Félagar í Ungmennafélagi Reykdæla láta hreint ekki deigan síga í leiklistinni þrátt fyrir að síðastliðinn vetur hafi verið ráðist í umfangsmikla sýningu þegar Þið munið hann Jörund var fært upp á aldar afmælinu. Verkefni þessa vetrar er um margt frábrugðið hefðbundnum leiksýningum. Afraksturinn mátti síðan sjá síðastliðið föstudagskvöld þegar frumsýndur var í Logalandi nýr söng- og gleðileikur sem nefnist Töðugjaldaballið Sendu mér SMS. Hér er á ferðinni splunkunýr söngleikur í fullri lengd eftir heimamenn.
Verkið er samið í kringum 20 ný dægurlög sem Hafsteinn Þórisson á Brennistöðum samdi við texta Bjartmars Hannessonar á Norðurreykjum. Bjartmar semur auk þess texta sem leikarar fara með á milli laga og tekst sérlega vel til með það og ætíð er stutt í húmorinn. Sögusviðið er töðugjaldadansleikur í ónefndu félagsheimili úti á landi þar sem margar litríkar persónur koma við sögu. Tónlist og söngur er því í miklu aðalhlutverki en tengt saman með spaugi og stuttum atriðum. Eðli málsins samkvæmt er mikið dansað á töðugjaldaballi og er hópur ungra dansara sem setur mikinn svip á sýninguna. Þar koma glöggt fram danshæfileikar ungu kynslóðarinnar í héraðinu eftir stífa þjálfun undanfarin ár.
Að þessu sinni fóru ungmennafélagar ekki út fyrir héraðið eftir aðstoð við uppfærsluna. Hafa beitt ráðdeild og sparað t.a.m. leikstjórnarlaun. Ég er hrifinn af því, það er svona 2009-legt eins og oft er sagt þessa dagana og skemmtilega ráðdeildarlegt. Þessi fölskvalausi ungmennafélagsandi í bland við áratuga reynsla heimamanna af leikstarfi gerir þessa sýningu skemmtilega. Höfundar stýrðu uppfærslunni að hluta sjálfir og mér er sagt að þeir félagar hafi að hluta samið verkið eftir að æfingar hófust. Hin eiginlega leikstjórn var síðan í höndum reynsluboltanna Steinunnar Garðarsdóttur á Grímsstöðum og Jóns Péturssonar í Björk en bæði hafa þau tekið virkan þátt í leikstarfi félagsins undanfarna áratugi og eru þannig hoknari af reynslu en margur fagmaðurinn. Þá koma leikarar, dansarar og söngvarar að uppfærslunni frá nærsveitunum í Hvítársíðu, Hálsasveit, Andakíl og Lundarreykjadal auk Reykdælinga sjálfra og skapa góða breidd í hópinn.
Leikmyndinni er skemmtilega fyrir komið. Fremst er inngangurinn í félagsheimilið, miðasala og aðaldyrnar þar sem hinn treggáfaði Ísleifur Johnsen steratröll að sunnan ræður ríkjum. Ísleifur er leikinn af Pétri í Geirshlíð en húsvörðurinn, burðarhlutverk leikritsins, er í höndum Jóns í Björk. Með þriðja aðalhlutverkið, hinn drykkfellda hestamann, fer síðan Guðmundur í Giljahlíð, þriðji bróðirinn frá Geirshlíð. Að öðrum ólöstuðum halda þeir bræður sýningunni uppi með skemmtilegum og frjálslegum leik. Allir eru þó að skila hlutverkum sínum vel og erfitt að gera upp á milli. Þó fannst mér kornungur Áslákur sýna skemmtilega takta í meðförum Daða Guðjónssonar og Loftur óeirðaseggur, sem Þorsteinn Þórarinsson leikur, er býsna líkur þeim gúmmítöffurum sem voru upp á sitt besta á þeim tíma sem undirritaður þekkti til sumarballana hér á árum áður. Innst á sviðinu stendur síðan danshljómsveitin allan tímann og stýrir lagahöfundurinn Hafsteinn á Brennistöðum henni. Á milli er sjálft dansgólfið þar sem dans er stiginn jafnt og þétt ýmist undir polka, vals eða skagfirskri sveiflu. Hópur ungra dansara er í því hlutverki að færa líf og fjör í sýninguna meðan lögin eru flutt og fannst mér það krydda sýninguna miklu lífi. Ármann á Kjalvararstöðum stígur á stokk í hlutverki sveiflukóngsins að norðan og er holningin lík fyrirmyndinni og væri raunar sláandi eins hefði Manni litað hár sitt.
Samstarf þeirra Hafsteins og Bjartmars í laga- og textagerð fyrir Töðugjaldaballið hefur borið góðan ávöxt. Mörg laganna eru góð og spái ég því að titillagið, Sendu mér SMS, gæti orðið smellur verði því komið á framfæri. Textar Bjartmars eru hnittnir eins og við mátti búast af söngvaskáldinu. Ef út á eitthvað hefði mátt setja á frumsýningu Töðugjaldaballsins þá var það að söngtextar hefðu sumir mátt skila sér betur í flutningi. Einkum voru það ungu söngvararnir sem hefðu mátt gefa betur í og vera ófeimnari við að láta í sér heyra. Hygg ég að þarna hafi verið á ferðinni hljóðblöndunarvandamál sem auðveldlega má leysa.
Söguþráðurinn þessa verks ber þess víða merki að allt er þetta samið eftir að bankakreppan skall á í haust. Það mun enda ekki hafa verið fyrr en undir lok nóvember sem þeir höfundar töluðu sig saman um að semja verkið. Í ljósi þess er í raun kraftaverk að nú fyrir lok mars sé búið að frumsýna verkið. Eins og áður var notalegt að koma í Logaland og sjá enn eitt leikverkið fært á fjalirnar. Ég ætla að fara aftur og reyna að grípa fleiri af smellnum söngtextum Bjartmars. Vil ég að hvetja héraðsbúa til að láta skemmtilega sýninguna ekki fram hjá sér fara. Til hamingju allir sem hlut eiga að máli.