Borgarleikhúsið frumsýnir Söngvaseið föstudaginn 8. maí nk. Söngvaseiður er einn þekktasti söngleikur allra tíma enda haldast þar í hendur hrífandi tónlist og hjartnæm saga. Verkið var frumflutt í New York árið 1959 og hefur tvisvar verið sett upp í atvinnuleikhúsi hér á landi. Tónlistin er löngu orðin sígild og nægir þar að nefna lög eins og Do re mí og Alparós. Söngleikurinn hefur verið dáður um allan heim í áratugi og í þessari uppsetningu er ekkert til sparað, fjöldi leikara og tæknifólks er með því mesta sem um getur í sögu LR.
Fullt er á forsýningar og hátt í 30 sýningar í framhaldi af því. Valgerður Guðnadóttir fer með hlutverk Maríu og Jóhannes Haukur Jóhannesson leikur Georg von Trapp en alls koma um 25 leikarar fram í sýningunni auk átta manna hljómsveitar. Áheyrnarprufur fyrir hlutverk barnanna stóðu í allan vetur og vöktu mikla athygli.
Um Söngvaseið
María er heillandi ung kona sem bókstaflega elskar lífið og sönginn. Hún finnur sig ekki í klaustrinu og er því send í vist til ekkjumannsins Georg von Trapp til að gæta sjö hávaðasamra barna hans. María áttar sig fljótlega á því að það sem börnin skortir er ást og hlýja og með söng sínum og glaðværð vinnur hún hug og hjörtu þeirra. Að lokum fellur hinn forskrúfaði Von Trapp einnig fyrir Maríu og málin virðast ætla að fá farsælan endi fyrir alla. En það er tvísýnt um hamingjuna á viðsjárverðum tímum í upphafi seinni heimstyrjaldarinnar.
Listrænir stjórnendur:
Þórhallur Sigurðsson, leikstjóri
Agnar Már Magnússon, tónlistarstjóri
Ástrós Gunnarsdóttir, danshöfundur
Stefanía Adolfsdóttir, búningahönnuður
Snorri Freyr Hilmarsson, leikmyndahönnuður
Þórður Orri Pétursson, ljósahönnuður
Sigurvald Ívar Helgason, hljóðmynd
Sigríður Rósa Bjarnadóttir, leikgervi