Síðast liðið laugardagskvöld var Leikfélag Rangæinga með hátíðarsýningu á leikritinu Orustan á Laugalandi í tilefni af 30 ára afmæli félagsins. Um 100 gestir voru á sýningunni sem gerðu afskaplega góðan róm að henni. Meðal gesta var forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson. Á sýninguna var boðið hreppsnefndum Rangárþings ytra, eystra og Ásahrepps ásamt þingmönnum kjördæmisins. Einnig var boðið til sýningarinnar öllum stofnfélögum leikfélagsins og einnig leikurum sem léku í uppfærslu Leikfélags Austur-Eyfellinga á Orustunni á Hálogalandi árið 1970.

 

lrkaka.jpgGóð mæting var þar sem hæst bar að forseti Íslands mætti og sýndi hann félaginu þar mikinn heiður sem það kann honum bestu þakkir fyrir. Margir sveitastjórnarmenn mættu ásamt fjölda stofnfélaga og að ógleymdu nær allir úr uppfærslunni úr verkinu undir fjöllunum og höfðu þau sérstaklega gaman af sýningunni og lýstu yfir miklu þakklæti til leikfélagsins fyrir það að vera boðið.

Eftir að sýningu lauk bauð leikfélagið til smá veislu þar sem gestum var boðið að þiggja afmælistertu sem Kökuval á Hellu bakaði í tilefni dagsins. Einnig færði Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitastjóri Rangárþings eystra, leikfélaginu blómaskreytingu. Að því tilefni hélt hún smá tölu þar sem hún meðal annars benti á mikilvægi þess að lítil sveitafélög eins og okkar hefðu innan sinna raða virkt leikfélag með metnað eins og Leikfélag Rangæinga vissulega hefur. Einnig hélt tölu Árni Kristjánsson leikari úr verkinu undan fjöllunum, þar sem hann meðal annars minnti á þá vinnu sem er í gangi við að endurnýja félagsheimilið Dagsbrún í Skarðshlíð þar sem Leikfélag austur Eyfellinga hafði aðsetur og sýndi.