Ég var nú fyrir síðustu helgi gestur á einþáttungahátíð Bandalags íslenskra leikfélaga á Húsabakka í Svarfaðardal og var á síðustu stundu beðin um að vera með umfjöllun um verkin ásamt leikhússtjóra þeirra Akureyinga, Magnúsi Geir Þórðarsyni. Það var afar skemmtilegt verk enda voru verkin að þessu sinni afar áhugaverð og vel unnin.
Það var reyndar tekið forskot á hátiðina á fimmtudagskvöldinu þegar krakkarnir úr leikhópnum Sögu sýndi gestum hátiðarinnar sýningu sína Hamslaus. Þetta er flinkur leikhópur og það var eftirtekarvert að þau voru ekki að fjalla um þessi týpísku unglingavandamál eins og flestir unglingaleikhópar heldur um vandamál sem snerta alla í samfélaginu. Þetta var vönduð sýning hjá Sögu og Laufeyju Brá leikstjóra og margar bráðskemmtilegar og snjallar lausnir. Það sem helst mátti setja útá var að sýningin var dálítið brokkgeng í tempói og smá óöryggi var í staðsetningum og texta en það má þó örugglega kenna að mestu leyti sýningaraðstöðunni á Húsabakka.

Leiklistarhátíðin sjálf hófst föstudaginn 21. maí. Fyrstu tvö verkin voru frá Hugleik í Reykjavík, “Dómur um dauðan hvern” og “Máltaka” eftir Þórunni Guðmundsdóttur, í leikstjórn Þorgeirs Tryggvasonar. Þessi verk eru kaflar úr verki Þórunnar sem heitir “Kleinur” og var sýnt hér sunnan heiða fyrr í vor. Það er einstakt með þessa kafla að þeir geta auðveldlega staðið einir sem einþáttungar en virka síðan mjög vel í heildarverkinu. Þórunn hefur sýnt það á síðustu árum að hún er vaxandi og spennandi leikskáld. Textinn er ísmeygilegur og írónískur og Þórunn teygir íslenskt mál og málfar út og suður.
Persónur Þórunnar eru undarlegri en andskotinn og Sævar Sigurgeirsson, Hulda Hákonardóttir og Hrefna Friðriksdóttir gera þeim afar góð skil í þessum tveimur þáttum. Sævar er náttúrulega snillingur. Leikstjórn er hnitmiðuð og nostrað er við ýmis skemmtileg smáatriði. Ef eitthvað ætti að setja út á þá var endir á fyrri þættinum heldur fyrirsjáanlegur og óþarfi að láta ræstitækni koma inn og öskra. Það er ofnotuð melódramatísk klisja sem mátti missa sín. En flottir þættir og ískrandi fyndnir.

Næsta verk var frá Leikfélagi Kópavogs og nefndist “Hinir gullnu bogar hugrekkisins”. Leikgerðin er eftir Hrund Ólafsdóttur sem upplýsti okkur að hún væri byggð á enskri myndasögu eftir óþekktan höfund. Hrund leikstýrði einnig.

Þessi þáttur var afar smellin lítil paródía um hetjuímyndir hinnar vestrænu hernaðarmaskínu settar inn í hamborgarastað MacDonalds. Leikhópnum og leikstjóranum tókst ágætlega með stílfærðu látbragði og umgjörð að vinna úr þessu efni þannig að úr varð bráðskemmtileg leiksýning. Þó held ég að með frekari vinnu í stílfærslu og hreyfingamynstri hefði sýningin orðið sterkari. Svo held ég að blackout um miðbik sýningarinnar hafi skemmt dálítið rythmann í verkinu og kalla eftir betri lausn í því. En annars fín vinna og dágóð skemmtun hjá Leikfélagi Kópavogs.
Afhverju láta fuglarnir svona 01
Næsta verk sem við sáum var Hugleiksverkið “Afhverju láta fuglarnir svona” eftir Ylfu Mist Helgadóttur. Það er aðeins eitt sem hægt er að segja um þennan þátt. Hann er snilld. Þessi harmræna littla saga um síðasta fund konu og sjúks eiginmanns hennar er svo falleg í einfaldleika sínum og einstaklega vel skrifuðum texta Ylfu að það eina væri nóg. En þeim Þórunni Guðmundsdóttur og Þorgeiri Tryggvasyni undir styrkri leikstjórn Rúnars Lund tókst að gæða þáttinn þvílíkum innra krafti og sorg að fáir eða engir áhorfendur voru ósnortnir. Eða allavega grenjaði ég. Þetta verk var hápunktur hátíðarinnar og eitt það besta sem ég hef séð í vetur. Takk fyrir mig.

