Aðalfundur Bandalags íslenkra leikfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga
í Árgarði í Skagafirði 3.-4. maí 2008

1.      Fundarsetning. Kosning 2ja fundarstjóra og 2ja fundarritara, sem taka þegar til starfa. Lögmæti fundarins kannað.
Þorgeir Tryggvason formaður Bandalagsins stakk uppá Maríu Grétu Ólafsdóttur, Lf. Sauðárkróks, og Guðrún Höllu Jónsdóttur, Lf. Selfoss, sem fundarstýrum og Ármanni Guðmundssyni starfmanni skrifstofu og Guðfinnu Gunnarsdóttur Lf. Selfoss sem fundarriturum. Fundurinn samþykkti.

2.      Kjörnefnd afgreiðir kjörbréf og afhendir atkvæðaspjöld, skýrir stöðu mála     varðandi stjórnarkjör og auglýsir eftir tillögum.
Kjörnefnd tekur til starfa. Hana skipuðu á fundinum, Regína Sigurðardóttir Lf. Húsavíkur, Ingólfur Þórsson Freyvangsleikhúsinu og Margrét Tryggvadóttir Lf. Rangæinga.

3.    Menningarstefna Bandalagsins lesin og rædd.

Guðfinna Gunnarsdóttir les menningarstefnu Bandalagsins. Engar umræður.

4.      Inntaka nýrra félaga, félög tekin af félagaskrá.
Engin félög hafa sótt um inngöngu og ekkert félag skuldar fleiri en eitt árgjald.

5.      Fundargerð síðasta aðalfundar afgreidd.
Fundargerð síðasta aðalfundar samþykkt athugasemdalaust.

6.      Skýrsla  stjórnar.
Þorgeir Tryggvason flytur skýrslu stjórnar:

Skýrsla stjórnar Bandalags Íslenskra leikfélaga starfsárið 2007-2008

I     Stjórn, starfsfólk og stjórnarfundir

Stjórn Bandalagsins var þannig skipuð á starfsárinu:

Þorgeir Tryggvason, Hugleik í Reykjavík, formaður
Lárus Vilhjálmsson, Leikfélagi Hafnarfjarðar, varaformaður
Þórvör Embla Guðmundsdóttir, leikdeild Umf Reykdæla, ritari
Ingólfur Þórsson, Freyvangsleikhúsinu í Eyjafirði, meðstjórnandi
Hrund Ólafsdóttir, Leikfélaginu Sýnum, meðstjórnandi

Í varastjórn sátu þau Margrét Tryggvadóttir Lf. Rangæinga, Ármann Guðmundsson Hugleik, Ólöf Þórðardóttir Lf. Mosfellssveitar, Guðfinna Gunnarsdóttir Lf. Selfoss og Hjalti Stefán Kristjánsson Hugleik.

Fimm stjórnarfundir voru haldnir á árinu, þrír í höfuðstöðvum Bandalagsins í Reykjavík en tveir í tengslum við aðalfundina 2007 og 2008. Stjórnarstörf gengu almennt vel fyrir sig. Fundargerðir eru að aðgengilegar á vefnum, og birtast einnig í ársritinu.

Breytingar urðu á starfsmannamálum Bandalagsins í ágúst þegar ritari þjónustumiðstöðvar, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, lét af störfum. Í stað hennar var ráðinn gamalreyndur skrifstofumaður, Ármann Guðmundsson. Sigríði eru hér með þökkuð hennar góðu verk fyrir Bandalagið á skrifstofusviðinu, en næsta víst má telja að aðkomu hennar að málefnum Bandalagsins sé hvergi nærri lokið.

II     Starfsemi leikfélaganna

Aðildarfélög Bandalagsins eru nú 62 talsins. Eftir því sem næst verður komist hafa 34 þeirra verið starfandi á yfirstandandi leikári, en að vanda verða nákvæmar tölur um fjölda starfandi félaga og verkefna þeirra ekki fyrirliggjandi fyrr en styrkumsóknir berast.

Á síðasta leikári voru styrkhæf verkefni 120 (92 leikrit og leikþættir, 28 námskeið talsins) og fullur styrkur reyndist vera 353.000 kr.

Úthlutun styrkja í samræmi við úthlutunarreglur Bandalagsins er eitt ábyrgðar- og fyrirferðarmesta verkefni stjórnar. Úthlutunarreglurnar hafa ekki verið ræddar á aðalfundum um nokkurt skeið en nú þykir stjórn ástæða til að inna fulltrúa félaganna eftir áliti á því hvort þær þjóna tilgangi sínum eins og best verður á kosið.

III     Starfsáætlun

Að vanda samþykkti aðalfundur 2007 starfsáætlun sem útlistar verkefni stjórnar á starfsárinu. Að þessu sinni var hún reyndar óvenjuviðamikil, með ótal ábendingum og viðaukum sem stjórn hefur reynt eftir fremsta megni að sinna.

Ég mun nú fara yfir hvern lið fyrir sig og tíunda hvað gert hefur verið í viðkomandi málaflokki.

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar í samræmi við lög BÍL

Verkefni þjónustumiðstöðvar eru margvísleg eins og allir vita, og felast í þjónustu við leikfélögin á ýmsum sviðum, sölu á leikhústengdum varningi til félaganna og annarra, samskipti við stjórnvöld og önnur leiklistarsambönd heima og erlendis. Einnig fer ekki hjá því að dagleg umsýsla með þeim sérverkefnum sem á döfinni eru lendi á starfsmönnunum og óhætt að segja að þar sé hverri nýrri byrði tekið með bros á vör.

Framkvæmdastjóri mun síðar á fundinum leggja fram ársreikning sem  mun varpa skýrara ljósi á reksturinn í beinhörðum tölum.

2. Rekstur fasteigna skv. viðhaldsáætlun

Legið hefur fyrir í nokkurn tíma vilji til að selja húsnæðið að Laugavegi 96 og kaupa hentugara og aðgengilegra húsnæði á ódýrari stað. Fyrir lá að eigendur efstu hæðarinnar hefðu hug á að kaupa húsnæðið. Skriður var settur á málið nú á vordögum og verðmat gert, sem hljóðaði upp á 30,3 milljónir. Skömmu síðar barst tilboð frá hinum áhugasömu íbúum þriðju hæðarinnar upp á 25,3 milljónir. Eftir tilboð og gagntilboð standa málin núna þannig að fyrir væntanlegum kaupendum liggur tilboð um að þau greiði okkur 27,5 milljónir fyrir húsnæðið. Tilboðið gildir til 5. maí, þannig að núna á mánudaginn skýrist hvort að þessu verður gengið.

Hugmyndin er að selja núna og koma peningunum í örugga ávöxtun og finna hentugt leiguhúsnæði meðan við leitum að hinu eina rétta. Renturnar munu standa undir  húsaleigunni. Ráðgjafar stjórnar í fasteignaheiminum telja þetta vera skynsamlegasta kostinn í stöðunni og vinnum við samkvæmt því.

Það er semsagt allt útlit fyrir að síðsumars axli Bandalagið sín skinn og komi sér fyrir á nýjum stað og í framtíðinni geti því allir félagsmenn leikfélaganna nýtt sér þjónustuna á jafnréttisgrundvelli.

3. Útgáfa Ársrits fyrir leikárið 2006-2007

Ársritið kom út á haustdögum að vanda. Ekki þarf að fjölyrða um nytsemd þess fyrir alla þá sem þurfa að fá yfirlit yfir umfang starfseminnar, og þá ekki síður stjórnarliða og aðra sem þurfa að monta sig og rökstyðja þannig frekari framlög og stuðning. Enn eru nokkur brögð að því að félög láti undir höfuð leggjast að senda inn skýrslu um starfsemi sína til birtingar í ársritinu. Fyrrgreind gagnsemi eykst með hverri innsendri skýrslu þannig að betur má ef duga skal.

4. Starfsemi Leiklistarskóla BÍL skv. námskeiðaáætlun

Fulltrúar skólanefndar flytja skýrslu um þetta efni undir liðnum skýrslur nefnda.

5. Rekstur vefsíðunnar leiklist.is skv. tillögum vefnefndar.

Fulltrúi vefnefndar gerir grein fyrir stöðu mála í netheimum Bandalagsins undir liðunum skýrslur nefnda.

6. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og til einkaaðila til starfsemi áhugaleikfélaganna, þjónustumiðstöðvar Bandalagsins og Leiklistarskóla þess.

Þegar fjárlagafrumvarp fyrir árið 2008 leit dagsins ljós blasti við lítilsháttar niðurskurður á framlögum til starfsemi félaganna og þjónustumiðtöðvarinnar, sem vitaskuld hefði komið sér afar illa. Viðtöl voru bókuð við bæði menntamálaráðherra og fjárlaganefnd. Formaður, varaformaður og framkvæmdastjóri hittu ráðherra og hennar fólk og fengu þar þau svör að um væri að ræða flatan niðurskurð á öllum liðum og ekki stæði til að breyta því. Þá sóttu framkvæmdastjóri og varaformaður fjárlaganefnd heim og fluttu þar mál sitt af slíkum skörungsskap að þegar upp var staðið hafði styrkurinn til þjónustumiðstöðvarinnar hækkað um 2,9 milljónir, og um 2,6 milljónir til aðildarfélaganna. Þar með er framlag ríkisins til skrifstofunnar komið í 8,3 milljónir og 25,4 milljónir eru til skiptanna fyrir starfsemi félaganna.

Mikið var rætt á síðasta þingi um nauðsyn þess að herja á einkageirann í leit að fjármagni til starfseminnar. Það er mat stjórnar að raunhæfast sé að sækja fé í þann geira til einstakra, vel skilgreindra og áberandi verkefna og horfir þar einkum til alþjóðlegu leiklistarhátíðarinnar sem ætlunin er að halda á Íslandi eftir rúm tvö ár.

7. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugasýningu ársins

Eins og kunnugt er hreppti Leikfélag Fljótsdalshéraðs þetta hnoss á síðasta ári og sýndu Listina að lifa eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Odds Bjarna Þorkelssonar í Kúlunni 7. júní. Tókst það allt hið besta.

