Hver skyldu vera nýársheit áhugaleikarans 2003?
- Hætta næstum alveg að ofleika.
- Ekki hlaupa strax út eftir hverja einustu æfingu til að losna við að ganga frá.
- Hætta að káfa á sminkunni meðan ég er í förðun.
- Læra textann minn fyrir frumsýningu.
- Ekki reyna við leikstjórann í næsta frumsýningarteiti.
- Komast að því hvað þetta skoska leikrit er sem menn eru alltaf að tala um.
- Verða fyrir valinu í Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins jafnvel þó það kosti að setja upp 40 manna frumsaminn söngleik um gildi hangikjöts í list- og þjóðmenningu 20. aldar.
- Láta það vera að brjóta eitthvað næst þegar talað er um einskæra leikgleði í leikdómi um mig.
- Sannfæra formanninn um ágæti leikritsins sem ég hef verið með í smíðum í sjö ár og fjallar um sigur minn… eh, ég meina söguhetjunnar á mótlæti og fordómum gagnvart hinum misskilda alþýðulistamanni sem hefði án vafa unnið glæsta sigra á sviðum stærstu leikhúsa landsins ef ekki hefði verið fyrir skefjalausa illkvitni og frámunalegt dómgreindarleysi dómnefnda í inntökuprófunum í Leiklistarskólann undanfarinn áratug.
- Gera athugasemdalaust eins og leikstjórinn biður mig um að gera í staðinn fyrir að útskýra fyrir honum í smáatriðum af hverju ég gerði eitthvað allt annað.
Lesendum er velkomið að bæta sínum áramótaheitum við á spjallinu.