Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir en uppfærslur hennar á undanförnum árum hafa þótt með því ferskasta í íslensku leikhúsi,
sýningar á borð við Klaufa og kóngsdætur, Eldhús eftir máli, Stórfengleg, Grimms og margar fleiri.
Skugga-Sveinn er jafnframt vígslusýning Leikhússins sem er nýtt leikhús í Kópavogi.
Skugga-Sveinn eða Útilegumennirnir eins og það hét í upphafi er eitt þekktasta og lífseigasta verk íslenskrar leiklistarsögu. Ekkert leikrit hefur síðan notið viðlíka vinsælda hér á landi né haft önnur eins áhrif.Menntaskólaneminn Matthías Jochumsson mun hafa sullað saman sögunni um Skugga-Svein í jólaleyfi sínu árið 1861 og verkið var frumflutt á Gildaskálanum (þar sem hús Hjálpræðishersins stendur nú í Aðalstræti) í febrúar 1862. Hlaut það samstundis góðar viðtökur og borgaði uppihald höfundarins það sem eftir lifði vetrar að miklu leyti. Meiru varðaði þó að nú var kominn fram réttnefndur þjóðleikur leikverk með þræði um allt miðtaugakerfi þjóðarinnar.
Níu leikarar taka þátt í sýningunni og bregða sumir sér í ótal gervi. Aðalhlutverkin eru í höndum Baldurs Ragnarssonar og Grímu Kristjánsdóttur en aðrir leikarar eru Bjarni Guðmarsson, Arnar Ingvarsson, Gísli Björn Heimisson, Sveinn Ásbjörnsson, Guðrún Sóley Sigurðardóttir, Bjarni Baldvinsson og Hörður Sigurðarson. Búningar eru í höndum Gígju Ísisar og lýsingu hannar Skúli Rúnar Hilmarsson.
Skugga-Sveinn er eins og áður sagði opnunarsýning Leikhússins í Kópavog. Leikfélag Kópavogs fékk húsið afhent á síðasta ári og síðan hafa staðið yfir framkvæmdir við að gera húsið að hentugu leikhúsi. Hér er um nokkur tímamót að ræða því í fyrsta sinn í sögu bæjarins er orðið til hús sem fyrst og fremst er ætlað til leiksýninga og leiklistariðkunar almennt. Í ljósi þessa hlutverks hússins vildu meðlimir Leikfélags Kópavogs að húsið hlyti nafn við hæfi og hefur það því einfaldlega hlotið heitið Leikhúsið.
Auk Skugga-Sveins verður mikið um að vera í Leikhúsinu á komandi leikári og má þar m.a. nefna að stefnt er að uppsetningu á barnaleikriti fyrir áramót og eftir áramót á að setja upp leiksýningu með unglingadeild félagsins og gamanleikrit með vorinu. Þá verður námskeiðahald af ýmsu tagi á vegum Leikfélagsins og einnig er von á gestaleiksýningum.
Leikfélag Kópavogs er opið félag áhugamanna um leiklist. Nánari upplýsingar um félagið má fá á vef félagsins www.kopleik.is og á Facebook-síðu sýningarinnar.