Í tilefni af 70 ára afmæli tónskáldsins Atla Heimis Sveinssonar sunnudaginn 21. september nk. verður sérstök hátíðardagskrá á Stóra sviði Þjóðleikhússins helguð leikhústónlist hans. Leikarar Þjóðleikhússins stíga á stokk ásamt fjölda tónlistarmanna og dansaraefna og flytja brot úr verkunum Ég er gull og gersemi, Landi míns föður, Ofvitanum, Mýrarljósi, Sjálfstæðu fólki og Dimmalimm.

Dagskrá þessi markar upphaf tónleikaraðar sem skipulögð er af nokkrum vinum tónskáldsins gangast fyrir en í undirbúningsnefnd þeirra eru Bryndís Schram, Hallveig Thorlacius, Halldór Blöndal, Jón Baldvin Hannibalsson, Ragnar Arnalds, Sveinn R. Eyjólfsson og Styrmir Gunnarsson. Minningarsjóður Margrétar Björgólfsdóttur er bakhjarl tónlistarhátíðarinnar. Auk tónleikanna í Þjóðleikhúsinu verða hátíðartónleikar í Salnum á sunnudagskvöld, ný fiðlusónata Atla Heimis verður frumflutt á Kjarvalsstöðum á mánudagskvöld, dagskrá með einsöngslögum og einleiksverkum hans verður flutt í Listasafni Íslands á þriðjudag og í nóvember verða sérstakir fjölskyldutónleikar í Ráðhúsi Reykjavíkur og víðar. Sinfóníuhljómsveit Íslands mun síðan ljúka tónleikaröðinni með afmælistónleikum helguðum verkum Atla Heimis 19. mars á næsta ári.

Umsjón með dagskránni í Þjóðleikhúsinu á sunnudaginn hefur Edda Heiðrún Backman en um tónlist Atla Heimis segir hún m.a.: „Leikhústónlist Atla Heimis samanstendur af litlum perlum, „eyrna-ormum“ sem skreyta kveðskap sem á sér djúpar rætur í þjóðarsálinni. Þær eru orðnar margar og nær væri að tala um perlufesti. Flest eiga lögin það sameiginlegt að hafa öðlast sjálfstætt líf, flögrað víða, oft í hæstu hæðir, skotið aftur rótum meðal almennings, kóra, o.s.frv. og enginn veit kannski að uppruni þeirra er – leiklistin. Leikhúsið er listform sem býður öðrum listgreinum uppá skörina til sín og útkoman er oft býsna mögnuð. Oftar en ekki hefur leikarinn náð bestum árangri með hjálp lagstúfs eða áhrifahljóða. Góð leiksýning er samvinna, sem dýpkar skilning okkar og hjálpar okkur að sættast við hver við vorum, erum og hvert ferðinni er heitið. Og þegar tjalda á öllu til þá er kallað á tónskáldið…“

Meðal flytjenda verða Baldur Trausti Hreinsson, Egill Ólafsson, Esther Talía Casey, Herdís Þorvaldsdóttir, Ívar Helgason, Ragnheiður Steindórsdóttir, Selma Björnsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Þórunn Lárusdóttir. Börn úr Graduale futuri og kór Kórskóla Langholtskirkju syngja undir stjórn Bryndísar Baldvinsdóttur og Hörpu Harðardóttur og Þorgerður Ingólfsdóttir stýrir Harmrahlíðarkórnum. Hljómsveit skipa þau Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari, Elísabet Waage hörpuleikari, Guðni Franzson klarínettuleikari, Hjörleifur Valsson fiðluleikari, Vadim Fedrov harmonikkuleikari og Þórður Högnason kontrabassaleikari, auk Jóhanns G. Jóhannssonar píanóleikara sem jafnframt sér um tónlistarstjórn. Aukinheldur dansa nemendur úr Listdansskóla Íslands en danshöfundar eru Lára Stefánsdóttir og Margrét J. Gísladóttir. Jón Axel Björnsson gerir leikmynd og lýsingu annast Lárus Björnsson

Hátíðardagskráin fer fram á Stóra sviðinu sunnudaginn 21/9 og hefst kl. 16. Miðaverð er 2000 en nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðunni www. leikhusid.is.

{mos_fb_discuss:3}