Dalvíkurskóli og Leikfélag Dalvíkur eru nú enn og aftur í samstarfi varðandi uppsetningu á leikverki fyrir unglinga. Er þetta í fjórða sinn sem samstarf af þessu tagi er tekið upp. Í skólanum er leiklist kennd sem valgrein í 9. og 10. bekk og 16 nemendur sækja þessa faggrein í vetur. Leiklistarhópurinn æfir nú frumsamið leikverk í Ungó er nefnist Fólk á förnum vegi… Leiðbeinandi leikhópsins og leikstjóri uppfærslunnar er Arnar Símonarson. Stjórn LD mun sérstaklega koma að skipulagningu og aðstoða við uppsetningu með ýmsum hætti.
Að sögn Arnars er leiklistarhópurinn fjörugur og skemmtilegur, krakkarnir áhugasamir og taka vinnu sína við uppsetningu alvarlega. Æft er síðdegis og á kvöldin, alla virka daga og reynt er til hins ítrasta að koma til móts við leikara með tilliti til annarar frístundaiðju. Arnar segir að verkið sem slíkt sé fjörugt með fullt af skemmtilegum augnablikum, en það er unnið með svokallaðri spunatækni og út frá skapandi hugmyndavinnu.
Kristján Guðmundsson og Aron Óskarsson sjá um ljós- og hljóðavinnu og Guðný Ólafsdóttir hannar leikskrá. Umsjón með miðasölu er í höndum Sólveigar Rögnvaldsdóttur. Fyrirhugað er að frumsýna þetta verk laugardaginn 14. febrúar næstkomandi og áætlað er að hafa 7 sýningar á verkinu.
Miðaverð er kr. 500 fyrir börn og unglinga á grunnskólaaldri og 700 kr. fyrir fullorðna.
Miðapantanir í síma LD 868 9706 (Sólveig)