Sérverkefni starfsársins

1. Halda einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2008

Eins og blasir við þá reyndist ekki vera nægur áhugi fyrir því að halda slíka hátíð að þessu sinni. Orsakir þess eru  vafalaust fjölbreyttar og í sjálfu sér ekki ástæða til að leggja árar í bát, enda geri ég ráð fyrir því að þeir sem til þekkja séu samdóma um að þessar hátíðir hafi verið hin besta skemmtun og áhugaverð hlið á starfseminni. Sjáum hvað setur.

2. Hefja undirbúning NEATA-hátíðar 2010

Undirbúningshópur hátíðarinnar hefur verið skipaður formanni, Lárusi varaformanni og Ólöfu varastjórnarkonu. Einnig hafa Ingólfur Þórsson og Guðrún Halla Jónsdóttir verið nokkurskonar norðandeild verkefnsins, þrátt fyrir að Halla sé nú búsett á Selfossi.

Undirbúningur hátíðarinnar er lítið kominn af stað, en þó er búið að ákveða að stefna að halda hana á Akureyri dagana 3. til 8. ágúst 2010. Við höfum vilyrði yfirvalda í bænum um að nýta hið glæsilega menningarhús bæjarins fyrir hátíðina, auk annarar fyrirgreiðslu.

Fyrir liggur að sækja um styrk í menningarsjóði Evrópusambandsins vegna þessa verkefnis, mögulega í samvinnu við Dani og Færeyinga, sem eru með barna- og ungmennahátíðir á sínu teikniborði.

Stefnt er að því að vinna við þetta risavaxna verkefni hefjist fyrir alvöru á næstu mánuðum.

3. Að stjórn skipi formlega langtímanefnd sem haldi utan um starfsemi handritasafns í samvinnu við starfsmenn Þjónustumiðstöðvar.

Í nefnd þessari sitja þau Ármann Guðmundsson, Hrefna Friðriksdóttir Hugleik og Örn Alexandersson Lf. Kópavogs. Starfssvið hennnar og verkefni hafa verið í þróun á árinu og skýrslu er að vænta undir liðnum skýrslur nefnda.

4. Að Margt smátt verði haldin í haust í svipuðu formi og verið hefur.

Skýrsla um Margt smátt er væntanleg frá framkvæmdanefnd hátíðarinnar.

5. Að stjórn leiti leiða til að tryggja faglega umfjöllun um leiksýningar áhugaleikfélaganna á Leiklistarvefnum.

Stjórn velti nokkuð fyrir sér möguleikum á að hrinda þessu verkefni í framkvæmd, en sá enga raunhæfa leið til að koma sér upp launuðum gagnrýnendum. Í ráði er að leita til aðila í öllum landshlutum og kanna hvort fleiri en nú er séu tilbúnir að skrifa um þær sýningar sem þeir sjá upp á sömu bítti og núverandi skríbentar; einbert þakklæti áhugaleiklistarfólks.

IV    Bókanir og ábendingar

– Að stjórn kanni grundvöll á standa að pakkaferð til Riga 2008.

Stjórn kannaði ýmsa kosti á að hrinda þessari ágætu hugmynd í framkvæmd. Þær kannanir leiddu hins vegar í ljós að ekki væri grundvöllur fyrir slíku. Að sjálfsögðu er ekkert því til fyrirstöðu að fólk sæki hátíðina heim á eigin vegum og munu upplýsingar um þátttökugjöld og aðra praktík verða sendar félögunum og birtar á leiklistarvefnum um leið og þær liggja fyrir.

– Að skólanefnd kanni þörf á að hafa leikmynda-, búninga- og ljósanámskeið í samstarfi við félögin víða um land

Skýrsla skólanefndar mun greina frá hvernig brugðist var við þessari ábendingu.

– Að ljúka upplýsingahandbók fyrir stjórnir leikfélaga á næsta starfsári

Ekki tókst að uppfylla þessa beiðni og koma þar einkum til ritaraskiptin, en verkefnið var alfarið í höndum Sigríðar Láru. Núverandi og fyrrverandi ritari munu brátt taka höndum saman um að sigla handbókinni í höfn.

– Að starf búninganefndar haldi áfram og að stjórn móti hlutverk nefndarinnar

Búninganefndin mun gera grein fyrir störfum sínum og stöðu málsins undir liðnum skýrslur nefnda.

– Að sótt verði um styrki hjá einkaaðilum vegna sögu Bandalagsins, handritasafns, leiklistahátíða og stuttverkahátíða.

Eins og áður hefur komið fram hefur stjórn mótað þá stefnu að leita til einkaaðila um styrki vegna NEATAhátíðarinnar 2010

IV    Samþykktar tillögur á aðalfundi 2007

– Stjórn Bandalagsins verði falið að setja af stað nefnd sem endurskoða skal lög Bandalagsins fyrir næsta aðalfund

Fyrir fundinum liggja lagabreytingartillögur sem nefnd skipuð undirrituðum og Guðfinnu Gunnarsdóttur varastjórnarkonu unnu og stjórn leggur fram.

– Að stjórn og framkvæmdastjóra Bandalagsins verði falið að selja húsnæði Bandalagsins að Laugavegi 96 og kaupa annað hentugra sem fyrst.

Eins og fram kom fyrr í skýrslunni er þetta mál í fullri vinnslu.

V    Erlent samstarf

Erlent samstarf var með blómlegasta móti á árinu. Þrjár íslenskar sýningar lögðu land undir fót.

Íslendingar áttu sýningu á leiklistarhátíð alþjóðasamtakanna IATA í Suður-Kóreu og er það annað skiptið  í röð sem við sendum sýningu á þessa hátíð. Að þessu sinni var það sýning Hugleiks og Leikfélags Kópavogs, Memento Mori eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur.

Leikfélag Selfoss sótti Litháen heim og sýndi Hnerrann eftir Anton Tsékov og Michael Frayn í leikstjórn Harðar Sigurðarsonar á leiklistarhátíð í Rokiskis.

Og núna á fimmtudaginn flutti Hugleikur Útsýni eftir Júlíu Hannam í leikstjórn Rúnars Lund og Silju Bjarkar Huldudóttur á leiklistarhátíð í Västerås í Svíþjóð.

Straumurinn var ekki bara í aðra áttina því vinaleikfélag Leikfélags Húsavíkur í Danmörku, Bagsværd Amatør Scene sótti Húsavík heim og flutti verkið Jøklerne Brænder.

Íslensk ungmenni sóttu sumarskóla NUTU, ungmennadeildar norræna áhugaleikhússráðsins, NAR. Skráning er lokið í skólann í sumar og munu 9 íslendingar stefna þangað. Þátttaka annarra Norðurlanda er reyndar heldur dræm og blikur á lofti um hvort af verði að þessu sinni.

Fulltrúi Íslands í NUTU er Sigríður Eyfjörð, nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð í Reykjavík og hefur hún sótt fundi nefndarinnar.

Framkvæmdastjóri var fulltrúi Íslands á ársfundi IATA sem haldinn var í S-Kóreu í tengslum við fyrrnefnda leiklistarhátíð. Þar sótti Vilborg einnig stjórnarfund í NEATA – Norður-evrópska áhugaleikhúsbandalaginu.

Formaður Bandalagsins situr í stjórn NAR fyrir Íslands hönd og hefur sótt tvo stjórnarfundi á árinu, í Luleä í Svíþjóð og Osló í Noregi. Starfsemi NAR sendur nú á tímamótum, en vegna skipulagsbreytinga í styrkjakerfi norrænu ráðherranefndarinnar munu samtökin ekki njóta beinna styrkja í framtíðinni, heldur verða allir styrkir verkefnatengdir. Enn ríkir óvissa um hvaða áhrif þetta hefur á samstarfið, en það mun skýrast betur á næstu mánuðum. Næsti stjórnarfundur NAR verður í september og mun verða helgaður stefnumótun miðað við þessar breyttu forsendur, og það sama má segja um fyrirhugaða ráðstefnu starfsfólks þjónustumiðstöðva sem í ráði er að halda í Reykjavík í nóvember.

VI    Lokaorð

Nú fer þessari skýrslu að ljúka. Síðasta starfsár hefur verið viðburðaríkt og annasamt. Fjölmargar nefndir hafa starfað og óvenju mörg sérverkefni verið á borði stjórnar. Stærstu tíðindin eru þó án efa sala húsnæðisins og þeir möguleikar sem skapast við það tækifæri. Sem aftur mun leiða til þess að næsta starfsár verður ekki síður spennandi.

Reykjavík 2. maí 2008

Þorgeir Tryggvason
formaður

7.      Framkvæmdastjóri leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs og skýrir þá.
Vilborg Valgarðsdóttir framkvæmdastjóri lagði fram og skýrði ársreikning 2007.

8.      Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla reikninga.
Sigurveig Dögg Þormóðsdóttir, Lf. Sauðárkróks, spurði um á hvað grundvelli stjórn hefði rætt gagnrýnendamál, taldi að æskilegt væri það væri ekki heimamaður sem skrifaði um sýningar. Þorgeir svaraði að hugmyndin hefði verið að koma upp neti hæfra gagnrýnenda á landsvísu sem mundi skrifa um sýningar þegar þeir sæu þær, ekki endilega í sinni heimasveit en þó alveg eins.

Hörður Sigurðarson, Lf. Kópavogs og formaður vefnefndar, taldi umfjöllun um sýningar skipti gríðarlegu máli og að það væri alls ekki fullreynt með þær, skoða ætti hvort ekki væri ástæða til að Bandalagið leggði peninga í þetta málefni, þeim peningum væri betur varið en í margt annað.

Sigurveig stakk upp á að fulltrúar leikfélaga skrifuðu um önnur félög.

Lárus Vilhjálmsson lagði til að stofnaður yrði sjóður sem þau félög sem vildu fá gagnrýni gætu borgað í og yrði síðan notaður til að greiða gagnrýnendum einhverja lámarks upphæð.

Guðrún Halla stakk upp á að þeir sem áhuga hefðu á að skrifa um sýningar gætu skráð sig á lista á vefnum og leikfélögin þá beðið þá að skrifa gagnrýni á sýningar sínar, jafnvel fleiri en einum og gæti þá einn skrifað fyrir leiklistarvefinn og annar t.d. innsenda grein til annarra fjölmiðla.

Hrund Ólafsdóttir taldi að það væri ekki siðferðilega rétt að leikfélögin borguðu undir gagnrýnanda á sínar sýningar, það setti gagnrýndur í erfiða stöðu ef þeir væru ekki hrifnir af sýningum. Einnig taldi hún þurfa að ræða Þjóðleikhússýninguna og dræma þátttöku í keppninni um hana og hvort of mikið væri að hafa bæði Margt smátt og einþáttungaþáttungahátið á aðalfundi.

Þorgeir bauðst til þess að halda námskeið í ritun leikdóma í tengslum við næsta aðalfund og hvatti Hrund til að hjálpa sér sem hún tók vel í.

Bernharð Arnarson, Lf. Hörgdæla, sagði að hallinn á rekstri vefsíðunnar væri óþarfur, það hlyti að vera hægt að ná uppí kostnað með auglýsingasölu.

Reikningar lagðir fram og samþykktir einróma.

9.      Skýrslur nefnda og umræður um þær.

a) Hrefna Friðriksdóttir flutti skýrslu skólanefndar.

Skýrsla skólanefndar á aðalfundi BÍL 2.-4. maí 2008

Leiklistarskólinn var settur í 11. sinn í júní 2007 að Húsabakka í Svarfaðardal. Þar voru í boði 3 námskeið:
– Leiklist I, kennari Ágústa Skóladóttir, nemendur alls 17
– Sérnámskeið fyrir leikara, kennari Stephen Harper, nemendur alls 17
– Sérnámskeið fyrir leikstjóra, kennari Egill Heiðar Anton Pálsson, nemendur alls 5 talsins.
Samtals voru því 39 nemendur í skólanum í Svarfaðardalnum í fyrra og niðurstaða viðhorfskönnunar benti til mikillar ánægju með skólastarfið.

Stuttu fyrir skólasetningu kom í ljós að gerður hafði verið langtímaleigusamningur við annan aðila um litla leikfimisalinn í kjallara annars hússins að Húsabakka. Þetta kom okkur algerlega í opna skjöldu þar sem við höfum haft þetta rými allt saman á leigu á hverju ári undanfarin 10 ár og svo sannanlega þurft á því að halda fyrir leiklistarnámskeiðin. Rætt var við bæjarstjóra Dalvíkurbyggðar og leigutaka en ekki tókst að ná samkomulagi um að fá afnot af salnum. Við urðum því að láta okkur nægja annað rými á staðnum og það þrengdi nokkuð að námskeiðunum í leiklist.

Gréta Boða hélt byrjendanámskeið í leikhúsförðun í október 2007 og voru þar alls 11 nemendur. Einnig var auglýst framhaldsnámskeið en þátttaka varð ekki næg svo ákveðið var að fresta því til haustsins 2008.

Þá varð einnig að fella niður vegna ónógrar þátttöku fyrirhugað námskeið um sýningu Þjóðleikhússins á leikritinu Baðstofan eftir Hugleik Dagsson nú í vor sem halda átti í samstarfi við fræðsludeild Þjóðleikhússins. Námskeiðið var hugsað fyrir höfunda, leikstjóra, listræna hönnuði og aðra áhugasama til að skoða umgjörð, hugmyndavinnu, útfærslu og alla þá listrænu og tæknilegu vinnu sem liggur að baki leiksýningar. Fræðsludeild Þjóðleikhússins hefur lýst áhuga á frekara samstarfi og komið með spennandi hugmyndir, svo sem að bjóða upp á lokuð rabb-kvöld við listræna aðstandendur í tengslum við ákveðnar sýningar í húsinu svo og lengri námskeið. Skólanefnd hefur fullan hug á að skoða samstarf af þessu tagi næsta vetur.

Í júní á þessu ári verða þrjú námskeið í boði í Svarfaðardalnum.
– Leiklist II, kennari Ágústa Skúladóttir, skráðir nemendur eru 18 og 1 á biðlista
– Sérnámskeið fyrir leikara, kennari Rúnar Guðbrandsson, skráðir nemendur eru 13
– Grunnnámskeið í leikritun, kennari Bjarni Jónsson, skráðir nemendur eru 10 og 4 á biðlista, þar af 2 sem eiga pláss á öðrum námskeiðum.

Í október verður svo eins og áður sagði boðið upp á framhaldsnámskeið í leikhúsförðun. Á síðasta aðalfundi var bókuð ábending um að skólanefnd kannaði þörf á að hafa leikmynda-, búninga- og ljósanámskeið í samstarfi við leikfélögin. Skólanefnd gerði sérstaka könnun meðal leikfélaganna um þörf fyrir ljósanámskeið og benda niðurstöður til þess að í kringum 30 manns hafi áhuga á slíku. Næsta vetur er því ráðgert að bjóða upp á námskeið um gervi, leikbúninga, leikmynd og leikhúslýsingu.

Sem endranær hafa húsnæðismál verið rædd á nánast öllum fundum skólanefndar.
Í tengslum við aðalfund BÍL að Hallormstað í fyrra kom upp sú hugmynd hvort sá staður gæti nýst skólanum, húsnæðið var skoðað sérstaklega og virtist gagnkvæmur vilji hlutaðeigandi til að skoða þetta frekar. Í kjölfarið hafa átt sér stað fundir og viðræður milli stjórnar BÍL og forráðamanna menningarmála á Austurlandi. Rétt er að þakka sérstaklega Þráni Sigvaldasyni, fyrrverandi formanni Leikfélags Fljótsdalshéraðs, fyrir hans ötula starf í þessu sambandi. Við höfum talið húsnæðið henta mjög vel, m.a. með tilliti til aðgengis fyrir fatlaða, og talsverður áhugi virðist á því að fá skólann austur. Óvissa um tímasetningar og framtíð húsnæðisins, sérstaklega framtíð hótelreksturs á staðnum, hefur þó sett strik í reikninginn og dregið að endanleg svör fáist. Þegar fór að líða á veturinn lá fyrir að a.m.k. næðust ekki samningar fyrir sumarið 2008 og að skólinn yrði því það árið enn að Húsabakka. Ákveðið var að gera ekkert frekar í húsnæðismálum að öðru leyti meðan þetta ferli væri í gangi, stefnt var að því að reyna að knýja fram skýrari svör fyrir þennan aðalfund en því miður liggja ákvarðanir austanmanna ekki fyrir.
Litli salurinn á Húsabakka er enn í langtímaleigu. Sú takmörkun hefur afgerandi áhrif á hvaða námskeið hægt er að bjóða upp á og dregur verulega úr kostum þess að hafa skólann að Húsabakka til viðbótar við aðgengisvandamál. Á síðasta aðalfundi var rætt um að senda sveitarstjórnum landsins fyrirspurn um vænlegt húsnæði og mælir skólanefnd með því að þetta verði gert ef skýr svör liggja ekki fyrir um Hallormstað innan skamms tíma.

Skólanefndin horfir annars bjartsýn fram á veginn, við stefnum að annasömu og metnaðarfullu skólaári og ég þakka samnefndarkonum mínum vel unnin störf.

Skólanefnd:
Hrefna Friðriksdóttir
Dýrleif Jónsdóttir
Herdís Þorgeirsdóttir
Gunnhildur Sigurðardóttir
Sigríður Karlsdóttir

Umræður um skýrslu skólanefndar

Lárus tók til máls og beindi því til stjórnar og skólanefndar að skoða samstarf við aðra aðila, t.d. framhaldsskóla og að athuga hvort finna megi húsnæði sem henti til leiklistarnáms á öllum sviðum, þar með talið tækninámskeið.

Þorgeir tók til máls og innti eftir hversu mörg félög ættu fulltrúa í skólanum, hann vill reyna að breiða út fagnaðarerindi skólans víðar meðal félaga.

Hrefna svaraði fyrirspurnum, en var ekki með fjölda félaga handbæran.

Hrund benti á klausu í menningarstefnu BÍL þar sem rætt er um leiklist fyrir börn og vísaði til aukinnar leiklistarmenntunar grunnskólakennara, hún vill búa til ályktun um eflingu leiklistarkennslu barna og unglinga og þá um leið leiklistarmenntun kennara.

b) Hörður Sigurðarson flutti skýrslu vefnefndar.

Leiklistarvefurinn – Skýrsla vefnefndar 2008
Lögð fram á aðalfundi BÍL á Sauðárkróki 3.-4. maí 2008

Ekki hafa verið breytingar á Leiklistarvefnum undanfarið ár sem orð er á gerandi og er því skýrsla vefnefndar með styttra móti að þessu sinni. Almennt virðast menn telja sem vefurinn þjóni hlutverki sínu vel sem upplýsingaveita fyrir félögin og ekki brýn nauðsyn á róttækum breytingum. Eins og undanfarin ár skipa vefnefnd, undirritaður og starfsmenn Þjónustumiðstöðvar, þau Vilborg og Ármann auk Lárusar Vilhjálmssonar.
Eins og venjulega er það starfsmenn Þjónustumiðstöðvar sem sinna að mestu daglegum rekstri með að setja inn fréttir og viðburði auk þess að sjá um uppfærslu leikritasafns. Því miður hefur mjög dregið úr gagnrýni og umfjöllun um leiksýningar vefnum. Stjórn hefur haft það mál á sínu borði og vonandi rætist eitthvað úr því.
Vandamál eru þau sömu og verið hafa frá upphafi, sem sé að enn þarf að sækja fréttir til sumra félaga og þá getur verið erfiðleikum bundið að fá þokkalegt myndefni með fréttum. Hér er því ítrekuð sú árlega áskorun til allra félaga að vera duglegri að senda inn fréttir og myndir af starfinu.

Þjónustaðilinn okkar sem hýsir vefinn hefur átt í nokkrum erfiðleikum undanfarið ár vegna mikils álags. Það hefur m.a. lýst sér í að vefurinn hefur verið sambandslaus af og til en þó yfirleitt í stuttan tíma í hvert sinn. Svo virðist sem tölfræðikerfið sem við notum til að fá upplýsingar um aðsókn eigi þar einhverja sök á og er verið að skoða hvað hægt er að gera í því.
Fyrir rúmu ári opnuðum við spjallborðið að nýju fyrir nafnlausum innleggjum en það hefur ekki haft mikið að segja. Eitt og eitt innlegg dettur inn en annars er afar rólegt yfir spjallinu. Eins og venjulega fylgir skýrslu þessari ýmiskonar tölfræði sem sýnir aðsókn að vefnum í ýmsum myndum. Þar sést t.d. að aðsókn að vefnum eykst enn þrátt fyrir að ekki hafi mikið breyst. Það má túlka þannig að vefurinn standi traustum fótum og þó ýmislegt megi bæta er ekki ástæða til róttækra breytinga á næstunni.
Ýmis sóknarfæri eru í sölu auglýsinga á vefinn en eins og stundum er ekki mannskapur né tími til að sinna því. Einstaka leikfélög og tengdir aðilar hafa keypt auglýsingu á undanförnu ári og þó þar sé ekki um háar upphæðir að ræða munar vefinn þó um þær. Í ráði er að bæta inn fréttabréfseiningu í kerfið sem ætti að auðvelda Þjónustumiðstöðinni vinnuna við útsendingu frétta og annarra upplýsinga.
Ekki er víst að allir átti sig á þeirri fjölbreyttu þjónustu sem veitt er í gegnum vefinn og skal hér því að lokum talið upp það helsta. Á Leiklistarvefnum er að finna:
•    Fréttir af aðildarfélögum Bandalagsins, sýningum á þeirra vegum og öðrum viðburðum.
•    Fréttir af leiklist á Íslandi í víðu samhengi.
•    Handritasafn Bandalagsins þar sem hægt er að leita að verkum eftir fjölbreyttum skilyrðum.
•    Upplýsingar um vörur í verslun Þjónustumiðstöðvar.
•    Spjallborð um leiklistartengd málefni.
•    Eyðublöð vegna umsókna um styrki og fleira.
•    Upplýsingar um námskeið og leiklistarhátíðir innanlands sem utan.
•    Upplýsingar um öll aðildarfélög BÍL og tenglar á vefi þeirra sem hafa slíka.
•    Viðburðadagatal með upplýsingum um nánast allar áhugaleiksýningar á landinu.
•    Upplýsingar um félög og stofnanir sem sinna eða tengjast leiklist á Íslandi sem og utanlands.
•    Upplýsingar um leiklistarnám á Íslandi sem og utanlands.
•    Greinar og umfjöllun um leiksýningar og ýmislegt annað sem tengist leiklist.
•    Upplýsingar um leikstjóra sem gefa kost á sér til vinnu með áhugaleikfélögunum.
•    Upplýsingar um leiklistartengda styrki.
•    Fundargerðir stjórnar- og aðalfunda BÍL.
•    Upplýsingar um Leiklistarskóla Bandalagsins
Eflaust er eitthvað ótalið en eins og sjá má hefur vefurinn afar fjölbreytt hlutverk. Lýkur hér með skýrslu vefnefndar.

Fyrir hönd vefnefndar
Hörður Sigurðarson

Fylgiskjöl:
1. Ýmis tölfræði um vefinn

Umræður um skýrslu vefnefndar

Sigurveig Dögg spurði hvort aðildarfélög þurfi að borga fyrir að eiga tengil/hnapp á sína heimasíðu. Fékk þau svör hjá Herði að svo væri ekki.

Árný Leifsdóttir, Lf. Ölfuss, fannst vanta frekari upplýsingar um verkin í leikritasafninu á vefnum. Hörður svaraði því til að leitarmöguleikar væru afar fjölbreytilegir. Hann skýrði einnig frá því að ekki væri sérstaklega unnið að því í dag að vinna upplýsingar um handrit.

Ármann kom upp og sagði að handrit sem skráð séu inn í dag séu alltaf skráð á nákvæman hátt, en hins vegar vanti að lesa yfir og skrá niður útdrátt fyrir um helming leikrita í safni.

Þorgeir minnti á gamlan félagsskap, Lestrarhestafélagið, skoða mætti hvort grundvöllur væri fyrir því að endurreisa þann félagsskap til að bæta handritaskráningu. Einnig mætti fylgja beiðni þeim handritum sem send eru út um að viðkomandi myndu gera útdrátt um leið. Hann spurði hvort mögulegt væri að setja inn pláss fyrir persónulega umsögn í vefleitina.

Hörður svaraði því til að vel mætti skoða umsagnarform á vefnum, einnig væri hægt að mynda hóp, búa til lista yfir þá aðila sem mikið lesa leikrit.

Hrund tók til máls og benti á að umsagnir um leikrit yrðu að vera undir nafni og vel ígrundaðar.

c) Ármann Guðmundsson flutti skýrslu Handritasafnsnefndar

Skýrsla Handritasafnsnefndar 2008

Handritanefnd er skipuð þeim Ármanni Guðmundssyni, Hrefnu Friðriksdóttur og Erni Alexanderssyni. Nefndin fundaði þrisvar á leikárinu. Skipunarbréf frá stjórn barst nefndinni ekki í hendur fyrr en eftir áramót þannig að fram að því starfaði nefndin eftir samþykkt frá aðalfundi sem var efnislega talsvert frábrugðin skipunarbréfinu. Samkvæmt því er hlutverk nefndarinnar „Að kanna tæknilega kosti á að færa handritasafn Bandalagsins í stafrænt form, svo og kostnað við mismunandi leiðir“ og „Að kanna möguleika á styrkveitingum til slíks verkefnis“.

Þegar farið var að skoða málið kom fljótlega í ljós að í raun er málið tiltölulega einfalt. Til þessarar framkvæmdar þarf fyrst og fremst öflugan skanna og þar sem fyrir liggur að í nánustu framtíð þarf að kaupa nýja ljósritunarvél fyrir þjónustumiðstöðina er einsýnt að keypt verður vél sem jafnframt getur skannað. Fyrirspurn hjá þjónustuaðila okkar leiddi í ljós að slík vél kostar í kringum hálfa milljón. Leitað verður eftir styrkjum til að fjármagna vélina en nefndin hefur reyndar rökstuddan grun um að sú hækkun sem varð á framlagi ríkisins til skrifstofunnar megi að hluta til rekja til þessa verkefnis. Þegar hefur verið send umsókn í Pokasjóð en ekki ljóst að svo stöddu hvort hann fæst. Verið er að skoða fleiri möguleika á styrkumsóknum.

Annað sem þarf til að vista megi safnið á tölvutæku formi er tölvubúnaður til vistunar og vinnslu, sem í raun er til nú þegar, og OCR-hugbúnaður sem vistar skjöl í ritvinnsluformati og kostar það á bilinu 30-40 þúsund krónur. Einnig þarf að gera ráð fyrir einhvers konar útvistun, annað hvort á flakkara eða á netþjóni en það er óverulegur kostnaður.

Sjálfa skönnunina gæti starfsfólk þjónustumiðstöðvarinnar séð um og miðað við óbreytt starfshlutfall áætlar nefndin að þá tæki það 2-3 ár að skanna inn allt safnið. Reynandi væri samt að sækja um styrk til ríkisins til að ráða starfsmann í 50% starf til að sinna þessu og tæki þetta þá mun skemmri tíma. Má gera ráð fyrir að til þess þyrfti um 2 milljónir króna á ársgrundvelli.

Nefndin hefur einnig rætt hugmyndir um umtalsverðar breytingar á hugsuninni á bakvið safnið og útvíkkun á hlutverki þess. Þessar hugmyndir verða kynntar betur síðar.

f.h handritasafnsnefndar
Ármann Guðmundsson

Bernharð Arnarson benti á að leigja mætti vél til skönnunar og ljósritunar í stað þess að kaupa.

Þorgeir benti á að nú væri lag til útvíkkunar starfsemi handritasafnsnefndar í kjölfar umræðu sem á undan fór.

Guðrún Halla spurði hvort prófa mætti að stofna landahlutasamtök leikhópa sem sækja mundu um styrki til menningarsjóða í sínum fjórðungi til handritasafnsins og skönnun þess.

Embla Guðmundsdóttir benti á að hugsanlega myndu slíkri sjóðir gera kröfu um að fá safnið til sín.

Þorgeir fagnaði hugmynd Guðrúnar Höllu, en fannst henni að hluta til sóað á þetta atriði, en skoðunarverð fyrir önnur verkefni.

d) Embla Guðmundsdóttir flutti skýrslu búningasafnsnefndar.

Skýrsla búningasafnsnefndar 2008

Starf nefndarinnar reyndist lítið og létt þegar í ljós kom að hugmyndir okkar um búningasafn í samvinnu við Þjóðleikhúsið voru að mestu á misskilningi byggðar. Búningadeild Þjóðleikhússins hyggst ekki láta frá sér safnið sitt nema kannski eitthvað af venjulegum fatnaði sem þarf að grisja úr. Þar á bæ skortir fjármagn og mannskap til að hægt sé að sinna þörfum áhugaleikfélaganna, þótt að fullur vilji sé til þess. Í samtali við fulltrúa búningadeildarinnar kom fram sú hugmynd að Bandalagið þrýsti á ráðuneytið um að bæta við svo sem eins og hálfu stöðugildi hjá þeim til að leysa málið.

Nýverið fékk Kristín Sigvaldadóttir styrk til að opna og þróa búningasafn á Akureyri. Lagt er til að fulltrúi Bandalagsins hafi samband við hana og kanni grundvöll fyrir samstarf og samvinnu í framtíðinni.

f.h. búningasafnsnefndar
Embla Guðmundsdóttir

Umræður um skýrslu búningasafnsnefndar

Vilborg tók til máls og sagði frá því að þjónustumiðstöðin hefði fengið þær upplýsingar frá Þjóðleikhúsinu að það hefði enn þann háttinn á að Bandalagið væri með milligöngu um lán á búningum, sem er ekki rétt.

Guðrún Halla lagði til að „landshlutasamtök norðanmanna“ sæki um styrk til handa búningasafni Kristínar Sigvaldadóttur.

Embla greindi frá því að hennar leikfélag hefði fengið búninga lánaða í Borgaleikhúsinu í vetur og hefði það verið auðsótt mál.

Þorgeir sagði gleðitíðindi að Borgarleikhúsið lánaði sumum búninga, en taldi persónuleg tengsl hverju sinni ráða miklu. Hann vildi einnig kynnast starfi Kristínar og fá tengingu við hana inn í stjórn.

e) Þorgeir Tryggvason flutti skýrslu sögunefndar.

Skýrsla Sögunefndar 2008

Nefndina skipuðu þau Einar Njálsson, Sigrún Valbergsdóttir og Þorgeir Tryggvason. Nefndin starfaði að vanda í nánu samstarfi við Bjarna Guðmarsson söguritara og Vilborgu Valgarðsdóttur framkvæmdastjóra.

Ritun sögunnar er lokið, síðustu frágangsatriðin verða ekki unnin fyrr en fyrir liggur hvenær gripurinn fer í prentun, sem ætti að verða á fyrri hluta ársins 2008.

Kápa hefur verið hönnuð og var þar að verki Einar Samúelsson, sem hefur unnið ýmsa hönnunarvinnu fyrir Bandalagið á liðnum árum.

Næstu verkefni eru að safna áskrifendum, sem fá nafn sitt á heillaóskaskrá, „Tabula Gratulatoria“, sem prentuð verður í bókina. Þjónustumiðstöðin hefur unnið margvíslega lista yfir fólk sem vænta má að hafi áhuga á bókinni, og nú er leitað að fólki sem hefur hug á að taka þátt í að hafa samband við þessa aðila.

f.h. sögunefndar
Þorgeir Tryggvason

Umræður um skýrslu sögunefndar

Vilborg sýndi fundargestum kápu bókarinnar Allt fyrir andann, Sögu Bandalags íslenskra leikfélaga 1950-2000. Verð bókarinnar í smásölu 5.600 krónur, en í áskrift fyrir heillaóskaskráningar kr. 4.900. Hún setti af stað skráningu meðal fundargesta og auglýsti eftir sölumönnum.

Þorgeir bætti því við að bókin væri bráðskemmtileg og bráðnauðsynleg sem þekkingarauki um hversu miklvægt starf hefur verið unnið á vegum Bandalagsins í gegnum tíðina.

Lárus fagnaði því að nú væri bókin að koma út og benti á nauðsyn þess að huga að skráningu næstu 50 ára.

Vilborg benti Lárusi á að sagan næði til ársins 2000 og að útgáfa ársrits kæmi í staðinn fyrir sögu framtíðar og óskaði um leið eftir ítarlegum upplýsingum frá félögum í téð ársrit.

f) Ármann Guðmundsson flutti skýrslu framkvæmdanefndar Margs smás

Margt smátt – Stuttverkahátíð Bandalagins í Borgarleikhúsinu 6. október 2007

Skýrsla framkvæmdarnefndar

Nefndina skipuðu:
Ármann Guðmundsson
Hjalti Stefán Kristjánsson
Hrund Ólafsdóttir
Ólöf Þórðardóttir

Nefndin skipti þannig með sér verkum:
Ármann sá um tengsl við Borgarleikhúsið, Hjalti sá um að halda utan um atburði á undan hátíð og í hléum, Hrund sá um gagnrýni og Ólöf leitaði eftir styrkjum. Kynningarmálum skipti nefndin á milli sín.

Upphaflega stóð til að hátíðin yrði haldin í kringum páska 2007 en þegar ljóst var að ekki fannst dagsetning sem hentaði bæði okkur og Borgarleikhúsinu var ákveðið að fresta hátíðinni til hausts. Fyrir valin varð dagsetningin 6. október og frestur til að tilkynna þátttöku með verk var 21. september. Hátíðin hófst kl. 14 og stóð til kl. 18.

Sex félög sóttu um að vera með alls 18 sýningar en þrátt fyrir að ákveðið væri að fækka ekki sýningum þar sem heildarlengd þeirra var innan þess tímaramma sem settur hafði verið, ákvað Hugleikur að draga til baka 3 af sínum sýningum þannig að sýningarnar urðu 15. Þær voru:

Freyvangsleikhúsið með:
Hlé! eftir Hjálmar Arinbjarnarson

Halaleikhópurinn með:
Uppihvað?

Hugleikur með:
Hver er þessi Benedikt? eftir Júlíu Hannam
Fyrir eftir Hrefnu Friðriksdóttur
Mikið fyrir börn eftir Þórunni Guðmundsdóttur og Hrefnu Friðriksdóttur
Munir og minjar eftir Þórunni Guðmundsdóttur
Næturstaður eftir Sigurð H. Pálsson
Pappírs-Pési eftir Unni Guttormsdóttur
Verðum í bandi eftir Árna Friðriksson
Þriðji dagurinn eftir Sigurð H. Pálsson

Leikfélag Kópavogs með:
Jesú getinn eftir Bjarna Baldvinsson

Leikfélag Mosfellssveitar með:
Hverjum ætti að refsa eftir Agnesi Þorkelsdóttur Wild
Þennan dag eftir Sigrúnu Harðardóttur

Leikfélagið Sýnir með:
Hamar eftir Hörð Skúla Daníelsson
„Og hef ég þann sopa sætastan sopið“ eftir Hrund Ólafsdóttur

Undirbúningur hátíðarinnar er kominn í nokkuð fastar skorður en þó var bryddað upp á þeirri nýbreyttni að gera meira úr umgjörð hátíðarinnar en stundum áður, þátttakendur fóru með trumbuslætti í skrúðgöngu í gegnum Kringluna fyrir hátíðina, uppákomur, leikin atriði og tónlistarnúmer voru í hléum og um kvöldið var haldið partý sem tókst einkar vel. Allt þetta átti þátt í að gera þessa hátíð „hátíðarlegri“ en tvær síðustu.

Samstarfið við Borgarleikhúsið gekk algjörlega snurðulaust. Bæði var tengiliður Borgarleikhússins, Steinunn Knútsdóttir og svo þeir starfsmenn sem húsið lét okkur í té, öll af vilja gerð að aðstoða okkur og allt sem upp kom var leyst eins og hendi væri veifað. Verður þar sérstaklega að þakka Kára Gíslasyni ljósamanni, Guðrúnu Lilju Magnúsdóttur sviðsstjóra og Guðmundi Viðarssyni hljóðmanni (nefndin sendi reyndar tölvupóst með þökkum til þeirra til Borgarleikhússins). Einnig lagði Borgarleikhúsið til kynningarnet sitt, bæði í dálki sýnum í dagblöðum og í dreifingu fréttatilkynninga.

Guðjón Pedersen Borgarleikhússtjóri flutti stutt ávarp í byrjun hátíðar og Lárus Vilhjálmsson varaformaður Bandalagsins einnig. Gagnrýnandi hátíðarinnar var Harpa Arnardóttir og flutti hún stutta umfjöllun að sýningum loknum og skilaði svo ítarlegri skriflegri umfjöllun á Leiklistarvefinn. Mæting á hátíðina var ágæt, svipuð og undanfarnar hátíðir og gaman að sjá hve mikið  af „okkar fólki“ mætir og tekur þátt í hátíðinni sem áhorfendur þótt það sé ekki að taka þátt í sýningum beint.

Það er mat nefndarinnar að þessi hátíð sé búin að sanna sig sem skemmtilegur og gefandi þáttur í starfsemi Bandalagsins. Þótt óvenju fá félög hafi tekið þátt í þetta skiptið þá virðist enginn hörgull á verkum og hátíðin styður við þann mikla vaxtarbrodd sem er í ritun stuttverka innan áhugahreyfingarinnar og er höfundum innan leikfélaganna hvatning til frekari dáða. Á þessum fjórum hátíðum sem haldnar hafa verið hafa 13 leikfélög sýnt alls 59 verk, nánast öll samin (eða þýdd) af fólki úr okkar röðum. Þegar við bætist að ef frá er talin prentun á leikskrá og plakati er þessi hátíð okkur nánast að kostnaðarlausu, teljum við það engum vafa undirorpið að halda skuli þessu samstarfi áfram, í það minnsta annað hvert ár.

fh. framkvæmdarnefndar Margs smás
Ármann Guðmundsson

Umræður um skýrslu framkvæmdanefndar Margs smás

Lárus lýsti yfir að hann hefði haft efasemdir um hátíðina vegna dræmrar þátttöku félaga. Hún væri fyrst og fremst stunduð og sótt af leikfélögunum á suðvesturhorninu og spurning hvort þau eigi ekki bara að halda þetta án þess að Bandalagið komi neitt þar að.

Margrét benti á að mörg félög teldu að á hátíðinni mætti bara sýna ný verk, ekki verk sem sýnd hafa verið áður og því fyndist hennar félagi það ekki eiga heima þarna.

Ármann andmælti Lárusi og sagði að Borgarleikhúsið bjóði Bandalaginu að halda hátíðina, ekki einstökum aðildarfélögum þess. Hann benti á að kostnaður yrði nánast enginn við hátíðina eftir að ný ljósritunarvél verður keypt, hátíðin væri fyrir alla og ekki þyrfti að vera um nýtt efni að ræða, það kæmi hvergi fram. Hann andmælti einnig því að Margt smátt væri að gera útaf við einþáttungahátíðir í tengslum við Bandalagsþing, aðstæður væru einfaldlega breyttar og aðsókn á Bandalagsþing hefði verið að minka jafnt og þétt undanfarin ár. Hann vill skoða það að halda Margt smátt aftur í haust.

Þorgeir kvaðst vilja að áherslu yrði lögð á að Margt smátt sé ekki nýverkahátíð næst þegar hún verður haldin, nú þegar sé til mikið efni sem henti til sýninga á þessari hátíð.

Sigurveig sagði að þrátt fyrir að mörg leikfélög notfæri sér ekki þjónustu á borð við leiklistarhátíðir eins og t.d. Margt smátt, þýddi það alls ekki að það ætti að hætta að halda þær.

