Flest er sjötugum fært, segir máltækið ekki, það er hins vegar greinilega staðreynd.
Ég fór á sýningu hjá Snúði og Snældu, leikfélagi eldri borgara síðasta föstudag. Þau eru með til sýningar verkið „Rapp og rennilásar“ eftir Gunnhildi Hrólfsdóttur í leikstjórn Bjarna Ingvarssonar. Verkið gerist þar sem fermingarsystkini ætla að hittast í sumarbústað og skipuleggja 55 ára fermingarafmæli, en sá fundur fer ekki alveg eftir áætlun.
Skemmst er frá því að segja að sýningin var lipurlega leikin og unnin að öllu leyti. Leikmynd, lýsing og stíll almennt var raunsæislegur og átti vel við efnið. Sviðið „sumarbústaðalegt“ og búningar sannfærandi. Leikarar stóðu sig allir með prýði, að öðrum ólöstuðum stóð þó Aðalheiður Sigurjónsdóttir sig einstaklega vel í hlutverki vesturheimfrúarinnar, Láru.
Það sem mér þótti helst halla á var verkið sjálft. Þó svo að það gengi upp, snyrtilega gengið frá öllum endum og það væri hnyttið á köflum, var ekki laust við að sumar lausnirnar væru full brattar og boðskapur oft og augljós til að vera skemmtilegur. Það vantaði meiri uppbyggingu í verkið og dýpt í persónur, þó svo að góð frammistaða leikara hafi bjargað miklu.
Snúður og Snælda er merkilegt leikfélag sem hefur sýnt stórkostlega elju og atorkusemi í gegnum árin. Þeim eru engin takmörk sett og ég er alltaf að bíða eftir því að þau setji upp leikrit um unglinga.
Takk fyrir skemmtunina,
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir