Leikfélag Hörgdæla frumsýnir gamanleikinn Stundum og stundum ekki eftir Arnold og Bach í leikstjórn Sögu G. Jónsdóttur fimmtudaginn 5. mars kl. 20:30 á Melum í Hörgárdal.Stundum og stundum ekki var fyrst frumsýnt á Íslandi í Iðnó árið 1940. Á þeim tíma þótti verkið fara langt út yfir velsæmismörk sökum fáklæddra leikara en ekki þótti við hæfi að sjá í bert hold á sviði. Verkið var meira að segja bannað um tíma. Rúmum þrjátíu árum síðar, árið 1972, var stykkið sýnt í eilítið breyttri útgáfu hjá LA við góðan orðstír. Í þessari uppsetningu hjá Leikfélagi Hörgdæla hefur textinn verið styttur eilítið og lagfærður þar sem orðalag var stundum ansi gamaldags. Einnig hefur verið bætt inn söng- og dansatriðum sem ekki voru í upphaflega handritinu.

Hörgdal starfar í útbreiðslumálaráðuneytinu og hefur gert árum saman. Hann er iðinn og samviskusamur og lætur sig dreyma um frama innan stjórnkerfisins en einhverra hluta vegna er ítrekað framhjá honum gengið við úthlutun æðri stöðugilda. Árum saman lætur Hörgdal kallinn svínaríið og óréttlætið yfir sig ganga en í fyllingu tímans er honum nóg boðið, hann grípur óvænt tækifæri til að láta að sér kveða og sýnir á sér nýja hlið.

Þrátt fyrir aldur verksins á það einkar vel við í dag, einkum í ljósi atburða síðustu vikna og mánaða í landinu okkar.
Stundum og stundum ekki er farsi í sinni bestu mynd. Misskilningur á misskilning ofan, skemmtilegir karakterar og hröð atburðarrás þar sem eitt leiðir af öðru þar til allt er orðið ein hringavitleysa. Svo er það spurningin, hvernig verður leyst úr allri flækjunni?

Þann 26. mars n.k. verður sérstök styrktarsýning fyrir Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis til minningar um Hólmfríði Helgadóttur, okkar kæra félaga sem lést langt um aldur fram í desember síðastliðnum.

Sýnt verður á föstudags- og laugardagskvöldum í mars og apríl á Melum í Hörgárdal, Eyjafirði.
Miðapantanir eru í síma 862 6821 og 695 7185 milli kl. 17:00 – 19:00 á virkum dögum og milli kl. 13:00 – 17:00 um helgar.

{mos_fb_discuss:2}