Lárus sagði að það sem hann átti við væri að svona viðburðir ættu sífellt að vera í endurskoðun, ekki vera sjálfgefnir.

Hrund sagði að áhyggjur Margrétar ættu sannarlega rétt á sér og það yrði að stuðla að því að breyta þessum hugsunarhætti.

Þorgeir sagði að ekki væri hægt að dæma um hvort einþáttungahátíðir væru liðin tíð þó svo að ekki hafi orðið af henni í þetta skipti, fyrir því gætu verið ýmsar ástæður. Við þyrftum að reyna aftur og ef engin þátttaka verður þá þurftum við að hugsa okkar gang.

Margrét Tryggvadóttir sagði að ástæðan fyrir hennar upplifun væri sú að þegar leikfélagið hennar tók þátt í Mörgu smáu og var eina félagið með verk sem var ekki frumsamið snérist gagnrýnin að verulegu leyti um verkin sjálf, ekki sýninguna.

10.     Drög að starfsáætlun næsta árs kynnt og skipað í starfshópa.
Þorgeir kynnir drög að starfsáætlun. Hann benti á að orðalagi hefur verið breytt frá fyrri fundum. Lárus skiptir fundarmönnum í hópa.

11.     Kjörnefnd tilkynnir niðurstöður sínar og mælir með a.m.k. 1 aðila í hvert  sæti sem kjósa skal í.
Regína kynnti stöðu í stjórnarkjörsmálum.

12.    Lagabreytingar.
Þorgeir kynnti lagabreytingartillögur stjórnar. Þær eru fyrst og fremst aðlögun laganna að því hvernig vinnulag hefur verið í raun.

Elva Dögg lagði til að sett yrði inn „Bandalagsins“ til skýringar í breytingu á 4. grein.
Stjórn fór fram á leyfi fundarins til að gera tillögu Elvu að sinni og fékk það. Greinin samþykkt einróma þannig.

Vilborg gerði þá breytingartillögu, að í 6. grein mundi standa „fundarboði skuli fylgja reikningar Bandalagsins og framkomnar lagabreytingartillögur“. Breytingartilaga stjórnar með viðbót Vilborgar samþykkt einróma.

Breytingartillaga stjórnar á 7. og 8. lið samþykktar með öllum atkvæðum.

10. grein er viðbót við lögin. Hörður Sigurðarson og Guðrún Halla Jónsdóttir lögðu til breytingu við 10. grein sem hljómar „Stjórn afhendir hverri nefnd skipunarbréf þar sem kveðið er á um hlutverk hennar“. Að öðru leyti stæðu tillaga stjórnar. Samþykkt einhljóma.

Breytingar á 12. og 13. grein samþykktar.

Lagabreytingar með framkomnum breytingartillögum samþykktar í heild.

13.    Tillögur lagðar fyrir fundinn.
Vilborg lagði til að 1,5 milljón af verkefnastyrknum frá ríkinu færi til að borga prentun Sögu Bandalagsins. Samþykkt einróma.

Hópastarf unnið og hópar skiluðu niðurstöðum:

Hópur 1
Niðurstöður umræðna í starfshópi 1 voru á þessa leið:
– Að skoðaðar verði leiðir til til að hvetja þau félög sem ekki hafa sent fólk í Bandalagsskólann til að gera það, t.d. með styrkjum eða tilboðum fyrir fyrsta nemandann.
– Að gerður verði út fulltrúi til að fara um landið og skoða möguleika á staðsetningu fyrir Bandalagsskólann.
– Bæta þyrfti verslunarhluta leiklist.is, t.d. með myndum af vörum og betri upplýsingum þær.
– Bandalagið ætti að koma fjárhagslega til móts við leikfélögin til að hægt sé að fjármagna faglega umfjöllun um sýningar.
– Heyrst hefur að félög sem telja sig hafa frambærilega leiksýningu, sæki ekki um Athyglisverðustu áhugaleiksýninguna vegna þess að ekki sé víst að félagið geti sýnt í Þjóðlekhúsinu á venjubundnum tíma. Að okkar mati er þetta röng hugsun, aðalatriðið Athyglisverðustu áhugaleiksýningunnar er viðurkenningin sem felst í valinu. Sýning í Þjóðleikhúsinu er bónus í því samhengi, ekki aðalatriðið.

Hópur 2
Almenn starfsemi.

1. Almennt
a) Rekstur þjónustumiðstöðvar.
Hópurinn mælir með því að kauptilboðinu í húsnæðið á Laugaveginum verði tekið, leigt og leitað að hentugu, aðgengilegu húsnæði sem keypt verði við fyrsta tækifæri.

b) Leiklistarskólinn.
Rætt var jákvætt um skólann. Mælt með mismunandi námskeiðum, styttri helgarnámskeiðum auk námskeiðana í sumarskólanum.
Rætt var um kynningu á skólanum og hvernig hægt væri að ná til þeirra leikfélaga sem ekki hafa sent nemendur. Rætt um að það vanti tengsl milli skólans og þessara leikfélaga og nefnd sú hugmynd að virkja þá sem hafa farið í skólann í því að kynna skólann vel í sínum landshluta. Nefndir voru sæludagar/þemavikur framhaldsskólana sem vettvangur til kynningar. Einnig að skrifa dagbók í skólanum sem verði sýnileg á forsíðu vefsins.

c) Leiklistarvefurinn.
Ánægja með vefinn. Gott að setja inn hnapp til að stækka letrið. Rætt um hvaða fréttir birtast á sjálfri forsíðunni og hverjar rata beint í dálkinn til hægri. Spurning hvort hægt er að tryggja að fréttir af frumsýningum félaganna víki ekki fyrir öðrum fréttum á forsíðunni.

d) Aðrir fastir liðir í starfsemi.
Rætt var um kynningu á Bandalaginu og mikilvægi þess að virkja staðarblöð þar sem Bandalagsþing eru haldin til að segja frá þinginu og starfi Bandalagsins, svo sem skólanum.

2. Leitað eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum.
Já.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.
Nefnt var mikilvægi þess að tryggja að leikhópnum standi til boða að sýna á stóra sviðinu. Þá var nefnt að minni áhugi virðist vera á þessu hjá Þjóðleikhúsinu eftir leikhússtjóraskiptin, svo sem viðvera leikhússtjóra á sýningu og boð eftir sýningu. Samstarfið er engu að síður áhugavert og sjálfsagt að halda því áfram meðan vilji er hjá Þjóðleikhúsinu og einhverjir sækja um.

Sérverkefni ársins

1. Halda áfram undirbúningi NEATA-hátíðar 2010.
Gott mál. Rætt um að gera hefði mátt betur grein fyrir starfi NEATA á þessum fundi, svo sem undirbúning að þátttöku Íslands í NEATA hátíðinni í haust. Mjög æskilegt að hefja kynningarstarf fyrir NEATA hátíðina á Íslandi sem allra fyrst, sérstaklega innan félaganna til að þau geti undirbúið sig fyrir þátttöku. Mjög spennandi ef sem allra flest félög bítast um að sýna á hátíðinni og mikilvægt að sem allra flestir úr hreyfingunni mæti sem áhorfendur.

2. Hefja skönnun á handritasafni Bandalagsins.
Já endilega. Gott að móta frekar hlutverk safnsins. Mikilvægt að fyrirkomulag á varðveislu taki mið af því með hvaða hætti á að miðla handritum. Hnykkt á mikilvægi þess að skrifa útdrætti, tekið jákvætt í hugmyndir sem hafa komið fram um þetta, eins og að virkja þá sem vitað er að lesa leikritin. Gott að fram komi hvort og hverjir hafi sýnt verk hér á landi.

3. Úthlutunarreglurnar.
Mikilvægt að reglurnar séu aðgengilegar, t.d. kynntar á vefnum. Rætt um tímalengd sýningar í fullri lengd, algengara að sýningar séu styttri en 90 mínútur og spurning með að skoða að stytta þetta.
Rætt um hvað fælist í sérstöku frumkvæði, gott að hafa það opið en spurning um að taka dæmi svo sem um frumsamda tónlist.

4. Margt smátt.
Rætt um hátíðarbraginn. Sú skoðun kom fram að hér áður hefðu komið áhorfendur víðar að en innan Bandalagsins og það hefði skapað mikla stemmingu. Gagnrýnivert að leikfélögin sem voru að sýna á síðustu hátíð horfðu sum hver ekki einu sinni á aðrar sýningar. Þá er mikilvægt að gera hlé milli sýninga og gagnrýni til að gefa þeim almennu áhorfendum sem vilja kost á að fara enda er gagnrýnin kannski fyrst og fremst fyrir þátttakendur.
Hópurinn gerir þá tillögu að hátíðin Margt smátt verði haldin leikárið 2008-2009 í svipuðu formi og verið hefur.

5. Gagnrýni/umfjöllun um leiksýningar.
Alvarlegt að blöðin neita stundum að birta fréttatilkynningar um leiksýningar. Spurning hvort að stjórn BÍL eða sérstök nefnd verði skipuð til að skoða sameiginlegar áherslur í kynningarmálum, þ.e. varðandi almenna umfjöllun um áhugaleiklistina, koma upp lista af tengiliðum hjá fjölmiðlum, skipuleggja PR námskeið fyrir leikfélögin og skoða nánar umfjöllun/gagnrýni um sýningar. Hópurinn mælir með því að leikfélög verði hvött til að greiða í gagnrýnendasjóð og Bandalagið komi sér upp lista að af þeim sem eru til í að skrifa. Frábær hugmyndin um námskeið Þorgeirs og Hrundar í gagnrýniskrifum, spurning með að hafa það strax í haust.

Hópur 3
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar er í góðum höndum.
Leiklistarskólinn: Almenn ánægja er með skólann en við veltum fyrir okkur hvort það væri betra að rótera um landið með hann. Endilega halda áfram að leita að hentugu húsnæði.

2. Vefnefnd. Beinum því til skrifstofu að biðja leikfélögin um umsagnir um þau leikrit sem þau setja upp, þannig mætti bæta listann á vefnum og auðvelda val á leikritum. Einnig mætti setja upp lista með þeim verkum sem félögin eru að sýna.

