Leikfélag Hafnarfjarðar frumsýndi Dýragarðssögu eftir Edward Albee í leikstjórn Halldórs Magnússonar síðastliðinn laugardag. Sýningin er sú fimmta í röðinni sem félagið frumsýnir á yfirstandandi leikári og undirritaður hefur áður lýst aðdáun á þeim krafti og kjarki sem speglast í þessu framtaki félagsins þó segjast verði að gæði sýninganna hafi verið upp og ofan. Þó í mikið hafi oft verið ráðist og stundum jafnvel meira en efni stóðu til er víst að félagið mun njóta þessarar dirfsku á komandi árum. Leikarar, leikstjórar og aðrir úr röðum félagsmanna hafa oftar en ekki þreytt frumraun og hlotið eldskírn á áður ókunnu sviði og mikið hefur verið lagt inn í reynslubankann.

Dýragarðssaga er sennilega smæst í sniðum af þessum sýningum. Leikarar eru aðeins tveir og umgjörðin afar einföld, svo til bara tveir bekkir í almenningsgarði. Þar með er þó ekki sagt að verkið sé einfalt í uppsetningu, þvert á móti; það er ekki síst vegna einfaldleika aðstæðna sem verkið gerir miklar kröfur til leikstjóra og ekki síður leikara.

Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson leikur ólíkindatólið Jerry sem hittir hinn „venjulega“ borgara Peter í almenningsgarðinum og hristir verulega upp í honum. Guðmundur gerir margt vel í túlkun á Jerry og á stundum nær hann að láta glitta í einmanaleikann og kvölina sem býr á bak við töffaragrímuna. Heilt yfir er Jerry þó fulleinsleitur til að ná almennilega til manns. Meiri vídd í persónu hans hefðu gert sýninguna áhrifaríkari. Ekki hjálpar heldur að hreyfingar Jerrys á sviðinu virka stundum vélrænar. Það verður þó að skrifa á reikning leikstjóra sem hefði mátt leggja meiri vinnu í þennan þátt. Aðalstyrkur sýningarinnar liggur hinsvegar í einstakri frammistöðu Gunnar Björns Guðmundssonar í hlutverki Peters. Gunnar Björn sýnir á köflum hreinan stjörnuleik, sérstaklega í þöglum leik sínum. Hann dregur upp svo áhrifaríka og skýra mynd af hinum venjulega og jafnvel eilítið rykfallna Peter að jaðrar við senuþjófnað á stundum.

Leikstjórinn Halldór Magnússon hefur verið einn helsti leikari félagsins um margra ára skeið og þó hann hafi spreytt sig á leikstjórn á öðrum vettvangi er þetta í fyrsta sinn sem hann leikstýrir hjá LH. Halldór sýnir að hann á fullt erindi á þessu sviði þrátt fyrir þá hnökra sem minnst er áður er minnst á. Leikstjórnin er hófstillt og höfundi og leikurum treyst til að skila sínu án þess að gripið sé til ódýrra bragða. Umgjörð og tæknivinna er til fyrirmyndar, einföld og þjónar verkinu. Hugmyndin að leikmyndinni og útfærsla hennar er sérlega snjöll. Ný þýðing Þórunnar Grétu Sigurðadóttur er yfirleitt þjál og góð þó á einstaka stað hafi orðaval virkað gamaldags.

Leikfélag Hafnarfjarðar er á góðri leið með að setja Íslandsmet í fjölda uppsetninga sem er í góðu lagi meðan menn gera sér grein fyrir að magn er ekki það sama og gæði . Enn er töluvert eftir af leikárinu og spennandi verður að vita hvort félagsmenn LH ætla að láta hér staðar numið.

Hörður Sigurðarson