Sýning Freyvangsleikhússins á söngleiknum Vínland eftir Helga Þórsson var valin athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2008-2009 af dómnefnd Þjóðleikhússins. Þetta er í sextánda sinn sem athyglisverðasta áhugaleiksýning er valin en sú sýningin er jafnan sýnd í Þjóðleikhúsinu á vordögum. Þetta er jafnframt í þriðja sinn sem Freyvangsleikhúsið fer með sýningu í Þjóðleikhúsið.
Umsögn dómnefndar um Vínland var svohljóðandi:
Það er hreint út sagt frábær hugmynd hjá Helga Þórssyni og Freyvangsleikhúsinu að setja á svið rokksöngleik byggðan á víkinga-arfleifð okkar Íslendinga. Helgi Þórsson er aðalhugmyndasmiður þessarar sýningar, sem höfundur tónlistar, texta og útlits sýningarinnar, en er dyggilega studdur af kraftmiklum hópi leikara, tónlistarfólks og allra annarra sem til þarf að gera svona stórsýningu að veruleika. Úrvinnslan á menningararfi okkar var mátulega hátíðleg, og á köflum bráðsniðug. Stór hópur leikara kemur að sýningunni, og nýtur sín vel í söng og leik, og eru sum tónlistaratriðanna afar áhrifamikil. Er þar þáttur tónlistarstjórans, Ingólfs Jóhannssonar, ekki lítill, en tónlistarflutningur er í höndum hljómsveitarinnar Helgi og hljóðfæraleikararnir. Mikið er lagt í leikmynd og búninga og þar er ólíkum stílum stefnt saman á djarfan hátt, svo hetjur víkingatímans birtast okkur eins og þúsund ára gamlar rokkstjörnur. Frumleiki, hugmyndaauðgi og kraftur einkenna þessa skemmtilegu sýningu.
Þjóðleikhúsið óskar Freyvangsleikhúsinu til hamingju og býður leikfélaginu að koma og sýna Vínland í Þjóðleikhúsinu 11. eða 12. júní.
Þátttaka í samkeppninni um athyglisverðustu áhugaleiksýninguna var með eindæmum góð í ár, en alls átján leikfélög sóttu um með tuttugu sýningar. Að þessu sinni voru allar sýningar skoðaðar af DVD upptökum. Í dómnefnd í ár sátu Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leiklistarráðunautur Þjóðleikhússins, Vigdís Jakobsdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar Þjóðleikhússins og Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri.
Á myndinni sést Tinna afhenda Halldóri Sigurgeirssyni, formanni Freyvangsleikhússins viðurkenningarskjalið.
Umsögn dómnefndarinnar um einstök verk var eftirfarandi:
Barna- og unglingaleikhúsið Borgarbörn sýndi leikritið Rétta leiðin eftir Erlu Ruth Harðardóttur og Hrefnu Hallgrímsdóttur, en Erla Ruth leikstýrði. Leikhópurinn samanstendur af börnum og unglingum. Umgjörðin var einföld og leikararnir á sviðinu í aðalhlutverki. Hlustunin hjá þessum ungu leikurum, framsögn og orka á sviðinu var sérlega góð.
Halaleikhópurinn sýndi Sjeikspírs Karníval, sýningu byggða á verkum Williams Shakespeares í leikgerð og leikstjórn Þrastar Guðbjartssonar. Sýningin er bæði litrík og sniðug, og skemmtilegt mótvægi við verðlaunauppsetningu leikhópsins á Gaukshreiðrinu í fyrra. Það var aðdáunarvert að sjá leikhópinn takast á við krefjandi texta Shakespeares af jafn miklum húmor og gleði og raun bar vitni.
Hugleikur sýndi stuttverkadagskrá undir heitinu Ó, þessi tæri einfaldleiki, sem samanstóð af verkum eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur, Hrefnu Friðriksdóttur, Hörð S. Dan, Þórunni Guðmundsdóttur, Þórarin Stefánsson og Árna Friðriksson. Sýningin var sett upp í tilefni af 25 ára afmæli Hugleiks, og það var góð hugmynd að gefa mörgum höfundum og leikstjórum úr röðum félagsmanna færi á að njóta sín með nýjum verkum, í sönnum Hugleiks-anda. Rýmið var nýtt á hugvitssamlegan hátt og óvenjulegur tónlistarflutningur tengdi atriði saman.
