Tvö pláss á sérnámskeið fyrir leikara voru að losna vegna forfalla í Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga sem settur verður nk. laugardag. Kennari er Rúnar Guðbrandsson.
Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa reynslu í leikhúsi. Þeir ganga fyrir sem sótt hafa Leiklist I og II eða sambærileg námskeið eða hafa talsverða reynslu af sviðsleik.
Námskeiðið snýst um tækni, þjálfun og sköpun leikarans og sækir m.a. innblástur í Leikhús grimmdarinnar (Antonin Artaud), Fátæka leikhúsið (Jerzy Grotowski) og Þriðja leikhúsið (Eugenio Barba).

 

Til að byrja með verður farið í atriði er lúta að leiktækni, – sjálfu handverki leikarans, því hversu skapandi sem við erum, þá höfum við engan farveg til að beina sköpunarkrafti okkar í – ef okkur skortir tækni. Áherslan verður því fyrst um sinn á formið (tækni) fremur en innihaldið. Þátttakendum verður síðan gert að nýta sér þá tækni sem þau hafa tileinkað sér á skapandi hátt og verður þá unnið með ýmis konar spunatækni og samsetningar. Áherslan færist þá frá forminu að innihaldinu.

Áhersla verður lögð á persónulega og einlæga tjáningu og í því sambandi unnið með æfingar þar sem þátttakendur nota sína eigin reynslu (t.d.minningar) og ímyndunarafl (langanir, vonir, ótta, drauma o.s.frv.) til að skapa leikrænar aðstæður og athafnir. Þátttakendur skulu velja eða semja sjálf texta (bundið mál eða óbundið sem tekur ca. 1-2 mín. í flutningi) til að vinna með. Mikilvægt er að textinn skipti viðkomandi máli fyrir einhverra hluta sakir (málefnalega, tilfinningalega …) og að viðkomandi kunni textann utanbókar (afturábak og áfram) á fyrsta degi. Einnig er gott að hafa eins og eitt sönglag í handraðanum (lag og texta, – þó ekki sé nema eitt erindi). Ath. að námskeiðið getur verið líkamlega krefjandi fyrir nemandann.

Lykilorð: Útgeislun, nærvera, líkami, rödd, hugsun, tilfinning, rými, tími, þyngd, jafnvægi, mótstaða, flæði, taktur, samræmi, einbeiting, hlustun, samspil, nákvæmni, endurtekning, form, bygging (strúktúr), frásögn, augnablik, orka, öndun, slökun og svo framvegis ….

Rúnar Guðbrandsson nam leiklist í Danmörku og starfaði þar sem  leikari um árabil, með ýmsum leikhópum. Frekari þjálfun hlaut hann  m.a. hjá Odin leikhúsinu í Holsterbro og hjá leikhópi Jerzy  Grotowskis í Wroclaw í Póllandi. Hefur auk þess sótt námskeið hjá  m.a. Bread and Puppet Theatre, Dario Fo, Jury Alschitz, Anatoly  Vasiliev, Nadine George, Annelise Gabbold, ofl. Meðlimur ISTA, International School of Theatre Anthropology, síðan 1995. Rúnar lauk MA og MPhil gráðum í leiklistarfræðum og leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester í Englandi og leggur nú lokahönd á doktorsverkefni sitt í fræðunum. Rúnar hefur leikstýrt fjölda leiksýninga hérlendis og erlendis og fengist við leiklistarkennslu og þjálfun leikara, auk ýmis konar tilraunastarfsemi á vettvangi kvikmynda og gjörningalistar. Hann var fyrsti prófessor í leiktúlkun við leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Rúnar var einn af stofnfélögum Lab Loka 1992 og hefur síðan verið helsti hugmyndafræðingur og leikstjóri hópsins (www.labloki.is).
 Þetta er í fjórða sinn sem Rúnar kennir við skólann.

Kennari Rúnar Guðbrandsson
Þátttökugjald kr. 45.000.-
Tími: 13. til 21. júní 2009
Staður: Húsabakkaskóli í Svarfaðardal
Skráið ykkur fyrir kl. 16.00 fimmtudaginn 11. júní og sendið ferilskrá um leið á netfangið info@leiklist.is og greiðið þátttökugjaldið inn á reikning 334-26-5463, kt. 440169-0239.