Leikfélag Sauðárkróks heldur uppá 120 ára afmæli.

Árið 1888 eru íbúar á Króknum farnir að losa hundraðið og þá stofna þeir Leikfélag Sauðárkróks, sem stundum var kallað Sauðárskrókur Theater eða Comedíufélagið.

Þetta er níu árum fyrr en þeir stofna leikfélag í Reykjavík.

Til að minnast þeirra tímamóta að rúm 120 ár eru liðin frá því að Leikfélag Sauðárkróks var stofnað, setur félagið nú á svið sýningu sem ber nafnið Frá okkar fyrstu kynnum – 120 ár í sögu leikfélags.

 

Jón Ormar Ormsson er höfundur og leikstjóri verksins, en hann setur afmælissýninguna upp með dyggri aðstoð Guðbrands Ægis Ásbjörnssonar. Frá okkar fyrstu kynnum samanstendur af völdum köflum úr 120 ára sögu leikfélagsins; bútar úr eldri stykkjum fyrir hlé og yngri eftir hlé. Á svið stíga m.a. leikarar sem léku áratugum saman með LS. Hljómsveit og kórsöngur setur mark sitt á verkið og tengir saman atriði. Frumsýning verður fyrsta sunnudag í Sæluviku, þann 26. apríl n.k.

Til viðbótar afmælissýningunni vinnur Unnar Ingvarsson héraðsskjalavörður að afmælisriti fyrir Leikfélag Sauðárkróks, þar sem stiklað verður á stóru í viðburðaríkri sögu félagsins.

Á meðfylgjandi mynd eru Jón Ormar og Sigurveig Dögg, formaður leikfélagsins.