innistæðulausum alvarleika. Það var eitthvað skondið við það hvað þeir tóku þessu alvarlega. Svo var okkur vísað inn og leikritið hóf göngu sína hægt og rólega. Persónurnar ýktust upp og skopleikurinn um dauðann byrjaði.

Til að byrja með leið verkinu vel. Stíllinn var skoplegur og súrrealískur, Leikararnir héldu sér vel á örlítið yfirdrifnum leik, en ég náði ekki að tengja mig við persónurnar. Þær voru of langt í burtu, verkið bauð kannski ekki upp á það. Kannski vantaði fleiri pásur, svona til að hugsa og finna sig, eða að hugsunin hafi ekkert endilega verið sú að finna mikið fyrir persónunum.

Seinnipartur verksins gekk ekki upp. Fólk var beðið að koma upp á svið og við það dó söguþráðurinn. Restin voru þó nokkrar ræður sem persónur verksins fluttu á milli þess sem reynt var að fá áhorfendur til að finnast þeir vera partur af verkinu. Það var ekkert óþægilegt við að vera uppi á sviði, manni var ekki att út í neitt sem maður vildi ekki. En ég trúi því að það hefði auðveldlega verið hægt að koma restinni af verkinu miklu betur til skila bara með okkur sitjandi í sætunum.

Reyndar skapaðist skemmtileg stemming þegar hver persóna setti upp lítin sýningarbás. Svo það varð nokkurskonar kolaports stemning. En það komu sprungur í örlítið ýkta karakterana og það fór að glytta í leikarann á bakvið þegar staðið var svona nálægt. Og eins og ég sagði þá dó söguþráðurinn, Þetta var fjórði heimurinn eftir dauðan sem okkur var sýnt og ég átti erfitt með að sjá hversu mikið af þessu átti við eða hvar við vorum yfir höfuð stödd í verkinu.

Það sem stóð upp úr var á milli fyrri og seinniparts, sem var lítið leikrit í leikriti. Lítill dans sem sem var endurtekin nokkrum sinnum og með hverri endurtekningu varð áhugaverðari. Nákvæmlega sami dansinn og svo örlítill díalógur í lokinn. Ekkert breyttist nema hvernig áhorfandinn leit á þetta. Mér leið eins og ég væri í einhverju samblandi af Beckett og Teletubbies. Allt fór að skipta máli, sem var kúl.

Ljósin voru fín, gerðu sitt og létu lítið fyrir sér fara. Gott verk á þeim bæ.

Einnig var leikurinn almennt orkumikill og þéttur, sérstaklega fyrripartinn. Karakterar voru lifandi og héldu boltanum gangandi. En eins og áður sagði þá breyttist leikurinn þegar áhorfendur komu á svið. Takturinn var ekki sá sami. Kannski það hafi verið orkan sem áhorfendur gáfu af sér.

Sumsé, skemmtileg, frumleg og orkumikil sýning sem náði ekki alveg að halda dampinum í lokin.

Hörður S. Dan.

{mos_fb_discuss:2}