Leikdeild Ungmennafélagsins Eflingar sýndi Kvennaskólaævintýrið eftir Böðvar Guðmundsson í leikstjórn Arnórs Benónýssonar. Sýningin skartar stórum hópi ungra og efnilegra leikara, sem fór vel með bæði leikin atriði og söng. Uppsetningin er falleg í einfaldleika sínum og búningar og leikgervi sköpuðu sýningunni trúverðuga umgjörð.
Leikdeild Ungmennafélagsins Íslendings sýndi Línu langsokk eftir Astrid Lindgren. Leikstjóri var Ása Hlín Svavarsdóttir. Sýningin á Línu langsokk er fjörug og skemmtileg. Í hlutverkum Línu, Önnu og Tomma eru börn sem standa sig með prýði, og eru þau dyggilega studd af eldri og yngri leikfélögum í ýmsum hlutverkum.
Leikfélag Hveragerðis sýndi H.V.S.F.Í. eftir Hafstein Þór Auðunsson, Jakob Hansen og Sindra Þór Kárason. Leikstjóri var Ólafur Jens Sigurðsson. Nokkrar af lykilpersónum sögunnar hittast og ræða saman í hlutlausu rými leikhússins. Hér er á ferðinni leikhústilraun sem vissulega er bæði áhugaverð og djörf.
Leikfélag Keflavíkur sýndi Hin illa dauðu eftir George Reinblatt. Leikstjóri var Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson. Sýningin, sem er leikrit með söngvum, byggir á arfleið hrollvekjukvikmynda og það er augljóst að leikhópurinn, sem er skipaður ungu fólki, nýtur þess að takast á við verkefnið. Útkoman er kraftmikil og skemmtileg sýning.
Leikfélag Keflavíkur sýndi einnig Sex í sveit eftir Marc Camoletti. Leikstjóri var Örn Árnason. Sex í sveit er fjörugur gamanleikur. Umgjörð sýningarinnar og uppsetning er nokkuð hefðbundin en leikarar standa sig allir með ágætum og ná að fleyta atburðarásinni áfram af talsverðri leikni.
Leikfélag Kópavogs sýndi Skugga-Svein eftir Matthías Jochumson í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Tilbrigði Leikfélags Kópavogs við Skugga-Svein er bæði frumlegt og djarft, þar sem Skugga-Sveini sjálfum er steypt saman við hið rómantíska hlutverk unglingsins í verkinu; Harald. Það er merkilegt hvað þessi einkennilega ráðstöfun gengur skemmtilega upp og gefur nýtt sjónarhorn á þessa íslensku leikhúsklassík. Yfir sýningunni var sérstök og heimilisleg stemmning. Húmorinn var aldrei langt undan og söngnúmerin voru sérstaklega vel útfærð.
Leikfélag Rangæinga sýndi Orustuna á Laugalandi, sem byggð er á Orustunni á Hálogalandi eftir Riemann og Schwartz. Leikgerðina gerði Guðrún Halla Jónsdóttir, sem jafnframt leikstýrði. Orustan á Laugalandi er 25 ára afmælissýning Leikfélags Rangæinga, þar sem félagar í leikfélaginu skemmta áhorfendum með nýrri gerð af gömlum farsa um hjónabandið, bresti mannanna, pretti og misskilning.
Leikfélag Sauðárkróks sýndi Frá okkar fyrstu kynnum – 120 ár í sögu leikfélags eftir Jón Ormar Ormsson sem jafnframt leikstýrði. Eins og nafnið bendir til fjallar verkið um langa og viðburðaríka sögu Leikfélags Sauðárkróks, og er þar víða komið við, meðal annars í ýmsum leikverkum sem leikfélagið hefur sýnt. Leikhópurinn rekur söguna, bregður sér í ýmis hlutverk og syngur.