Það var dálítill léttir að fá aftur að hlæja í bráðsmellnu verki Sigríðar Láru Sigurjónsdóttur, “Listin að lifa” í leikstjórn Þorgeirs Tryggvasonar. Þetta er ansi skondin hugmynd að þegar allt kemur til alls þá snýst lífið í raun um grunnþarfir mannskepnunnar, að kúka og pissa, éta og ríða. Flott að sjá þetta frá sitthvorum enda lífsins, bernskunni og ellinni. Það er fínn leikur hjá hópnum og Hrefna og Júlía vinna skemmtilega með krakkana og kellingarnar. Leikstjórnin var vel unnin og mjög frumlegar og ferskar útfærslur í búningum og leikmynd. Rólurnar voru brilli. Eins var skipting á milli tímaskeiða snilldarlega leyst með búningunum. Ef eitthvað ætti að finna að þá var það þessi dæmigerða femíniska klisja sem var að finna í verkinu um þess almennu mannvonsku og heimsku okkar karlmanna. En hún er nú landlæg hjá Siggu Láru (nú verð ég drepinn).

Næst var verkið “Biðstöðvartvíleikur” eftir Pinter, Huld Óskarsdóttur og Hörð Sigurðarson og í leikstjórn Harðar. Jæja nú hélt ég að ég gæti nú slátrað einhverri sýningunni eins og ég er vanur. Fyrstu tíu mínútur verksins vafraði Huld ein um autt sviðið og talaði við einhverjar ímyndaðar manneskjur. Hún gerði þetta vel en þrátt fyrir það tapaði maður þræðinum og maður hætti að skilja samskiptin á sviðinu. Geyspinn var að fara að teygja sig upp í hálsinn þegar þættinum lauk og maður ætlaði að fara að klappa. En þá byrjaði hann upp á ný en nú með öllum persónum og púsluspilinu var raðað fyrir mann. Það kom mjög á óvænt og það er svo ansi skemmtilegt þegar leikhúsinu tekst að ná manni í bólinu. Það er alltaf gaman að sjá Huld Óskars brillera (hún gerir það nú yfirleitt stelpuskömminn) og ég er ekki hlutdrægur. Einar var líka einstaklega skemmtilega Pinterslegur og minnti mann á týpískan Lundúnamelludólg. Leikstjornin var síðan öguð og nákvæm eins og Herði er vant. En klámið hefði mátt missa sín.

Síðasta verkið á hátiðinni var frá Freyvangsleikhúsinu og hét Í vorsólinni eftir Helga Þórsson sem leikstýrði líka. Þetta var ágæt verk að sumu leyti með mörgum skemmtilegum köflum en vantaði sárlega uppbyggingu og framvindu og eins voru persónur verksins ekki nægjanlega vel skilgreindar og það varð einnig til þess að góðir leikarar eins og Ingólfur Þórsson og Dýrleif Jónsdóttir áttu erfitt með að fóta sig í hlutverkum sínum. Mun agaðri leikstjórn og betri lausn á kringumstæðum hefði án efa aukið á vægi verksins og kannski hefði verið betra ef persónurnar hefðu verið algerlega eðlilegar. Þá hefði textinn sem var að gera grín að innantómu orðagjálfri stjórnamálamanna orðið mun fyndnari. En það er gaman að sjá nýja höfunda stíga á stokk með eitthvað sem skiptir máli og með meiri reynslu og æfingu þá eigum við örugglega eftir að sjá meira af Helga Þórssyni.

Þrátt fyrir hvað fá félög tóku þátt í hátíðinni að þessu sinni það var hún mjög fjölbreytt og gaman að sjá svona marga fleti á leiklistinni. Þessi hátíð í ár var líka með afar vönduðum sýningum og er í mínum huga klárlega þriggja stjörnu virði.

Lárus Vilhjálmsson.