3. Endilega halda áfram að pressa á Menntamálaráðherra og fjárlaganefnd að hækka styrki til skrifstofu og aðildarfélaga. Hvetjum jafnframt aðildarfélögin til að sækja um styrki til fjórðungssambanda og sjóða í heimahéraði. Endilega byrja að sækja um styrki til einkaaðila vegna Leiklistarhátíðarinnar 2010.

4. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið, en gaman væri að fá lista yfir þær sýningar sem sækja um og birta hann á vefnum til að skapa umræður og stemmingu.

Sérverkefni:

1. NEATA 2010. Beinum þeim tilmælum til stjórnar að setja á fót fastanefnd sem vinni að fjármögnun NEATA-hátíðinni 2010  og sú nefnd taki til starfa sem fyrst.

2. Handritasafn. Hefja skönnun á handritasafni en kanna hvort ekki fáist styrkir til verksins sem standa straum af auknu vinnuálagi, t.d til Reyjavíkurborgar, Atvinnutryggingarsjóðs og í menningarsjóði svo eitthvað sé nefnt.

3. Úthlutunareglur. Leggjum til að fullur styrkur miðist við 70 mínútna sýningarlengd. Styrkir vegna námskeiða verði endurskoðaðir og verði í samræmi við umfang og kostnað námskeiða.

4. Margt smátt. Halda áfram samstarfi við Borgarleikhúsið en finna leið til að kynna betur hvað fer fram á þessari hátíð, sérstaklega fyrir þeim félögum sem ekki senda verk. Kannski þarf að fara af stað í haust með átak, stjórn og varastjórn hringi eða heimsæki fósturfélögin sín og kynni Margt smátt og haustfund ef hann verður. Leggjum til að skoða áhuga á Mörgu smáu í haust.

5. Gagnrýni. Stofna sjóð sem þau félög sem vilja fá til sín gagnrýnanda borgi í, listi yfir þá sem gefa kost á sér til verði á skrifstofunni. Frábært ef Toggi og Hrund halda námskeiði𠠄Hvernig skrifa á gagnrýni“ í tengslum við haustfund, aðalfund eða vetrarnámskeiðin á vegum Bandalagsins.

Hópur 4
Niðurstöður umræðna í starfshópi 4 voru á þessa leið:
– Almenn ánægja er með rekstur og þjónustu Þjónustumiðstöðvarinnar og hugmyndir um sölu húsnæðisins og flutning í annað þar sem aðgengi er gott. Æskilegt er að halda megi styttri námskeið í húsnæðinu. Nauðsynlegt er að halda námskeið í stjórnun leikfélaga reglulega.
– Fólk er ánægt með vefinn en vill fá kennslu í möguleikum hans, t.d. hvernig ítarleg leit virkar.
– Hópurinn leggur til að Lestrarhestafélagið verði endurvakið á þessum fundi.
– Hópurinn lýsir yfir ánægju með skólann, þ.e. þeir úr honum sem þekkja til hans, en hefur áhyggjur af aðgengismálum.
– Lagt er til að hugmynd um landshlutasamtök verði skoðuð.
– Ánægja er með hvað varaformanni og framkvæmdastjóra gekk vel að fá fjárframlög hækkuð á fundi með fjárlaganefnd.
– Ástæða er til að hvetja leikfélögin til að vera virk þegar kemur að NEATA-hátíðinni og kynna hana jafnramt vel á leiklist.is. Benda má leikfélögnum á að velja verk til sýninga næsta leikár með hliðsjón af því að þær henti fyrir hátíðina. Einnig þyrfti að hvetja fólk til að upphugsa leiðir til að fá styrki fyrir hátíðina og miðla upplýsingum um aðferðir ef þær gefast vel.
– Vilji er fyrir því í hópnum að Margt smátt verði haldið næsta haust en jafnframt að boðið verði upp á einþáttungahátíðir meðfram aðalfundum annað hvert ár.
– Lagt er til að stofnaður verði gagnrýnisjóður og að stjórn móti reglur hans og skipunarbréf.
– Varðandi úthlutunarreglurnar vill hópurinn að styrkir vegna námskeiða verði hækkaðir í takt við þróun verðlags.

Umræður um starfsáætlun

Þorgeir auglýsti eftir að einhver tæki að sér að skrifa eiginlega tillögu til stjórnar um skipun Gagnrýnisjóðs. Einnig um annað það sem menn vilja að fari inn sem tillögur. Hann lýsti yfir ánægju með áhuga á erlendu samstarfi og greindi lítillega frá starfssemi NEATA.

Lárus lagði til að hvert leikfélag þyrfti að borga í Gagnrýnisjóð í samræmi við fjölda sýninga þess á leikári, ef af stofnun sjóðsins yrði.

Ólöf Þórðardóttir lagði fram eftirfarandi tillögu:
Að haldin verði haustfundur 2008.

Hörður lagði með eftirfarandi tillögu:
Að mótaðar verði tillögur  að skipulegri umfjöllun um leiksýningar áhugaleikfélaganna t.d. með stofnun sjóðs, sem Bandalagið annars vegar og áhugaleikfélögin hins vegar, greiða í árlega til að standa straum af kostnaði.

Hörður baust fyrir hönd Lf. Kópavogs að halda haustfund með fyrirvara um samþykki stjórnar félagsins.

Lárus efaðist um að tillaga Harðar væri næg ástæða til að halda haustfund. Það þyrfti að skoða með tilliti til kostnaðar og þarfar.

Þorgeir benti á að í loftinu lægju hugmyndir um námskeið í gagnrýniskrifum, stjórn leikfélaga og kynningarmálum. Spurði hvort það væri mögulega eitthvað sem hægt væri að gera í haust í samfloti við stuttan haustfund.

Hrefna lagði fram þrjár tillögur:

– Að starf handritasafnsnefndar haldi áfram í samræmi við bókun síðasta aðalfundar og að stjórn móti frekar hlutverk nefndarinnar. Hún rökstuddi það með að nauðsynlegt væri að vita hvað ætti að gera við handritasafnið áður farið væri útí að skipuleggja varðveislu.

– Að skólanefnd skoði möguleika á að skipuleggja námskeið næsta vetur um stjórnun leikfélaga, kynningarmál og umfjöllun/gagnrýniskrif um leiksýningar.

– Að Margt smátt verði haldið haustið 2008 með svipuðu sniði og verið hefur.

Ásta Gísladóttir varpaði fram þeirri hugmynd að umbuna mætti leikfélögum í fyrsta sinn sem einhver kæmi frá þeim, t.d. með verulegum afslætti af skólagjaldi fyrir fyrsta nemandann.

Bernharð Arnarson spurði hvort ástæða væri til að umbuna þeim sem ekki hefðu sótt skólann hingað til.

Hörður taldi það tilraunarinnar virði að athuga hvort það skilaði fjölbreyttari flóru frá leikfélögunum í skólann.

Þorgeir taldi aðalatriði í tillögu Ástu vera að leita ætti leiða til að fá fleiri félög til að sækja skólann

Hrefna sagðist telja að réttast væri að gera þetta í gegnum styrkjakerfi Bandalagsins, ekki í gegnum fjárhagsáætlun skólans. T.d. með hærri styrk til þeirra félaga sem búa langt frá skólanum.

Guðrún Halla sagði að úthlutunarreglur þyrfti ekki að samþykkja á aðalfundi, stjórn gæti breytt þeim að vild.

Lárus sagðist telja að aðalfundur geti ákveðið úthlutunarreglur sem stjórn þyrfti þá að fara eftir. Þó svo að það hefði ekki gerst ennþá.

Halla varaði við að settar væru niðurnjörfaðar tillögur um úthlutunarreglur þar sem það væri stjórnin sem þyrfti að vinna eftir þeim og vissi best hvernig þær virkuðu. Hún lýsti yfir stuðningi við 100% styrk fyrir 80 mínútur.

Þorgeir sagðist ekki skilja hvers vegna stjórn breytti úthlutunarreglum eftir sínum geðþótta. Henni bæri siðferðileg skylda að bera tillögur sínar undir aðalfund. Því væri það ekki eðlilegt að nein önnur samkoma en aðalfundur breytti reglunum.

Hörður sagði að sér þætti fullur styrkur fyrir 70 mínútna langa sýningu of mikil stytting í  einu skrefi og sagðist telja að 80 mínútur væri hæfilegt.

Hrund hvatti leikfélögin til að bjóða stjórn Bandalagsins á frumsýningar og lagði til að á móti mundi Bandalagið borga ferðakostnað fyrir 1-2 á viðkomandi stað. Slíkt mundi styrkja tengsl stjórnar og félaganna.

Lárus bað um að skýr mörk yrðu sett á milli starfsáætlunar og annarra tillaga og að hlé yrði gert á fundinum til morguns svo að stjórn gæti glöggvað sig á stöðu mála. Samþykkt.

4. maí – aðalfundi haldið áfram

Fundi framhaldið, fundarstjóri setti fund og kynnti tillögur stjórnar ásamt þremur breytingartillögum. Fyrst var farið yfir tillögu stjórnar að starfsáætlun og þau sérverkefni sem tillögur höfðu borist um til viðbótar við þær, en það voru tillögur Hrefnu um að halda Margt smátt n.k. haust, um að skólanefnd móti tillögur að námskeiði og um handritasafnsnefnd, tillaga Ólafar um að haustfundur verði haldinn í ár, auk tillögu Harðar um að unnið verði að stofnun sjóðs til að greiða fyrir umfjallanir um sýningar.

Tillögur að starfsáætlun allar samþykktar sem og allar aukatillögur að sérverkefnum.

Starfsáætlun hljóðar veturinn 2008- 2009 hljóðar því svona:

Starfsáætlun Bandalags íslenskra leikfélaga leikárið 2008-2009

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Sérverkefni ársins

1. Halda áfram undirbúningi NEATA-hátíðar 2010 og hefja fjármögnun hennar, m.a. með umsókn í menningarsjóð ESB.

2. Hefja skönnun á handritasafni Bandalagsins.

3.  Margt smátt verði haldin í haust í svipuðu formi og verið hefur.

4. Starf handritasafnsnefndar haldi áfram í samræmi við bókun síðasta aðalfundar og að stjórn móti frekar hlutverk nefndarinnar.

