ImageVÍS og Vísa Ísland hafa gengið til samstarfs við Borgarleikhúsið um uppsetningu á farsanum Viltu finna milljón og var samstarfssamningur undirritaður á Nýja sviði Borgarleikhússins að viðstöddum listamönnum sýningarinnar, þann 11.maí síðastliðinn.

Guðjón Pedersen leikhússtjóri sagði við þetta tilefni að ánægjulegt væri að fá þessi tvö stöndugu fyrirtæki sem samstarfsaðila að þessari sýningu. “ Hláturinn lengir lífið og má því segja að fyrirtækin standi saman að heilsuátaki” sagði Guðjón jafnframt.

Verkið fjallar um Harald sem hefur unnið hjá skattinum á lúsarlaunum svo lengi sem elstu menn muna, einn daginn finnur hann fulla tösku af peningum, þetta er vanur maður sem sér að að féð er illa fengið en hann ákveður að þetta sé hans tækifæri til betra lífs og fer beint í að panta flug aðra leiðina út í heim. En málið er vitaskuld ekki svo einfalt og heilmiklar flækjur, lygar og taugaveiklun fylgja í kjölfarið.
 
Leikarar eru: Eggert Þorleifsson, Helga Braga Jónsdóttir, Marta Nordal, Þórhallur Sigurðsson (Laddi), Bergur Þór Ingólfsson, Gunnar Hansson, Guðmundur Ólafsson og Theodór Júlíusson. Þýðing og staðfærsla: Gísli Rúnar Jónasson. Leikstóri er Þór Tulinius.
 
Verkið hefur fengið frábær móttökur og heyra má hlátrasköllin á sýningum langt fram í forsal. Einn gagnrýnandinn orðaði það svo að þakið hafi næstum rifnað af húsinu vegna fagnaðarláta á frumsýningunni.