Það verður mikið um dýrðir í Borgarleikhúsinu á komandi leikári en fyrsta leikár nýs leikhússtjóra, Magnúsar Geirs Þórðarsonar, var kynnt starfsfólki í gær. Óhætt er að segja að fjölbreytnin sé mikil en verkin eru ólík innbyrðis, ný íslensk leikrit eru áberandi í bland við erlend gæðaverk, ný og eldri. Mörg verk höfða til allrar fjölskyldunnar, hómor og tónlist fá sinn sess en einnig eru áræðnar og krefjandi sýningar á boðstólum.

Á Stóra sviði verður m.a. boðið upp á Fólkið í blokkinni, nýjan söngleik Ólafs Hauks Símonarsonar og Söngvaseið. Á meðal verkefna á Nýja sviði sem er vettvangur ögrandi verkefna er Rústað (Blasted) eftir Söru Kane en Borgarleikhúsið ríður á vaðið og er fyrst íslenskra leikhúsa til að flytja verk þessa merka leikskálds sem olli straumhvörfum. Útlendingar er nýtt verk sem tekur á brýnu máli á Íslandi í dag og sígilt leikrit Durrenmatts, Milljarðarmærin snýr aftur, kallast á einstakan hátt á við íslenskan samtíma. Meðal áherslubreytinga í starfsemi leikhússins er snarpari sýningartími auk þess sem nýtt áskriftarkortafyrirkomulag verður tekið upp. Ungu fólki býðst nú að verða kortagestir á lægra verði en áður hefur þekkst.

Fimm stórsýningar verða í boði á Stóra sviðinu í vetur. Fyrst fer á svið, Fló á skinni, gamanleikurinn sem sló heldur betur í gegn norðan heiða á síðasta leikári. Fólkið í blokkinni, nýr söngleikur fyrir alla fjölskylduna eftir Ólaf Hauk Símonarson verður frumsýndur í október í leikstjórn Unnar Aspar Stefánsdóttur en tónlistarstjóri er Jón Ólafsson. Milljarðamærin snýr aftur sígilt leikrit Dürrenmatts, í leikstjórn Kjartans Ragnarssonar er jólafrumsýningin en leikmyndahönnuður þar er Gretar Reynisson og Filippía I. Elísdóttir hannar búninga. Söngleikurinn ástsæli, Söngvaseiður, verður frumsýndur í mars í stórsýningu sem Þórhallur Sigurðsson mun stýra en Snorri Freyr Hilmarsson hannar leikmynd og Stefanía Adólfsdóttir hannar búninga. Þá mun barnasýningin vinsæla, Gosi, verða sýnd á ný í september og október.

Leiksýningar á Nýja sviðinu verða öllu myrkari og gjarnan meira ögrandi en á Stóra sviðinu. Þar verður spurt ágengra spurninga. Fýsn, nýtt íslenskt sakamálaverk sem vann leikritasamkeppni LR í fyrra eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachman er frumsýnt í september í leikstjórn Mörtu Nordal. Vestrið eina (Lonesome West) eftir Martin McDonagh verður frumsýnt 7. nóvember í leikstjórn Jóns Páls Eyjólfssonar. Leikritið er eitt verka í þríleiknum magnaða um Línakursfólkið, en Fegurðardrottning frá Línakri var eitt hinna fyrri. Rústað (Blasted) eftir Söru Kane verður frumsýnt í lok janúar en leikritið olli straumhvörfum þegar það var frumsýnt í Bretlandi. Leikstjóri þess er Kristín Eysteinsdóttir en Börkur Jónsson hannar leikmynd og búninga. Í kjölfar frumsýningar á Rústað verða öll verk Söru Kane flutt í sviðsettum leiklestrum og því verður febrúarmánuður helgaður Söru Kane í Borgarleikhúsinu. Ökutímar verður á fjölum Borgarleikhússins eftir áramót en þar er á ferðinni mögnuð sýning sem hreyfði við áhorfendum á Akureyri á síðasta leikári. Tónlist er eftir Lay Low og leikstjórn í höndum Maríu Reyndal . Útlendingar er nýtt Íslenskt verk sem unnið er beint úr íslenskum samtíma og tekur á stöðu útlendinga á Íslandi í dag. Höfundar og flytjendur eru Jón Páll Eyjólfsson, Jón Atli Jónasson og Hallur Ingólfsson.