5.  Skólanefnd skoði möguleika á að skipuleggja næsta vetur námskeið um stjórnun leikfélaga, kynningarmál og umfjöllun/gagnrýniskrif um leiksýningar.

6. Að haldinn verið haustfundur 2008.

7.  Mótaðar verði tillögur að skipulegri umfjöllun um leiksýningar áhugaleikfélaganna, t.d. með stofnun sjóðs sem Bandalagið annarsvegar og áhugaleikfélögin hinsvegar greiða í árlega til að standa straum af kostnaði.

Aðrar tillögur lagðar fram

Árný Leifsdóttir Lf. Ölfuss lagði fram eftirfarandi tillögu:

Ég, undirrituð, legg til að hópurinn Lestrarhestar verði endurlífgaður. Tilgangurinn er að lesin verði handrit í egiu Bandalagsins og útdráttur unninn úr þeim. Útdrátturinn verði síðan birtur á Leiklistarvefnum til að auðvelda aðildarfélögum verkefnaval.

Tillaga Árnýjar Leifsdóttur um að endurvekja Lestrarhestafélagið samþykkt.

Lárus Vilhjálmsson lagði til að fullur verkefnastyrkur greiðist fyrir 80 mínútna verk og lengri í stað 90 mínútna og að styrkur til félaga vegna nemanda í Leiklistarskólanum yrði hækkaður úr 5.000 kr. í 8.000 kr.

Vilborg benti á að kannski væri fullbratt að leggja fram breytingar án kynningar á meðal aðildarfélaganna. Einnig benti hún á að ójafnvægi væri í styrkveitingu vegna mjög mismunandi tímalengdar námskeiða. Auðvelt væri að setja hlutfall inn í reglurnar.

Þorgeir tók undir athugasemd Vilborgar um að kynna hefði mátt þessa tillögu betur, hins vegar séu breytingarnar ekki það umfangsmiklar að ekki sé hægt að samþykkja þær.

Ingólfur Þórsson gerði athugasemdir við að of hratt væri farið í málið og vildi láta leggja tillöguna fram í tvennu lagi. Einnig taldi hann taka ætti meiri tíma í móta tillögur sem þessar og jafnvel athuga hvort ekki  væri fleira sem mætti laga.

Lárus samþykkti að skipta þeim í tvennt.

Guðrún Halla lagði fram breytingatillögu um að upphæðin sem veitt yrði í styrk væri tengd við lengd námskeiðsins..

Vilborg lagði til að seinni tillagan yrði dregin til baka, unnin betur og lögð fram á næsta þingi. Fundurinn samþykkti það.

Tillaga um styttingu tímalengdar úr 90 mínútum í 80, til að leiksýning teljist í fullri lengd, samþykkt.

15. Stjórnarkjör
Regína Sigurðardóttir greindi frá hverjir gæfu kost á sér. Til aðalstjórnar voru það Hörður Sigurðarson Leikfélagi Kópavogs, Guðfinna Gunnarsdóttir Leikfélagi Selfoss, Ingólfur Þórsson Freyvangsleikhúsinu, Ólöf Þórðardóttir Leikfélagi Mosfellssveitar, Hanna Bryndís Þórisdóttir Leikfélagi Sauðárkróks og Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir Leikfélagi Sauðárkróks. Kosningu hlutu Ingólfur, Hörður og Guðfinna.

Til varastjórnar buðu sig fram Elva Dögg Gunnarsdóttir Leikfélagi Hafnarfjarðar, Halla Rún Tryggvadóttir Leikfélagi Húsavíkur, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir Hugleik og Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir Leikfélagi Sauðárkróks. Kosningu hlutu Halla Rún og Sigríður Lára til 2 ára og Elva Dögg til eins árs.

16    a. Kosning 3ja manna kjörnefndar og eins varamanns til eins árs.
b. Kosning 2ja félagslegra endurskoðenda og eins til vara til eins árs.

Kjörnefnd kynnti tillögu sína:
Úr kjörnefnd gengu Regína Sigurðardóttir Leikfélagi Húsavíkur og Hjördís Pálmadóttir Freyvangsleikhúsinu. Örn Alexandersson Leikfélagi Kópavogs gaf kost á sér áfram og var einróma kjörinn ásamt Dýrleifi Jónsdóttur Leikfélagi Hafnarfjarðar og Hrund Ólafsdóttur Leikfélagi Kópavogs. Varamaður var kjörinn Gunnsteinn Sigurðsson Leikfélagi Ólafsvíkur.

Skoðunarmenn reikninga verða áfram Hrefna Friðriksdóttir Hugleik og Anna Jórunn Stefánsdóttir Leikfélagi Hveragerðis. Til vara Júlía Hannam Hugleik.

17.     Ákveðið árgjald til Bandalagsins.
Lárus ber fram tillögu stjórnar að óbreyttu árgjaldi leikfélaganna:

Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga leggur til að árgjöld aðildarfélaga fyrir leikárið 2008-2009 verði kr. 40.000.  Félög sem setja upp tvær styrkhæfar sýningar á leikárinu borgi eitt og hálft gjald eða 60.000 og félög sem setja upp þrjár sýningar eða fleiri borgi tvöfalt gjald eða kr. 80.000.  Félög sem setja ekki upp styrkhæfa sýningu á leikárinu borgi hálft árgjald eða kr. 20.000.

Tillagan samþykkt.

18.     Önnur mál
Þorgeir þakkaði nýkjörnum stjórnar- og varastjórnarmanna og lýsti yfir tilhlökkun með samstarf í framtíðinni. Hann opnaði fyrir umræðu um „samningsmál“ við leikstjóra. Nokkurs misskilnings virðist gæta, sérstaklega innan raða leikstjóra, um málið. Hann auglýsti eftir að fólk tjáði sig um reynsluna af núverandi fyrirkomulagi.

Vilborg hvatti til þess að Lestrarhestanefndin yrði stofnuð á fundinum, annars væri hætta á að ekkert yrði af neinu. Hún minnti fólk á fyrirhugaða ferð á NEATA hátíðina í Lettlandi og kynnti svar við fyrirspurn um gistingu o.þ.h. Frestur er til 15. maí til að skrá sig í ferðina. Hún þakkaði fráfarandi stjórnar- og varastjórnarfólki fyrir samstarfið og sagðist hlakka til samstarfs við nýtt fólk.

Hörður þakkaði traustið sem honum var sýnt. Hann spurði hvaða forsendur nefndin sem valdi sýningu á NEATA í Lettlandi hefði gefið sér.

Lárus sagði að valnefndin hefði einungis valið það verk sem hún taldi best. Hann taldi ekki rétt að velja eftir einhverjum öðrum forsendum, þrátt fyrir að félögin sem fara hafi verið þau sem oftast hafa farið á slíkar hátíðir.

Hörður sagði að gæði ættu vissulega að vera aðalforsenda en þar sem sýning sem ekki var valin var útnefnd athyglisverðasta áhugasýningin í vali Þjóðleikhússins sl. ár var ljóst að hún stóð fullkomlega undir gæðakröfum.

Guðrún Halla lýsti aðstæðum í leikhúsinu í Riga þar sem NEATA-hátíðin verður, sem hún sagði frábæra. Hún kvatti fólk eindregið til að fara á hátíðina. Hún óskaði Halaleikhópnum til hamingju með sigurinn í Þjóðleikhússamkeppninni. Hún lýsti yfir að hún væri sammála Herði um að þegar að í boði væru tvær jafnframbærilegar sýningar ætti að nota tækifærið og senda félag sem ekki hefði farið áður.

Ármann lýsti ánægju sinni með skráningu í Lestrarhestafélagið – formaður muni búa til leiðbeiningar um skráningu – Ármann leggur til að fólk byrji á því að skoða hvaða handrit félögin eiga sjálf og lesa þau handrit sem þau eiga og eru óskráð.

Margrét Tryggvadóttir þakkaði fyrir sig eftir nokkurra ára setu í varastjórn. Hún benti á að æskilegt væri að fundargestir fengju nafnspjöld til að auðvelda viðkynningu. Hún kvaðst tilbúin að vinna fyrir Bandalagið áfram utan stjórnar.

Lárus þakkar fyrir sig og stjórnarsamstarf undanfarin níu ár.

Hrund þakkaði fyrir samstarfið og óskaði nýju fólki til hamingju.

Þorgeir ræddi um erlent samstarf og möguleika á ferðum leikfélaga á erlendar grund. Hann benti á ýmsa kosti í þeim efnum. Skrifstofan fær reglulega send boð um að senda sýningar á hátíðir erlendis. Það má athuga hvort eitthvað sé í boði, undanfarin ár hefur orðið til mikil þekking um hvernig gott sé að standa að slíkum ferðum og sjálfsagt að leita í þann þekkingarsjóð.

Vilborg ræddi um húsnæðismál, sagði að ef að sölutilboði yrði tekið væri möguleiki á að leigja húsnæðið áfram fyrst um sinn ef annað brygðist. Óskaði eftir hjálp við flutninga.

Guðrún Halla þakkaði Þorgeiri fyrir umræðu um erlent samstarf. Mælti með leikferðum almennt. Lagði til að flutningum yrði breytt í karnival.

Bernharð bauðst fyrir hönd Leikfélags Hörgdæla til að halda aðalfund í Eyjafirði árið 2010, með fyrirvara um samþykkt stjórnar.

19.     Næsti aðalfundur, hugmyndir reifaðar um stað og stund.
Guðfinna bauðst fyrir hönd Leikfélags Selfoss til að halda aðalfund 2009 með fyrirvara um samþykki stjórnar. Leikfélag Ölfuss bauðst til að vera með þeim í því, einnig með fyrirvara um samþykki stjórnar.

Ása Hildur minnti á að aðgengi þyrfti að vera í lagi á fundarstað. Það hefði t.d. verið erfitt fyrir manneskju í hjólastól á þessum fundarstað.

Þorgeir þakkaði öllum fundarmönnum fyrir góðan og afkastamikinn fund. Sleit fundinum.