Leikfélag Selfoss sýndi barna- og fjölskylduleikritið Sjóræningjaprinsessuna eftir Ármann Guðmundsson sem jafnframt leikstýrði. Sjóræningaprinsessan er skemmtileg og spennandi sýning fyrir unga og aldna, með fjörugri tónlist, þar sem leikarar á öllum aldri standa sig með prýði. Leikritið er skemmtileg úrvinnsla á arfi sjóræningjasagna, þar sem ákveðin og óvenjuleg stelpa, með stóra sjóræningjadrauma, þarf að kljást við vantrúaðan stjúpbróður, óánægða stjúpforeldra og að lokum alvöru sjóræningja.
Leikfélag Sigluf
jarðar sýndi leikritið Héri Hérason eftir Coline Serreau. Leikstjóri var Guðjón Sigvaldason. Héri Hérason er verk sem gerir miklar kröfur til leikara og aðstandenda og leikfélagið ræðst í uppsetningu þess af mikilli áræðni og einurð. Leikmynd og leikstjórn eru vel útfærð, og leikararnir takast á við hlutverk sín af aðdáunarverðum krafti.
Leikfélag Ölfuss sýndi Blúndur og blásýru eftir Joseph Kesselring. Leikstjóri var Gunnar Björn Guðmundsson. Leikfélag Ölfuss hefur lagt upp með að ætla að skemmta áhorfendum sínum og sú fyrirætlan tekst. Ungir og eldri félagar leikfélagsins njóta sín vel í samstilltum og fjörugum leik.
Leikfélagið Grímnir sýndi söngleikinn Jesús Guð Dýrlingur eftir Andrew Lloyd Webber og Tim Rice. Leikstjóri var Guðjón Sigvaldason. Það er ekkert áhlaupaverk að ráðast í þennan viðamikla söngleik, og sýning Leikfélagsins Grímnis er metnaðarfull stórsýning, þar sem fjöldi ungs fólks tekur þátt. Tónlistarflutningurinn er krefjandi og var oft glæsilegur. Samvinna hópsins á sviðinu tókst með ágætum, og samspil leikara og leikmyndar, sem var mjög sniðug, var frumlegt og skemmtilegt.
Leikfélagið Peðið sýndi Skeifu Ingibjargar eftir Benóný Ægisson. Leikstjórar voru Lísa Pálsdóttir og Vilhjálmur Hjálmarsson. Leikhópurinn Peðið er skemmtileg viðbót við flóru áhugaleikhópa í Reykjavík. Hópurinn leggur áherslu á frumsköpun og tónlistin spilar stórt hlutverk í sýningum hans, enda hefur hann á að skipa mörgu hæfu tónlistarfólki. Hópur trúða í fánalitunum skoðar íslenskt samfélag fyrr og nú og nýtir takmarkað sýningarrými á Grand Rokk á hugvitsamlegan hátt.
Stúdentaleikhúsið sýndi á haustmisseri Scarta eftir Víking Kristjánsson, leikstjóra sýningarinnar og Stúdentaleikhúsið. Scarta er áhugaverð leikhústilraun sem staðfestir enn og aftur að Stúdentaleikhúsið er framsækið í nálgun sinni og efnistökum. Það hefur á undanförnum árum skapað sér nokkra sérstöðu í leikhúsflóru höfuðborgarinnar og það er vel.
Stúdentaleikhúsið sýndi á vormisseri Þöglir farþegar eftir Snæbjörn Brynjarsson sem jafnframt leikstýrði. Nálgun höfundar og leikstjóra byggir á ríkri heimsendatilfinningu sem félögum í Stúdentaleikhúsinu tekst með ágætum að miðla til áhorfenda. Spurt er stórra spurninga og leitað svara sem ekki liggja á lausu í þeirri óreiðu sem birtist okkur á sviðinu.
Ungmennafélag Reykdæla sýndi Töðugjaldaballið sendu mér sms, eftir Bjartmar Hannesson og Hafstein Þórisson. Leikstjórar voru Steinunn Garðarsdóttir og Jón Pétursson. Töðugjaldaballið er splunkunýr söngleikur eftir tvo félagsmenn, sem semja tónlist og söng- og leiktexta. Sýningin er stútfull af fjörugum tónlistaratriðum, þar sem unglingarnir í leikfélaginu sýna danstakta og sungið er við smellna söngtexta annars höfundanna.