Á Litla sviðinu verður horfið aftur til einfaldleikans, leikarinn og umfjöllunarefnið verða í öndvegi – ytri umgjörð einföldog skýr, innihaldið hreint og tært. Hringleikhúsformið verður endurvakið og áhorfendur umlykja leikarann. Boðið verður upp á þrjá áhrifaríka einleiki eftir áramótin, en þeir fjalla allir á einhvern hátt um lífið, dauðann og sannleikann. Fyrst í röðinni er Ég heiti Rachel Corrie þar sem Þóra Karítas Árnadóttir segir sögu hugsjónakonunnar sem lést í Palestínu. Leikritið hefur farið sem eldur í sinu um leikhús í Evrópu síðasta árið. Leikstjóri er Valdís Arnardóttir og útlit hannar Filippía I. Elísdóttir. Sannleikurinn í sex til sjö þáttum er nýtt verk sem Pétur Jóhann Sigfússon semur í samstarfi við Sigurjón Kjartansson. Þar fer Pétur um víðan völl í leit sinni að sannleikanum undir stjórn Stefáns Jónssonar. Óskar og bleikklædda konan er undurfallegt verk eftir Eric-Emmanuel Schmidt en þar er á ferðinni leikrit sem lætur engan ósnortinn í flutningin Margrétar Helgu Jóhannsdóttur og leikstjórn Jóns Páls. Snorri Freyr Hilmarsson hannar leikmynd og umgjörð allrar einleikjaraðarinnar. Dauðasyndirnar, sem gekk fyrir fullu húsi í vor verður aftur á fjölum Litla sviðsins í nóvember, og svo munu gamlir vinir vakna til lífsins með vorinu, en þá bjóða Sigurður Sigurjónsson, Karl Ágúst Úlfsson, og Örn Árnason upp á magnaða spennu með Harry og Heimi sem gerðu það gott á öldum ljósvakans fyrir tveimur áratugum.

Nýtt fólk
Með nýjum leikhússtjóra gengur fjöldi nýs starfsfólks til liðs við Borgarleikhúsið. Hafliði Arngrímsson og Frank Hall eru listrænir ráðunautar, fastráðnir leikstjórar eru Jón Páll Eyjólfsson og Kristín Eysteinsdóttir, þeir Björn Bergsteinn Guðmundsson og Þórður Orri Pétursson hafa tekið við Ljósadeild og Snorri Freyr Hilmarsson er fastráðinn leikmyndahönnuður. Nýir leikarar bætast í fastan leikhóp hússins, þau Guðjón Davíð Karlsson, Jóhann Sigurðarson , Björn Thors, Þröstur Leó Gunnarsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson og Hallgrímur Ólafsson.

Nýtt fyrirkomulag – nýjar áskriftarleiðir
Á komandi leikárum verður kynnt nýtt fyrirkomulag í Borgarleikhúsinu, sýningartímabil verður stytt en sýningarnar verða sýndar þéttar. Leikhúsáhugafólk er því hvatt til þess að fylgjast vel og grípa gæsina strax svo það missi ekki af sýningum. Boðið verður upp á spennandi áskriftarfyrirkomulag, fjórar valsýningar af allri dagskrá vetrarins á einungis 8900 krónur. Auk þess mun Borgarleikhúsið í samstarfi við SPRON, gera einstklega vel við ungt fólk og námsmenn og bjóða þeim fjórar valsýningar á 4550 kr.

ID
Íslenski dansflokkurinn mun brátt kynna glæsilega dagskrá sína fyrir starfsárið en alls verða fjórar sýningar á dagskrá og er möguleiki að velja þær allar með í áskriftarkort Borgarleikhússins.
Góðir gestir
Borgarleikhúsið er auk þess stolt af því að hýsa starfsemi Nemendaleikhússins, en fram að áramótum munu þau hafa Litla sviðið til afnota.

Private Dancer er gestasýning frá Panic Productions sem verður á dagskrá hússins í október og nóvember.

{mos_fb_discuss:3}